Er einelti vandamál grunnskólans?

Mér finnst það stundum mjög ósanngjarnt hvernig umræðan um einelti er bundin við börn og grunnskólann. Með því er eins og við séum að þvo hendur okkar og gera skólann einan ábyrgan fyrir velferð barnanna. Þetta finnst mér allt of mikil einföldun á flóknu samfélagsvandamáli. Til þess að takast á við einelti af alvöru verður hver og einn að taka sína ábyrgð á því ofbeldi sem einelti er. Lítum okkur nær.

Einelti meðal fullorðinna

Eins og líklega flestir þekki ég dæmi um alvarlegt einelti á vinnustöðum fullorðinna. Í þeim tilvikum hafa m.a. yfirmenn á ólíkum vinnustöðum komið þannig fram að tilteknir undirmenn þeirra hafa jafnvel ekki getað sofið af kvíða fyrir að mæta í vinnu. Einn þessara einstaklinga lýsti því fyrir mér hvernig hann fékk hnút í magann í hvert sinn sem hann sá bíl yfirmannsins renna inn á bílastæðið. Annar fór grátandi heim úr vinnunni dag eftir dag í kjölfar niðurlægjandi athugasemda yfirmanns síns. Ein kona sagði mér frá því hvernig hún herti upp  hugann, fékk fund hjá yfirmanni sínum þar sem hún lýsti langvarandi niðurlægjandi athugasemdum samstarfsmanns síns. Nokkru síðar var hún boðuð á fund með yfirmanni stofnunarinnar og viðkomandi samstarfsmanni sínum sem sagðist koma alveg af fjöllum, hann hafði aldrei ætlað sér að særa viðkomandi og hafði ekki gert sér grein fyrir hvað hún væri viðkvæm. Konan gerði sér ljóst að hún hafði um tvennt að ræða, að segja upp í vinnu þar sem hún hafði átt farsælan starfsferil í fjölda ára, eða sætt sig við að vera bara allt of viðkvæm. Í þessu tilviki var það vissulega ekki yfirmaðurinn sem lagði í einelti, en með þekkingarleysi sínu kom hann í veg fyrir að hægt yrði að leysa eineltið og því var ábyrgð hans mikil. Ég tek það fram að í engum þessara tilvika var um grunnskóla að ræða.

Það eru vissulega fleiri en yfirmenn sem leggja í einelti. Hvert og eitt okkar ætti að spyrja sig að því hvort hann hafi einhvern tímann átt samstarfsmann eða félaga sem enginn hlustaði á. Sem þótti eðlilegt að gera grín að og reynt var að komast hjá að hafa of mikil samskipt við af því að hann var svo … einhvern veginn öðruvísi en hann átti að vera. Því miður hef ég sjálf verið hluti af svona vinnustaðarmenningu.

Það má finna einelti víðar en á vinnustöðum og í félagsstarfi. Hverjir kannast ekki við fjölskyldur sem eiga sinn svarta sauð, sem nýtur takmarkaðrar virðingar og má tala illa um. Svartan sauð sem kannski þarf æ ofan í æ að sætta sig við að það sé gert grín að honum og hlegið á hans kostnað.  Stundum láta svörtu sauðirnir þetta yfir sig ganga og taka jafnvel þátt í gríninu af því þeir eiga enga aðra úrkosti. En hver vill vera stöðugt aðhlátursefni sem aldrei er tekinn alvarlega?

Skólarnir hafa það þó fram yfir vinnustaði fullorðinna og fjölskyldur að allir þeir sem ég þekki  eru meðvitaðir um hættuna af einelti, líta það alvarlegum augum og hafa sett sér aðgerðaráætlun gegn einelti.  Þetta á ekki við um alla vinnustaði fullorðinna. Margir skólar leita stöðugt leiða til að sporna við einelti og sumir hafa hafa árum saman fylgt ákveðnum verkefnum til að styðjast við í forvörnum og inngripum varðandi einelti.

Það sem ég vil segja með þessum pisli er að þrátt fyrir að áhrif skólans séu mikil og ábyrgð hans óumdeild þá er það ekki á valdi hans eins að stöðva allt einelti, það þarf meira til. Skólinn endurspeglar yfirleitt það samfélag sem hann starfar í og gildi samfélagsins verða gildi skólans. Við fullorðna fólkið þurfum því öll að taka okkar ábyrgð.  Hvert og eitt, hvort sem við erum kennarar, foreldrar, fjölmiðlamenn, stjórnmálamenn eða annað þurfum við að líta í eigin barm og vera meðvituð um mikilvægi þess að vera góð fyrirmynd en þannig læra börn að lifa og starfa í samfélagi þar sem einelti og annað ofbeldi er ekki ásættanlegt.

