Þegar barn byrjar í skóla

Sonarsonur minn byrjar í 1. bekk næsta haust og þess vegna velti ég nokkuð fyrir mér væntingum mínum til skólans sem hann mun dvelja í næstu árin. Það er einlæg ósk mín að í skólanum fái minn litli afkomandi að vera hann sjálfur, njóta öryggis og vinna með styrkleika sína og áhugasvið. Ég vona að í skólanum læri hann að þau gildi sem hann er alinn upp við séu jafn rétthá og gildi annarra sem eru með honum í  skólanum. Í það minnsta á meðan þau gildi  ganga ekki á rétt annarra til að búa við öryggi og virðingu. Til að vel takist til er nauðsynlegt að allir sem hafa áhrif á andrúmsloftið í skólanum hans  leggi sitt af mörkum til að hann, líkt og hin börnin, geti mætt áhyggjulaus í skólann á hverjum morgni.

Minn mesti ótti varðandi  skólagöngu sonarsonar míns er að hann verði ekki metinn að verðleikum, einblínt verði á veikleika hans og styrkleikar hans fái ekki að njóta sín.  Þessi ótti byggir á reynslu minni sem  foreldri grunnskólabarna og sem grunnkólakennari í tæpa tvo áratugi.

Reynsla mín hefur kennt mér að það eru margir þættir sem þurfa að spila saman til að í skólum skapist sá andi að unnið sé marvisst að því að allir nemendur geti notið sín, eflt hæfileika sína, haft trú á styrkleikum sínum  og unnið með öðrum á uppbyggilegan hátt.

Skólastjórinn er lykilpersóna í að byggja upp skólabrag. Hans ábyrgð felst í því að skapa sýn skólans í samvinnu við sitt samstarfsfólk og fylgja því eftir að sýnin endurspeglist í vinnubrögðum í skólanum.  Ég vona að sýnin og vinnubrögðin  ýti undir að nemendum sé sýnd virðing svo hæfileikar þeirra og sá bakgrunnur sem þeir spretta úr njóti sín. Skólastjórinn þarf að geta fylkt fólki að baki sér og fengið það  til að vinna með sér að hag allra nemenda. Hann er fyrirmynd kennaranna og hann leggur línurnar um það  hvernig unnið er með foreldrum og öðrum samstarfsaðilum sem vinna innan og utan skólans.

Umsjónarkennarinn er mjög stór áhrifavaldur í lífi barna á meðan á skólagöngu þeirra stendur. Gildi hans  og viðhorf til, náms, nemenda og foreldra skipta  miklu máli varðandi það andrúmsloft sem ríkir í kennslustofunni og einnig í nemenda- og foreldrahópnum. Foreldrar treysta kennaranum fyrir því dýrmætasta sem þeir eiga og gera því eðlilega miklar kröfur um að vel sé farið með. Kennarinn er fyrirmynd nemendanna og þeir leita eftir leiðsögn í athöfnum hans ekki síður en orðum. Til að umsjónarkennarar geti staðið undir þessum væntingum þurfa þeir  að vera uppbyggilegir fagmenn sem kunna að sækja sér og nýta  þann stuðning sem þeir telja  sig þurfa frá skólastjóra og sínu samstarfsfólki, þar með töldum foreldrum.

Foreldrar verða að  vera  samstarfsaðilar kennara í því verkefni að koma nemendum til manns. Þeir hafa mikil áhrif á  skóla- og bekkjarbrag. Þátttaka þeirra og þátttökuleysi hefur áhrif á hversu auðvelt eða erfitt er að leysa vandamál sem upp koma í skólanum. Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og í framkomu barnanna gagnvart, náminu,  skólafélögum og starfsfólki  skóla speglast gildi foreldranna og sýn þeirra á fólk, skólann og starfið þar.

Nemendur eru fjölbreyttur hópur með margskonar  þarfir og ólíkan bakgrunn. Nemendur hafa áhrif á skólabrag og þó þeir beri ekki höfuðábyrgð á honum þurfa þeir að  læra að þeirra framlag getur haft heilmikil  áhrif á hvernig öðrum nemendum líður. Nemendur læra um þá ábyrgð sem þeir bera af foreldrum sínum og kennurum.

Af framansögðu sést að ég  þarf að treysta því að að margir leggi sig fram til  að skólaganga sonarsonar míns heppnist vel. Ég efast um að allt þetta fólki viti af því að ég vænti mikils af því. En vona að skólastjórinn, kennararnir og foreldrarnir í skólahverfinu skynji sig sem hluta af stóru gangverki og viðurkenni að þeir hafa áhrif á líðan og metnað barnanna í skólanum. Sú samfélagslega vitund er mikilvæg því eins og máltækið segir „þú ert ekki  staddur í umferðahnút, þú ert hluti af umferðarhnútnum“. Framlag hvers og eins til skólasamfélagsins skapar braginn sem það einkennist af.  Ábyrgðin liggur ekki einungis hjá lélegum stjórnanda, slæmum kennurum, frekum foreldrum eða illa uppöldum börnum. Það er skólasamfélagið í heild sinni sem ber ábyrgð á  því ef allt fer í hnút  og ekki tekst að finna uppbyggilegar lausnir þegar eitthvað bjátar á í skólum.  Sonarsonur minn þarf á því að halda að allir í gangverkinu leggi sig fram og sjái til þess að hans skólaganga verða uppbyggileg.  Til að losna við áhyggjurnar þarf ég að treysta því að svo verði.

EK

2 athugasemdir við “Þegar barn byrjar í skóla

  1. Það gleymist alveg að nefna stuðningsfulltrúa í þessari upptalningu á þeim sem koma að skólagöngu barnsins.
    Stuðningsfulltrúinn gleymist líka þegar barnið skiptir um umsjónakennara (og stuðningsfulltrúa) þegar það færist upp um bekk til dæmis. Þá vilja foreldrar oft þakka umsjónakennaranum fyrir tímann sem hann hefur varið með börnum þeirra en stuðningafulltrúinn gleymist, þó svo að hann hafi varið mun meiri tíma með börnunum en umsjónakennarinn þar sem stuðningsfulltrúinn fer í íþróttir, sund, myndmennt, smíði, textíl og heimilisfræði með börnunum en umsjónakennarinn ekki.
    Stuðningsfulltrúinn er líka með börnunum í frímínútum og er því lykilmanneskja þegar kemur að gæslu í sambandi við einelti og annað ofbeldi sem á sér oft stað í frímínútum og matartímum.
    Gleymum ekki stuðningsfulltrúunum í grunnskólunum. Þeirra starf er gefandi en oft erfitt. Alveg eins og annara grunnskólastarfsmanna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s