Undanfarin ár hef ég af og til heyrt því fleygt að kennarar hafi dregið sig of mikið í hlé í skólastofunni og á ákveðnum tímapunkti höfum við að einhverju marki hætt að líta á okkur sem faglega leiðtoga í skólastofunni heldur sem verkstjóra. Ég minnist þess að hafa fyrir nokkrum árum hlustað með aðdáun á virtan kennara lýsa því að hann teldi sig hafa náð bestum árangri þegar hann fékk á tilfinninguna að hann væri óþarfur í skólastofunni. Á þeim tíma fannst mér hann algerlega hitta naglann á höfuðið, voru ekki helstu gúrúar kennslufræðanna einmitt að segja okkur að nemendurnir ættu sjálfir að leita, uppgötva og bera ábyrgð á námi sínu?
Hugsanlega átti aukið framboð góðra vinnubóka líka sinn þátt í þessari þróun en með þeim er hægt að auka sjálfstæða vinnu nemenda til muna. Skarpir nemendur geta að miklu leyti bjargað sér sjálfir og margir hinna geta svo lært af þeim. Einhverjir kennarar hafa jafnvel skilgreint einstaklingmiðað nám á þann hátt að nemendur fari á mismunandi hraða gegnum námsefnið þ.e. vinnubækurnar. Þegar nemendur eru sjálfir spurðir að því hvernig þeim gangi í náminu miða þeir árangur sinn oftast við blaðsíðufjöldann sem þeir hafa lagt að baki í vinnubókunum, margar blaðsíður = góður árangur. Það er því óhætt að fullyrða að áhrif vinnubókanna eru mikil.
Á málþingi í síðustu viku lýsti Kristrún Sigurjónsdóttir kennsluráðgjafi áhyggjum sínum af því hvað kennarar hefðu almennt lítinn áhuga á að ræða kennsluaðferðir en hefðu þess meiri áhuga á námsefninu einkum vinnubókum. Máli sínu til stuðnings vísaði hún til rannsókna sem sýna að í 80% kennslustunda séu nemendur fyrst og fremst að vinna í vinnubækur. Niðurstöður Hafsteins Karlssonar frá 2009 þar sem hann bar saman kennsluhætti í finnskum og íslenskum skólum ber að sama brunni: „Finnsku kennararnir beita fjölbreyttari kennsluaðferðum en þeir íslensku og virðast meðvitaðri um notkun þeirra. Bæði hjá íslensku og finnsku kennurunum voru námsbækur mjög stýrandi í kennslunni. Þá styðjast finnsku kennararnir mikið við kennsluleiðbeiningar en íslensku kennararnir miklu síður. Íslensku kennararnir halda sig fremur til hlés í kennslustundinni en þeir finnsku og hafa sig ekki eins mikið í frammi“ .
Síðustu árin hef ég haft tækifæri til að kynnast kennsluháttum í enskum skólum þar sem áherslurnar eru um margt frábrugnar þeim sem ég á að venjast. Nú ætla ég ekki að halda því fram að þar sé allt betra en hjá okkur, síður en svo, en ég það sem heillar mig er uppbygging og inntak kennslustundanna. Kennarinn undirbýr stundina með tilliti til námsskrár og þess hvað viðkomandi nemendur kunna og geta og markmið stundarinnar eru skýr, líka í augum nemendanna. Í lok stundarinnar geta því allir vitað hvort þeir hafa náð markmiðum sínum og þau felast aldrei í blaðsíðufjölda heldur í tiltekinni færni eða þekkingu. Kennslustundir hefjast á innlögn og kveikju sem er ætlað að vekja áhuga nemendanna og gera námið merkingarbært í huga þeirra. Drjúgur tími fer í samræðu kennara og nemenda um viðkomandi efni og einnig milli nemendapara eða hópa. Nemendur eru þjálfaðir í að gera grein fyrir skoðunum sínum og rökstyðja mál sitt. Skrifleg vinna hefst almennt ekki fyrr en kennarinn telur að allir nemendur hafi vald á þeim orðaforða, færni og þekkingu sem til þarf. Því eru allir nemendur vel byrgir ef og þegar þeir hefja skriflega einstaklings-eða hópvinnu og sá tími er takmarkaður. Á meðan nemendur vinna gengur kennarinn um og hrósar þegar nemendur hafa náð þeim markmiðum sem stefnt er að, vekur athygli á því sem vel er gert og leiðbeinir um hvernig hægt er að gera enn betur. Kennarinn beitir með öðrum orðum leiðbeinandi námsmati í hverri kennslustund. Kennslustuninni lýkur með því að kennarinn rifjar upp markmið hennar og það sem á að vera til marks um að nemendur hafi náð þeim. Þannig meta kennarinn og nemendur árangurinn.
Eitt sinn þegar John Morris skólastjóri í Ardleigh Green skólanum í London var að fjalla um kennslu líkti hann henni við undirbúning ferðalags. Við veljum tiltekinn áfangastað fyrir nemendur okkar en höfum í huga að þeir leggja upp frá mismunandi stöðum auk þess sem þeir eru á ólíkum farartækjum. Á meðan sumir ferðast á sportbíl eru aðrir á hjóli. Þeir fara því ekki aðeins mismunandi leiðir heldur ferðast þeir líka mis hratt. Það er okkar kennaranna að tryggja að nemendur þekki áfangastaðinn og að þeir séu rétt útbúnir fyrir ferðina svo þeir komist öruggleg á leiðarenda. Við þurfum líka að grípa inn í ef þeir eru að villast af leið og staðfesta þegar þeir eru á réttri leið og stundum þarf að finna hjáleiðir ef ferðin reynist of torsótt. Við getum ekki bara sagt nemendum okkar að leggja af stað eitthvað út í bláinn og sjá svo til hvar þeir enda, nema markmiðið sé óvissuferð.
Fyrst þegar ég kynntist þessum aðferðum óttaðist ég að þær tækju frumkvæðið frá nemendunum en ég held að sá ótti sé óþarfur því ég er sannfærð um að kennsla, uppgötvun og frumkvæði nemenda geti vel farið saman og að árangurinn verði enn betri.
NKC