Erum við að ala upp börn sem ekki geta tekist á við lífið?

Presentation2

Mér var bent á áhugaverða grein um daginn sem ég tel að sé mjög umhugsunarverð.

Greinin fjallar um það að nemendur í framhaldsskóla eru farnir að leita sér sérfræðiaðstoðar við hvaða smá áföll  sem þeir verða fyrir í daglegu lífi. Þeir reyna ekki sjálfir að glíma við hlutina heldur leita strax eftir aðstoð sérfræðinga líkt og um stóráföll sé að ræða. Hringja jafnvel á lögregluna þegar þeir sjá mús inni hjá sér og leita til námsráðgjafa þegar slettist upp á vinskapinn og ljót orð falla milli vina.

Það sama á við um að þegar nemendur fá lélega einkunn þá líta þeir á það sem tilefni til að kvarta við kennarann frekar en ástæðu til að leggja meira á sig í námi. Það er eins og ekkert sé á þeirra valdi, allt sá á ábyrgð annarra. Það er ekki ólíklegt að þessi viðbrögð nemendanna sem sagt er frá í greininni hafi eitthvað með það að gera hvernig þeir eru aldir upp. Lífið er ekki áfallalaust og börn sem stöðugt eru vernduð fyrir því að takast á við smá vandamál sem upp geta komið í lífi þeirra, þroskast ekki á því sviði að leysa úr smávandamálum. Hvert smámál sem upp kemur verður að stórmáli sem aðrir eiga að leysa fyrir nemendurna því annars komast þeir í gríðarlegt tilfinningalegt uppnám. Hvernig ætli  þessum börnum gangi að takast á við það þegar raunveruleg stór áföll dynja á þeim?

Ég er ekki þeirrar skoðunar að mikilvægast af öllu í uppeldi barna sé að kenna þeim að lífið sé ekki alltaf dans á rósum.  En það hlýtur að vera einn þáttur í uppeldi að styrkja börn til þess að reyna sjálf að leysa þau hversdagslegu algengu vandamál sem upp geta komið dags daglega. Í lífi og starfi eru stöðugt að koma upp mál sem þarf að leysa og það er mikilvægt fyrir hvern einstakling að vera fær um að takast á við sigra og ósigra í lífinu.  Jafnvel stundum einn og óstuddur þó gott bakland sé einnig mikilvægt.

Börn og ungmenni þurfa tækifæri til að þroska með sér hæfni til að takast á við þau vandamál og jafnvel áföll sem upp geta komið. Stundum þarf að leyfa þeim að takast á við það án utanaðkomandi aðstoðar.  Foreldrar sem stöðugt reyna að verja börn sín fyrir skakkaföllum og líta þannig á að skólar eigi að gera það líka ala upp börn sem ekki verða fær um að takast á við lífið sem fullorðnir einstaklingar.

Börn þurfa að læra að bera ábyrgð á eigin gerðum  til að þroskast og læra að leysa ágreiningsmál án íhlutunar annarra. Foreldrar sem hóta að kæra skólayfirvöld sem gera  athugasemdir við hegðun og framkomu nemenda eru ekki að ýta undir að börn þeirra verði ábyrgir þjóðfélagsþegnar. Þvert á móti eru þeir foreldrar að ala upp börn sem gera aðeins kröfur til annarra en sjálf sín. Foreldrar og kennarar sem hlaupa eftir öllum kvörtunum barna um samskiptavanda og ætla að leysa hann fyrir þau, koma í veg fyrir að börnin þroskist og geti tekist á við það að  vera innan um allskonar fólk, sem jafnvel líkar ekki við þau.

Það eru stórmunur á því að þagga niður eineltismál og taka aldrei mark á börnum og hinum öfgunum að hlaupa alltaf til við minnstu kvörtun og ætla að láta allt verða gott svo barninu manns þurfi ekki að líða illa. Stundum þarf börnum að líða illa og vera einmana, það er einn partur af lífinu.

Vöndum okkur í uppeldinu og leggjum okkur fram um að ala upp sterka einstaklinga sem geta leitað lausna á vandamálum hversdagsins í stað þess að blása þau upp og gera að stóráföllum.

EK

2 athugasemdir við “Erum við að ala upp börn sem ekki geta tekist á við lífið?

  1. Þetta er þörf umræða en kemur ekki vanmáttur barna af því að þeim er ekki kennt að takast á við hlutina. Margar athygliverðar sögur eru af ungum börnum sem hafa tekist á við erfiðar og alvarlegar aðstæður af þeim hefur verið kennt að takast á við þær. Kannski vantar meira en lítið upp á uppledi foreldra nú til dags og þörf að taka tillit til þess í skólakerfinu með nýrri námsgrein í sömu veru og slysavarnarfélög kenna hjálp í viðlögum. Það má ábyggilega taka út eitthvað þarflítið fag í staðin. ,,Ungur nemur gamall temur“.

  2. Ágætis umræða en misleidd. Aðstæður nútíma samfélags í samanburði við samfélagið sem var fyrir 20-30 árum er ekki alveg sambærilegt.
    Í dag geta allir sótt nám þeir sem vilja en ekki allir hafa getuna til að haldast í því, í samanburði við fyrir 30 árum gátu ekki allir sótt sér menntun jafnvel þó þeir hefðu mikla námsgetu.
    Í dag eru margar reglugerðir um hvað börn mega og mega ekki gera í samfélaginu og alltaf er verið að hækka lágmarksaldur til dæmis að keyra bíl eða vinna á atvinnumarkaði(16 ára) svo fá þessi börn ekki almennilega vinnu fyrr en í kringum 16-17 eða 18 því þau þurfa að koma sér sjálf til vinnu, til þess þarf bílpróf. Samfélagið er að svipta þau miklum lærdómi með því að leyfa þeim ekki að taka þátt í heimi hinna fullorðnu, þau eru geymd í skólakerfinu þar til þau eru orðin það gömul að við teljum þau vera viðræðu hæf og svo kvörtum við undan því að þau kunna ekki neitt, geta ekki neitt og nenna ekki neinu.
    Það er lítið sem ýtir undir það að þau læri að vera sjálfstæð, þetta er ekki bara vandamál uppeldis, heldur einnig stefnan sem samfélagið er búið að móta sér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s