Ef börnin okkar alast upp við það að við sýnum öðrum lítilsvirðingu með illu umtali, háði eða meinlegum athugasemdum, hvort sem það eru nágrannarnir, stjórnmálamenn, ættingjar, vinir, fræga fólkið eða aðrir, hvernig getum við þá vænst þess að aðrir ali börnin sín betur upp en við?  Ef börn nágrannanna eru alin upp við þessar aðstæður er alls ekki sjálfgefið að þau sýni börnunum okkar virðingu  og samkennd í skólanum, ekkert frekar en börnin okkar munu gera gagnvart sínum skólafélögum. Hér á svo sannarlega vel við orðtakið gamla: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Fyrirmyndir barnanna

Lítum aðeins á nokkrar fyrirmyndir barnanna okkar: Alþingi er æðsta stofnun þjóðfélagsins, þar sitja 63 þjóðkjörnir fulltrúar. Sveitarfélögin hafa einnig sína kjörnu fulltrúa sem fara með málefni þeirra. Skiljanlega verður oft málefnalegur ágreiningur milli meiri og minnihluta.  Daglega koma þessir fulltrúar fram í fjölmiðlum. Sem betur fer ber hluti þessara fulltrúa gæfu til að vera málefnalegir í umræðum sínum, en allt of oft verður almenningur þar á meðal börn og ungmenni vitni að allt öðru.  Háðsglósur, lítilsvirðandi athugasemdir, gripið fram í, talað hærra eru aðferðir sem sumir fulltrúar þjóðarinnar nota til að styrkja stöðu sína. Því meiri mælska, stóryrði og yfirgangur þess meiri áhrif.

Hvað gerist svo fyrir framan sjónvarpið heima? Hvaða lærdóm draga börnin af foreldrum sem tala af lítilsvirðingu um þá sem birtast á skjánum, hvort sem það eru stjórnmálamenn, íþróttamenn eða aðrar fjölmiðlastjörnur?

Ætli það séu öll börn svo gæfusöm að eiga foreldra sem geta átt málefnalegan ágreining án þess að gera persónulega árás? Og hversu mörg börn eru svo heppin að eiga foreldra sem innræta þeim að bera virðingu fyrir mismunandi skoðunum og kenna þeim að leita lausna þegar upp kemur ágreiningur?

Í íþróttum hefur það lengi tíðkast að hinir bestu fá að vera með og njóta virðingar meðan hinir eru látnir sitja hjá og fá þannig skýr skilaboð um að þeir séu ekki nógu góðir. Þannig verða til hinir varasömu hópar Við og Hinir en sagan sýnir allt of vel hvað sú skipting getur haft skelfilegar afleiðingar.

Hvernig leysa hetjur kvikmyndanna og tölvuleikjanna vandamálin? Sjaldnast er það með gagnkvæmri virðingu, samkennd og ábyrgð, eins og við ætlumst svo til að börnin leysi sinn ágreining.

Vissulega eru áhrif skólans einnig mikil.  Skyldu allir kennarar, hvort sem þeir eru í leik-, grunn- eða framhaldsskólum, vera meðvitaðir um hversu stóru hlutverki þeir gegna sem fyrirmyndir  í samskiptum sínum við alla nemendur og samstarfsfólk sitt?  Hvað viðhorf þeirra, orð og athafnir geta haft mikil áhrif á nemendur þeirra?

Einelti er afleiðing

Ég fylgi þeirri skoðun að einelti sé að stórum hluta afleiðing þeirra viðhorfa og samskipta sem eru ríkjandi í samfélaginu. Þar með hafna ég því ekki að persónuleg vandamál einstaklinga geti í sumum tilvikum skýrt einelti og annað ofbeldi. Einelti er þannig nokkurskonar sár á sjúkum líkama. Þess vegna þarf að gera meira en lækna sárið, það þarf að huga að öllum líkamanum. Samlíkingin getur hvort heldur sem er átt við samfélagið í heild sinni, einstaka vinnustaði, fjölskyldur, félagsstarf eða skóla. Þar sem gildi eins og virðing, samkennd og ábyrgð eru ríkjandi nær einelti og annað ofbeldi ekki að festa rætur og þegar það kemur upp er auðveldara að taka á því og stöðva það.

