Orð kennara hafa áhrif

Athygli mín var vakin á þessu áhugaverða podkasti  „The Danger of Teachers Nostalgia“ sem ég hvet kennara til að gefa sér tíma til að hlusta á. Efnið er mörgum kunnuglegt; erfiði bekkurinn og umræðan um hann. Höfundurinn Jenifer Gonzalez segir að þegar kennari talar um hvað bekkurinn hans sé erfiður, jafnvel einn erfiðasti bekkur sem verið hafi í skólanum, megi gefa sér að viðkomandi nemendur séu í vanda staddir. Þegar kennarinn varar svo aðra kennara við bekknum, er líklegt að vandi nemendanna margfaldist. Kennarar sem hafa neikvæð viðhorf og væntingar til nemenda sinna svipta nemendurna möguleikanum á  framförum í námi, segir hún. Raunin er að nemendurnir leitast ómeðvitað við að uppfylla væntingar kennarans. Þetta er vel þekkt fyrirbæri sem kallast á ensku „Pygmalion effect“  og snýst um það hversu mikil áhrif væntingar kennara til nemenda hafa á námsárangur þeirra. Margar rannsóknir hafa verið gerðar til að sýna fram á þessi áhrif. Kennurum, sem eru að taka við nýjum nemendahópum eða bekkjum, er talin trú um að þetta séu slakir nemendur sem ekki sé hægt að búast við miklu af, og það verður raunin. Aðrir kennarar fá aftur á móti að vita að nemendurnir, sem þeir eru að taka við, séu afar efnilegir námsmenn sem muni ná miklum námsárangri og það gengur eftir,  jafnvel þótt um sambærilega nemendahópa sé að ræða.

Mergurinn málsins er að væntingar og umræða kennara um nemendur hafa meiri áhrif en ætla mætti.

NKC

Færðu inn athugasemd