Neyddur til skólagöngu

Skólasamfélagið er að mörgu leyti mjög merkilegur staður. Í skólasamfélaginu ertu metinn að verðleikum en þó ekkert endilega þeim sem þú setur sjálfur á oddinn. Í skólasamfélaginu er þeim einstaklingum sem uppfylla kröfur kerfisins og kennaranna hampað á meðan aðrir sem ekki uppfylla kröfurnar eiga að taka sér þá til fyrirmyndar. Afreksnemendum eru afhent verðlaun í lok hvers skólaárs ef þeir ná hæstu einkunn í skólanum á meðan hinir nemendurnir eiga að klappa þeim lof í lófa.

Á Íslandi er 10 ára skólaskylda, í skólanum eru nemendur sífellt metnir og gagnrýndir af kennurum. Margir nemendurnir eru  í skólanum af illri nauðsyn og skólinn er ekkert endilega sá staður sem þeir vilja eyða tíma sínum á né er  sú menntun sem þar er boðið upp á sú færni sem þeir vilja öðlast.

Þegar ég var í gagnfræðiskóla þá var skólinn síðasti staðurinn í veröldinni sem mig langaði að vera á. Áhugamál mín þá voru íþróttir og tölvuleikir og við þá iðju leið mér mjög vel. Þar var ég að læra nýja hluti, rækta hæfileika mína, ég tilheyrði hópi, tileinkaði mér ákveðin gildi og hafði skýr markmið. En á hverjum degi þurfti ég að fara snemma að sofa til að vakna eldsnemma og fara á stað sem náði engan veginn til mín og á hverjum degi dundi á mér áreiti frá kennurum, skólastjórum og svo foreldrum um að ég þyrfti að standa mig betur því að ég væri ekki að uppfylla kröfur skólasamfélagsins.

Kennararnir skildu ekki afhverju ég hlýddi ekki fyrirmælum, skólastjórnendur fussuðu og sveiuðu yfir mér við mömmu mína og pabba sem skömmuðu mig svo líka þegar ég kom heim og allir þessir neikvæðu hlutir tengdust skólanum.

Þetta var minn raunveruleiki.

Í dag starfa ég í félagsmiðstöð og kenni félagsmálafræði í sama grunnskóla og ég var í sem unglingur. Þar starfar enn stór hópur kennara sem var einnig starfandi í skólanum þegar ég var nemandi. Þau hafa reglulega orð á því hvað það rættist vel úr mér og hvað ég hef þroskast mikið.

Að mínu mati er það þó ekki þroskinn sem breytti mér heldur markmið mín. Ég var alveg jafn útsjónasamur, hugmyndaríkur, úrræðagóður og duglegur þegar ég var 15 ára og ég er nú. Ég hafði bara engan áhuga á því að beita þeim hæfileikum í skólanum. Það var ekki fyrr en ég hafði verið á vinnumarkaðnum og fundið það starf sem mig langaði að starfa við að ég fann raunverulegan hvata til þess að skrá mig í nám. Ég skráði mig í Tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands og þar er ég viss um að kennararnir hafa aðra sögu um mig að segja en grunnskólakennararnir mínir.

En þarf þetta virkilega að vera svona? Er það bara eðlilegt að sumir nemendur rúlla í gegnum kerfið en finna sig aldrei í grunnskólanum? Því trúi ég allavega ekki og tel eitt mikilvægasta hlutverk kennara vera að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir og finna styrkleika þeirra. Útfrá þessum styrkleikum er hægt að finna hlutverk fyrir nemandann og kennarinn og nemandinn geta sett sér markmið sem báðir aðilar eru sáttir við. Það versta sem kennarar geta gert er að afskrifa nemendur sem erfiða nemendur og standa í stanslausu stappi við þá. Þá festist nemandinn í því hlutverki og markmið hans byrjar að snúast um það að finna höggstað á kennaranum.

Ég biðla því til allra kennara að hafa þetta bakvið eyrað næst þegar þeir skilja hreinlega ekki afhverju nemandi þeirra er svona erfiður. Leitið uppi mismunandi styrkleika nemenda ykkar í stað þess að einblína á þröngt svið styrkleika og líta á allt annað sem truflun. Allir nemendur ykkar eru manneskjur og öllum manneskjum líður best þegar þær takast á við krefjandi verkefni sem falla undir áhugasvið þeirra. Allar manneskjur koðna niður ef þær upplifa sig á röngum stað, undir stanslausu áreiti og úrræðalausar gagnvart eigin aðstæðum. Það er ykkar hlutverk að vekja áhuga nemandans út frá þörfum hans og hjálpa honum að finna gleðina í skólanum.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, nemandi í Tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ og aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð.