Það er auðvelt að beina spjótunum að skólunum og skiljanlegt að við viljum fyrst og fremst vernda börnin okkar gegn öllu ofbeldi, en spurningin er hvort það sé alltaf sanngjarnt að eigna skólanum einelti. Þurfum við ekki öll að líta okkur nær?

NKC

One response to “Er einelti vandamál grunnskólans?

  1. Einelti er ekki vandamál grunnskólans.
    Verð aðeins að fá að bregðast við þessari grein. Það er margt þarna sem ég get tekið undir eins og að í íþróttum hefur lengi tíðkast að hinir bestu fá að vera með og njóta velvirðingar á meðan aðrir fá skýr skilaboð um það að þeir séu ekki nógu góðir. Eins vil ég taka undir það að börnin læra það sem fyrir þeim er haft og að hlutverk okkar foreldranna sé að kenna börnum okkar að bera virðingu fyrir mismunandi skoðunum og að leita lausna þegar upp kemur ágreiningur. Aftur á móti get ég ekki verið sammála því að einelti sé bundið við börn og grunnskólann og enn síður að einelti sé vandamál grunnskólans.
    Einelti á vinnustöðum fullorðinna er algengt og hefur vinnueftirlitið brugðist við því með reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað 1000/2004. Reglugerð þessi gildir um aðgerðir gegn einelti á vinnustað sem lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, gilda um. Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumati, sbr. 65. gr. a. Markmið heilsuverndar er að: stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum, stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi, draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað og stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna. Það að láta einelti líðast á vinnustað varðar því við lög.
    Skólaumhverfið er í raun starfsumhverfi þar sem framtíðarstarfsmenn þjóðfélagsins þróa með sér andlega, líkamlega, félagslega og siðferðilega hegðun. Í reglugerð nr. 584/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum segir: ,,Allir skólar skulu hafa heildstæða stefnu fyrir skólann til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar skulu setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum“.
    Ef skólarnir hafa það fram yfir vinnustaði fullorðinna að vera meðvitaðir um áhættuna af einelti, líta það alvarlegum augum og hafa sett sér aðgerðaráætlun gegn einelti eru vinnustaðir fullorðinna ekki að standa sig og þá þarf frekar að taka á því frekar en að slaka á kröfum að hálfu skólans.
    Ákveðinn hópur nemenda er í meiri hættu en aðrir til að verða fyrir langvarandi einelti í skólanum þótt flestir upplifi stríðni af einhverju tagi í gegnum skólagöngu sína. Þeir nemendur sem oft eru einir geta átt erfitt með að verja sig gegn stríðni og eru því líklegri til að verða fyrir einelti. Nemendur sem eru að einhverju leyti öðruvísi eða eiga í námsörðugleikum eru einnig líklegri fórnarlömb. Síðan eru aðrir sem geta sjálfir átt þátt í því að koma eineltinu af stað með óviðeigandi og jafnvel ögrandi hegðun. Talið er að félagslegar aðstæður fjölskyldna geti haft áhrif á einelti, en það er talið algengara á meðal barna sem alast upp við bágar félagslegar aðstæður. Ef börn alast upp við bágar félagslegar aðstæður er það skólans að hjálpa þessum börnum því ef skólinn gerir það ekki gerir það enginn. Með því að ráða inn fagaðila við hæfi og bæta stoðkerfi skólanna getur hlotist sparnaður því rannsóknir hafa sýnt fram á marktæk tengsl milli eineltis í æsku og geðrænna erfiðleika seinna á lífsleiðinni.
    Auðvitað þurfa allir að líta sér nær og gera sitt besta til að vernda börn sín gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi auk þess að kenna þeim muninn á réttu og röngu. En því miður eru ekki allir foreldrar eða forráðamenn færir um það. Þá þarf skólinn að hjálpa til en það er enginn sem eignar skólanum einelti. Enda skil ég þessi orð á þann hátt að það sé skólinn sem leggi börn í einelti en ekki einstaklingar sem leggja aðra einstaklinga í einelti hvort sem um nemendur eða kennara sé að ræða.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s