Heimanám virkar

heimanmFinnst þér fara of mikill tími í heimanám? Kanntu tíu mínútna regluna í heimanámi?

Reglan er afar einföld. Margfaldaðu bekkinn sem barnið þitt er í með 10 og þá ertu kominn með grófa viðmiðunartölu um hversu löngum tíma barnið þitt ætti að verja í heimanám. Barn í fyrsta bekk lærir þá að hámarki heima í 10-20 mínútur, í öðrum bekk í 20 mínútur og svo koll af kolli. Reglan gildir upp í sjötta bekk. Nemendur í 7.- 10. bekk ættu ekki að verja meiri tíma til heimanáms en 60-90 mínútur á dag að algeru hámarki. Ástæðan fyrir því er einföld. Margar rannsóknir benda til að of mikið heimanám geti valdið námsleiða og hafi truflandi áhrif á fjölskyldulífið og félagslíf barnsins. Notkun reglunnar er útbreidd um allan heim og er til dæmis ráðlögð af NEA (National Education Association) í Bandaríkjunum.

Hver er megintilgangur heimanáms?
Heimanám hefur margþættan tilgang; að skapa góðar námsvenjur, venja barnið á að vinna sjálfstætt og af ábyrgð og gefa foreldrum tækifæri á fylgjast með því sem barnið er að gera í skólanum. Megintilgangur heimanáms er hins vegar að þjálfa færni sem kennarinn hefur ekki tíma til að þjálfa með barninu á skólatíma. Þetta er sérstaklega áberandi þegar barnið er að tileinka sér lestur, lesskilning, grundvallaratriði í stærðfræði og ritun. Miðað við tímarammann hér að ofan þýðir það að kennarinn þarf að vanda vel til verka þegar hann skipuleggur heimanámið svo það verði ekki of langt.

Virkar heimanám?
Auðvitað virkar heimanám. Mannsheilinn er sem betur fer þannig gerður að hann virkar í öllum aðstæðum. Við getum lært alls staðar. Ekki bara í skóla eða á vinnustað. Hann virkar því augljóslega líka heima. Skárra væri það nú. Harris Cooper deildarforseti sálfræðideildar Duke háskólans og höfundur bókarinnar „The Battle Over Homework“ hefur ásamt félögum sínum farið yfir rannsóknir á heimanámi. Rannsóknir sem bera saman nemendur sem læra heima við þá sem gera það ekki en eru svipaðir að getu og öðru leyti sýna að heimanám skilar góðum árangri í öllum fögum óháð aldri. Aðferðafræðilega gallaðar rannsóknir sem bera saman nemendur með tilliti til heimanáms, en gæta ekki að því að nemendur eru mismunandi í grunninn, skila ekki eins afgerandi niðurstöðu. Eigi að síður benda um það bil 75% rannsókna af þessu tagi til þess að heimanám skili árangri. Margar rannsóknir benda til þess að þegar barninu er ofgert í heimanámi, líkt og í hryllingssögum sem heyrast af börnum sem sitja yfir námsbókum heima þannig að farið er að slaga í annan skóladag heima, geti það verið beinlínis skaðlegt og dregið úr áhuga barnsins.

Lokaorð
Heimanám virkar, sé það markvisst og ofgeri ekki barninu. Auðvitað eru til undantekningar frá meginreglunni; til eru börn sem hafa njóta þess að sitja yfir námsbókunum lengur en ráðlagt er og auðvitað eru einnig eru til börn sem ráða ekki við svo mikið heimanám sem hér er ráðlagt, en það eru frávik frá meginreglunni. Til eru leiðir til að auðvelda þér heimavinnuna með barninu og í næstu grein ætla ég að ræða þær.

