Eru börn í dag verr uppalin en áður?

Eru börn í dag verr upp alin en áður? Spurningin var lögð fyrir danska félags- og barnamálaráðherrann Mia Marcado fyrir skömmu, og svar ráðherrans var; já. Tilefni spurningar fréttamannsins var tillaga á danska þinginu um stefnu í fjölskyldumálum, en markmið hennar er að styðja betur við foreldra, meðan þeir eru að ala upp börn síns. Þar er gert ráð fyrir virkri þátttöku atvinnulífsins. Í sama fréttaþætti var rætt við fleiri einstaklinga þar á meðal kennara, sem lýsti því hvernig væri að vera einn með 27 nemendur í kennslustund þegar einn þeirra tæki reiðikast. Í blaðagrein um sama efni kemur fram að margar ábendingar hafi borist ráðherra um að uppeldi barna ætti að vera forgangsmál. Um sama leyti og ég horfði á þennan fréttaþátt las ég nýju bókina hans Sir Ken Robinson, You, Your Child and School. Navigate Your Way to the Best Education. Það sem einkum vakti athygli mína í báðum tilvikunum var að sjónum er beint að foreldrum og mikilvægi þeirra í velferð barna sinna, þar á meðal menntun, öfugt við það sem mér hefur þótt einkenna tíðarandann. Þegar eitthvað hefur þótt mega betur fara í hegðun eða velferð barna og ungmenna hefur tilhneigingin ósjaldan verið sú að spyrja hvort og hvernig skólinn geti tekið á málunum, og  ósjaldan hef ég heyrt bent á lífsleikni sem kjörið úrræði.

Ekki þarf að hafa mörg orð um þær gífurlegu breytingar sem orðið hafa á daglegri umgjörð barna á síðustu áratugum. Ekki síst að þau dvelja nú mun lengur í leik- og grunnskólum og í frístundastarfi. Það er ekki óalgengt að börn fari að heiman upp úr klukkan 8 á morgnana a.m.k. 180 daga ársins, og komi varla heim fyrr en um klukkan 17 og jafnvel síðar. Aukin ábyrgð hefur því færst á hendur kennara og annars starfsfólks. Varla trúir nokkur maður því að þessi langi dvalartími barna utan heimilis sé til komin vegna þess að hann sé talinn gera börnunum svo gott. Gerum við okkur ekki öll ljóst að það eru þarfir fullorðna fólksins sem stýra þessu fyrirkomulagi?

Sem betur fer sýna rannsóknir þ.á.m. Pisa könnunin að börnum líður almennt vel í skólum á Íslandi og betur en gengur og gerist hjá öðrum þjóðum. Því miður sýna rannsóknir líka að allt of mörg íslensk börn þjást af  þunglyndi og kvíða, og þeim fjölgar ár frá ári.  Lyfjanotkun 5 – 9 ára drengja hér á Íslandi hlýtur að teljast alvarleg vísbending um að þeim líði ekki nægilega vel. Á ráðstefnu Landlæknisembættisins um heilsueflandi skóla  þann 31. ágúst s.l. kom fram að 16,33 % drengjanna eru á geðlyfjum þar á meðal svefnlyfjum, samanborið við 0,62 – 1,17 % í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Auðvitað geta lyf verið nauðsynleg og aukið lífsgæði fólks, en þegar 3-4 drengir í hverjum bekk á yngsta stigi líður svo illa að þeir þurfa að taka geðlyf, hlýtur það að vekja spurningar. Munurinn á íslenskum skólum og skólum á hinum Norðurlöndunum nægir tæplega til að skýra þessa skelfilegu staðreynd.

Ég trúi því að flest börn eigi forelda sem líta á það sem mikilvægasta verkefni sitt að annast þau, elska og styðja. Vandinn er að það er síður en svo auðvelt að ala upp barn í samtímanum þar sem allir eru í stöðugu kapphlaupi við tímann og kröfur sem þarf að mæta öllum stundum og úr mörgum áttum. Snjalltæknin með öllum sínum áskorunum gerir einnig miklar kröfur til foreldra, sem áður voru óþekktar. Vissulega hefur skólinn mörg tækifæri til að losa sig úr viðjum fyrirkomulags fyrri tíma og laga starfið betur að þörfum samtímans, og margir skólar vinna stöðugt að þeim markmiðum. Skólinn einn og sér getur þó engan veginn tekið alla ábyrgð á velferð barna og hann á heldur ekki að gera það, þess í stað á hann að styðja foreldra í uppeldi barna þeirra. Ein af áskorunum samtímans felst í því hvað uppeldi barna er margbreytilegt og hvað fólk hefur ólíkar skoðanir á því hvernig gott uppeldi á að vera.

Margir kannast við rannsóknir Diana Baumrind á uppeldisaðferðum, sem dr. Sigrún Aðalbjarnadóttir hefur vakið athygli á hér á landi, Robinson telur þær enn vera í fullu gildi. Baumrind skiptir foreldrum gróflega í eftirtalda hópa eftir því hvernig þeir annast uppeldi barna sinna: Stjórnsamir, eftirlátir, afskiptalausir og leiðandi. Eins og vænta má  hafa þessar ólíku uppeldisaðferðir mismunandi áhrif á börnin.

