Teymisvinna

teamÍ skólum eru viðfangsefni kennara margvísleg.  Til viðbótar við að kenna námsgreinar og bera ábyrgð á nemendahópum, taka stórir og smáir hópar kennara að sér fjölbreytt verkefni sem þeim er falið að leysa. Sumir þessir hópar vinna sem teymi en aðrir eru lausbeislaðri hópar sem ekki vinna endilega sem teymi.  Teymisvinna er oft árángursrík og gerir verkefni auðveldari viðfangs, því eins og máltækið segir vinna margar hendur létt verk. Teymismeðlimir styðja hver annan og bera sameiginlega ábyrgð á að verkefni teymisins vinnist.

Til að teljast teymi þurfa hópar að uppfylla ákveðin skilyrði. Einfaldasta skilgreining á teymi er hópur af fólki sem vinnur saman að sameiginlegu verkefni. Hópur fólks getur leyst  afmarkað verk af hendi,  en þegar verkin eru viðameiri, þarfnast skipulags og yfirlegu er mikilvægt að hópurinn þróist  og nái  að vinna saman sem teymi. Teymi  vinna saman að ákveðnu marki og allir meðlimir þess þurfa að leggja sig fram svo markmið þess náist. Til að hópur nái því, er sameiginlegur skilningur, samábyrgð og samstilling þeirra sem vinna í teyminu mjög mikilvæg.

Þegar teymi er sett saman er mikilvægt að hafa í huga að þeir sem sitja í teyminu búi yfir þeirri hæfni og færni sem þörf er á til að vinna teymisins gangi vel. Meðlimir teyma þurfa að vita hvað réð því að þeir voru valdir til að vinna í  tilteknu teymi. Þeir þurfa einnig að  þekkja hlutverk sitt og annarra teymismeðlima.

Þegar  ákvörðun er tekin um að setja á fót teymi eru nokkur grundvallaratriði sem þarf að huga að:

  •          Finnst  teymismeðlimum og þeim sem teymið vinnur fyrir, þörf fyrir það verkefni sem því er falið að vinna?
  •          Hefur verkefnið fylgismenn?
  •          Er skýr sýn með verkefninu sem öllum er ljós, innan teymis sem utan?

Ef  hægt er að svara þessum hlutum jákvætt er töluverður sigur unninn og hægt er að hefja vinnuna.

Þegar teymi hefja störf þarf verksvið og hlutverk hvers og eins teymismeðlims að vera ljóst.

Til að vinna teymis  verði markviss  þarf að ræða reglulega um það hvert er stefnt og til hvers er ætlast af hverjum og einum. Teymið þarf með reglulegu millibili að spyrja sig  spurninga eins og „hvernig gengur  okkur sem teymi?“  „Erum við að þokast áfram  í átt að markmiði okkar?“ „Eru markmiðin eitthvað farin að skolast til ?“ „Hvað hindrar okkur?“  „Hvað getum við gert betur?“

Þegar vinna  teymis er hafin er mikilvægt að  meta  með jöfnu millibili hvernig vinnan gengur. Einnig þarf að leita svara við spurningunni um það hvernig meðlimum í teyminu líður með störf sín. Finnst þeim þeir áorka einhverju? Hafa þeir velt fyrir sér hvers vegna vel eða illa gengur? Hafa þeir tillögur til úrbóta eða vilja þeir  gleðjast yfir einhverju sérstöku? Finnst þeim á þá hlustað og fá hæfileikar þeirra að njóta sín. Hefur hlutverk hvers og eins í  hópnum breyst? Er vinnuálag svipað hjá öllum?

Ef ekki gengur vel þarf að meta hvað gerðist og hvers vegna það gerðist og gera síðan áætlanir um með hvaða hætti á að bregðast við.  Hvað gekk vel?  Endurtaka það.  Hvað gekk illa? Varast að falla aftur í sömu gryfjurnar. Reyna nýja hluti og kannski þarf að byrja ferlið að nýju. Í einhverju tilvikum þarf nýja meðlimi í teymið eða í versta falli að hætta við verkefnið ef vinnan skilar ekki árangri.

Teymi  sem þekkja hlutverk sitt, vinna af einurð að því að leysa það viðfangsefni sem því var treyst fyrir og hafa innanborðs fólk sem getur skipt með sér verkum útfrá styrkleikum og veikleikum teymismeðlima eru mjög skilvirk og geta aukið  starfsánægju. Á sama hátt geta vanhugsuð eða illa samsett teymi ýtt undir vonleysi  starfsfólks og komið í veg fyrir að verk  vinnist. Því þarf að vanda sig þegar teymi eru mynduð því þau vinna ekki vel af sjálfu sér.

 

Byggt á:

Morris, Steve og Willocks, Graham Successful team building. (1997).Barrons Educational series.New York.

 

EK

 

1 responses to “Teymisvinna

  1. Bakvísun: Álitamál vegna skóla án aðgreiningar | Kennsla í margbreytilegum nemandahópi·

Færðu inn athugasemd