Gylfi Jón Gylfason
Fræðslustjóri Reykjanesbæjar

Greinin  birtist áður í Víkurfréttum en er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

4 athugasemdir við “Heimanám virkar

 1. „Virkar“ heimanám?
  Fræðslustjóri Reykjanesbæjar slær því fram í ofangreindum pistli að „auðvitað virki heimanám“. Þótt ég skilji vel að í hlutverki sínu vilji hann vera jákvæður og leiðbeinandi gagnvart foreldrum, finnst mér flókið mál ofeinfaldað og slegið út af borðinu umræðulaust, ekki síst á vettvangi Krítarinnar. Hér þykir mér því ástæða til að varpa fram nokkrum spurningum um heimanám svo takmarkað sem það hefur verið rætt þá fjölmörgu áratugi sem það hefur viðgengist í grunnskólum landsins.
  Á hvern hátt „virkar“ heimanám (og um hvaða nemendur erum við að tala?): Eflir það námsárangur (og hvaða samband er þar um að ræða)? Eflir það samstarf skóla og heimila (og á hvern hátt þá)? Eflir það samband barna og foreldra þeirra? Eykur heimanám áhuga nemenda á námi, bætir það námstækni þeirra, leiði það til sjálfstæðra vinnubragða og jákvæðara viðhorfa þeirra til skólans? Hver á að dæma um hvort það „virkar“: kennarar, foreldrar, nemendur, fræðslustjórar eða einhverjir aðrir?
  Það er erfitt að mæla sérstaklega árangur heimanáms enda vitum við ekki hvort barn sem sinnir heimanámi geti ekki gert nákvæmlega það sama í námi sínu ef það sleppir heimanáminu. Það er auk þess erfitt að mæla eitthvað sem gerist annarsstaðar en í skólanum, einkum þegar ekki er alveg ljóst hver vinnur heimanámið (barnið eða foreldrið). Auk þess er spurning um mæliaðferðir, hvort próf í námsefninu er rétti mælikvarðinn á árangur heimanáms; fer það ekki eftir tilgangi þess?

  Almennari spurningar varða tilvist heimanáms yfir höfuð. Er verjandi að skólar ráðskist með tíma nemenda utan skóla eða krefja foreldra um að taka þátt í heimanámi eða styðja við það? Er eitthvert samkomulag í samfélaginu um hvort eða hvernig heimanám skuli lagt fyrir í grunnskóla? Er þess getið í námskrá, reglugerðum eða lögum? Hafa skólaskrifstofur eða grunnskólar unnið stefnu um heimanám? Eru til fyrirmyndir hér á landi um hvernig heimanámsverkefni skuli útbúin eða hvernig þau skuli metin? Fá nemendur endurgjöf á heimavinnu sína til að bæta hana? Hvað gera kennarar í því að einstaklingssníða heimanámsverkefni? Er samræmi á milli kennara um þessa vinnu? „Virkar“ heimnám e.t.v. betur fyrir þá sem gengur vel í námi en hina sem eiga efiðara með nám?
  Mér þætti vænt um að heyra ummæli fræðslustjórans (og allra annarra) um einhverjar þessara spurninga, eða bara viðurkenningu á því að málið sé e.t.v. ekki svo einfalt að hægt sé að slá því fram fyrirvaralaust að „auðvitað virki heimanám“.

 2. Mín skoðun er sú að heimanám sé arfur frá fortíðinni. Arfur frá þeim tíma sem nemendur vörðu mun minni tíma í skólanum. Í dag verja margir nemendur meiri tíma með kennaranum sínum en foreldrum á degi hverjum. Heimanám stuðlar einnig að ójöfnuði milli nemenda þar sem foreldrar hafa mismunandi forsendur til að aðstoða nemendur við heimanám. Því tel ég að skólar þurfi að marka sér stefnu og velja af kostgæfni í hvaða verkefnum þeir leita eftir markvissri samvinnu við heimilin – heimanám. Ágætis dæmi um gott samvinnuverkefni er lestrarnám nemandans og ýmis önnur einstaklingsmiðuð verkefni. Almennt finnst mér mikilvægara að leggja áherlsu á að nemendur hafi markvissa og góða kennslu í skólanum.

 3. Bakvísun: Viðbrögð við pistinum Heimanám virkar. | Krítin·

 4. Bakvísun: Heimanám – sjónarhorn foreldis | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s