Lýsingin á aðferðunum og afleiðingunum í stuttu máli

  • Stjórnsamir foreldrar setja reglur sem þarf að fylgja. Beita jafnvel refsingum. Ætlast til hlýðni án þess að telja sig þurfa að útskýra málið. Þeir nota setningar eins og; „Af því að ég segi það“

Börn þeirra  hafa tilhneigingu til að vera vel skipulögð en óhamingjusöm og eiga oft erfitt með að aðlagast félagslega.

  • Eftirlátir foreldrar koma oft fram við börnin eins og jafningja eða vini. Þeir hafa fáar reglur og hafa ekki miklar væntingar til barna sinna. Þeir sýna ástúð og umhyggju en leggja litla áherslu á afleiðingar.

Börn þeirra eiga oft í erfiðleikum með að sætta sig við völd og reglur utan heimilisins svo sem í skólanum og ná oft ekki eins miklum árangri í nám og aðrir.

  • Afskiptalausir foreldrar halda sig eins mikið frá foreldrahlutverkinu eins og þeir komast upp með án þess að vanrækja börnin. Þeir tryggja að börnin hafi nauðsynlegan aðbúnað en leggja litla áherslu á umhyggju og leiðsögn.

Börn þeirra búa oft yfir lítilli sjálfstjórn, takmörkuðu sjálfstrausti og hamingju.

  • Leiðandi foreldrar setja reglur en útskýra oftast ástæðuna og eru opnir fyrir umræðum við barnið. Foreldrarnir vænta þess að barnið fylgi reglum sem hafa verið settar. Þegar barnið brýtur reglur er dreginn lærdómur af því. Útskýringar eru notaðar í stað refsinga.

Börn þeirra hafa tilhneigingu til að vera í hópi hamingjusömustu barnanna, búa yfir góðri félagshæfni og ná oft þeim markmiðum sem þau setja sér í lífinu.

Síðar hefur bæst við ein skilgreining til viðbótar, svokallaðir þyrluforeldrar eða krullforeldrar.

  • Þyrluforeldrar/ krullforeldrar (sbr. ísíþróttina krull) eru sífelt að vakta börnin sín og vernda þau til að koma í veg fyrir að þau hrasi eða þurfi að takast á við mótlæti. Þeir leiðbeina og hjálpa börnum sínum um hvað eina og hafa umsvifalaust samband við skólann ef einhver vísbending er um að eitthvað geti hamlað velferð barna þeirra.

Þessi börn fá ekki tækifæri til að takast á við áskoranir og læra því ekki að leysa vandamál eins vel og nauðsynlegt er. Þau læra ekki að treysta á sjálf sig, sem hefur áhrif á sjálftraustið. Þegar börn fá ekki að takast á við eigin mistök geta þau þróað með sér ótta við að gera mistök og að valda öðrum vonbrigðum. Uppeldisaðferðir af þessum toga geta leitt til þunglyndis og kvíða. (Chris Meno í Ken Robinson (2018) ).

Það má velta því fyrir sér af hverju síðastnefnda uppeldisaðferðin hefur bæst við, en mér finnst ekki ólíklegt að þar liggi að baki aukið álag á foreldra. Ég er ekki í minnsta vafa um að allir foreldrar vilja að börn þeirra verði vel undir það búin að takast á við áskoranir lífsins, fær um að eiga góð samskipti við aðra og hamingjusöm. Málið er bara flóknara en svo að foreldrar einir og sér eða skólinn geti leyst það. Við höfum skapað samfélag þar sem allt of margir virðast tapa, foreldrar, kennarar og síðast ekki síst börnin. Of mörg börn þjást af vanlíðan, hluti foreldra er að drukkna í vinnu og berjast við sektarkennd gagnvart börnum sínum og kennarar segjast vera að kikna undan álagi.

Eru börn hér á landi þá verr uppalin nú en áður? Ég hef spurt kennara víða um land þessarar spurningar og í megin dráttum er svarið, nei, ekki endilega, en þau eru öðruvísi upp alin og á mismunandi hátt, sum börn fá mjög gott uppeldi, önnur alls ekki og svo allt þar á milli. Eins og hér hefur komið fram felst uppeldi ekki eingöngu í því að aga börn, heldur miklu fremur í því að veita þeim dýrmætan stuðning svo þau verði fær um að öðlast farsælt líf bæði innra með sjálfu sér og í samstarfi við aðra, menn og náttúru.

Uppeldi barna ætti að vera forgangsmál, ekki aðeins vegna þess að þau eru börn og eiga rétt á því að eiga gott líf, heldur líka vegna þess að samfélag framtíðarinnar verður í þeirra höndum. Það er kominn tími til að staldra við og spyrja hvort við höfum gengið til góðs.  Þeirri spurningu þurfa fleiri að svara en foreldrar og starfsfólk leik- og grunnskóla og frístundastarfs, þetta er spurning sem allt samfélagið þarf að svara og bregðast við áður en enn fleiri tapa.

NKC

 

 

 

 

2 athugasemdir við “Eru börn í dag verr uppalin en áður?

  1. Gott að sjá að þið eruð komnar aftur með skynsamlegar athugasemdir ykkar um börn, uppeldi og skólamál. GLM

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s