8 athugasemdir við “Neyddur til skólagöngu

 1. Afskaplega tímabært umhugsunarefni.
  Í framhaldsskóla má mæta þessu að verulegu leyti með því að snúa námsbrautunum við. Fyrsta misserið ætti hver og einn að nota til að „sanna sig“: sýna áhuga, ástundun og framfarir, en í viðfangsefnum algerlega að eigin vali. (Ekki endilega því sem maður er góður í fyrirfram; það mætti t.d. taka sér tak í líkamsrækt þó að grunnurinn sé slæmur; en ef maður er vanur íþróttamaður þá dugir ekki að vera góður áfram heldur verður að setja sér markmið og verða enn betri.) Næstu misserin ætti áherslan að færast yfir á hagnýtar greinar, tengdar því sem maður getur hugsað sér sem framtíðarstarf. Og svo kannski einhverjir skylduáfangar í dönsku allra síðast, þegar maður er kominn í almennilegan náms-gír.
  Þetta er ekki eins einfalt í skyldunámi. Sérstaklega ekki í þessum nauðsynlegu greinum eins og lestri. Það er eiginlega óhjákvæmilegt að því slakari sem maður er í lestri, því meira af skólatímanum fari í hann. En þá illu nauðsyn má a.m.k. ekki yfirfæra á greinar eins og sögu sem eru hvort sem er gjörsamlega gagnslausar fyrir þá sem læra þær hvorki af áhuga né verulega vel.
  Námssamningakerfið, sem var hluti af hugmyndafræði opna skólans, var það ekki einmitt tilraun til að taka á þessum vanda? Þá áttu nemendur að setja sér markmið, nógu stutt fram í tímann til að þau hefðu merkingu, og að verulegu leyti eftir áhuga hvers og eins þó að skyldumarkmið kæmu innan um. Ég frétti af þessu í Vesturbæjarskóla einhvern tíma á áttunda áratugnum. En veit ekki hvernig það hefur þróast, þar eða annars staðar.
  HSK

 2. Þetta er eins og skrifað væri úr mínu hjarta… Seinni grunnskólaárin og reyndar öll framhaldsskólaárin eru nákvæmlega eins og þú segir frá.. – Það er ekki fyrr en ég fer á vinnumarkaðinn og finn mig loks í vinnu sem mér finnst skemmtileg að mig langar að setjast á skólabekk og læra meira um hvernig ég get verið betri þessari vinnu sem ég er í núna.

  • Afar sammála þessu. Þess vegna finnst mér sárt hvernig viðhorf til vinnu hafa þróast. Mín kynslóð vann öll sumur, fjölbreytt störf við hlið fullorðinna. Við vorum ungt fólk en ekki börn. Skólaárið hefur lengst og þjóðfélagið leggurt ekki áherslu á að fólk fái vinnu fyrr en helst eftir margra ára háskólanám. Vissulega held ég að skólar hafi batnað en ég sakna þess jafnvægis sem var milli lífsreynslu og skólalærdóms.

 3. Þetta er allt hárrétt og mega kennarar jafnt sem foreldrar taka mið af þessu. Foreldrar eru oft jafnmikið inni í kassanum og kennararnir, vilja auðvitað að krökkunum vegni sem best en ekki á forsendum krakkanna heldur sínum. Mikið gott að þeir sem gengið hafa í gegnum þetta, eins og þú Guðmundur, látið í ykkur heyra. Ég á 18 área strák sem er að jafna sig eftir grunnskólagöngu. Er í rólegheitum að ná áttum hjá Námsflokkum Reykjavíkur – þar starfar frábært fólk. Takk fyrir þessa grein. Kveðja Linda

 4. Það hefði verið fróðlegt að vita hvað hefði orðið úr manni ef umsjónarkennari í 1-2 bekk í barnaskóla hefði unnið eftir þessum hugmyndum í stað þess að stimpla mig erfiðann og leggja mig svo í einelti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s