Þann 20. júní birtist athyglisverð grein í Fréttablaðinu eftir Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur þar sem hún kallar eftir aukinni samræmingu og úrræðum vegna ofbeldis í skólum hún veltir því einnig fyrir sér hvort þolmörk okkar varðandi ofbeldi í hafi færst til.
Þann 25. júní var umræðunni fylgt eftir í síðdegisútvarpi Rásar 2 en þar var rætt við Björk Jónsdóttur skólastjóra Brúarskóla auk Þorbjargar Helgu.
Þegar litið er til vaxandi gremju í samfélaginu, dvínandi traust til stjórnmálamanna, embættismanna og stofnanna og aukins álags á opinbera starfmenn þ.á.m. kennara þá er eiginlega ótrúlegt hvað grunnskólinn nýtur mikils trausts foreldra, hvað hegðun langflestra nemenda er góð og hvað þeim líður yfirleitt vel. Þetta tel ég fyrst og fremst að þakka góðum kennurum. En ofbeldishegðun eins nemenda reynir meira á kennara en flest annað í starfi þeirra. Við megum heldur ekki gleyma því að slíkt ástand er ekki síður erfitt fyrir foreldra viðkomandi barns, svo ég tali nú ekki um nemendahópinn. Sérstaklega getur þetta reynst flókið þegar viðhorf foreldra og skóla fara ekki saman. Stundum er það vegna þess að foreldrar og kennarar sjá barnið sjaldnast í sömu aðstæðum og hvor um sig getur átt erfitt með að setja sig í spor hins auk þess sem upplýsingarnar sem foreldrar hafa um skólann eru yfirleitt fengnar frá börnum sem túlka upplifanir sínar út frá eigin sjónarhorni.
Allir foreldrar þurfa að treysta því að kennarinn tryggi velferð barna þeirra og búi þeim öruggt umhverfi þar sem gott nám fer fram. Þetta gerir mikilar kröfur til kennara sem er hreint ekki alltaf auðvelt að standa undir sérstaklega ekki þegar þarfir nemendanna eru mjög ólíkar og stangast jafnvel á. Ég minnist þess hvað ég varð ráðalaus hér um árið þegar foreldrar eins nemanda míns sögðu mér að þeir hefðu hvatt son sinn til að vera fyrri til og berja krakka sem honum stæði ógn af, en það var staðföst trú þeirra að það væri besta ráðið til að tryggja öryggi hans í skólanum. Það var ekki aðeins að foreldrarnir hefðu allt aðrar skoðanir á uppeldismálum en ég heldur treystu þeir mér ekki til að tryggja öryggi sonar þeirra í skólanum og ekki hjálpaði þetta mér við að tryggja öryggi hinna nemenda minna.
Eins og fram kom hjá Björk hafa nemendur þörf fyrir skýrar og óumdeildar reglur varðandi hegðun og samskipti í skólanum en það er ekki síður mikilvægt að viðbrögð við brotum og úrræði liggi ljós fyrir. Þetta er ekki síst mikilvægt nú þegar viðhorf okkar til samskipta og hegðunar eru jafn breytilega og virðist vera, svo ég tali nú ekki um ef þolmörk okkar varðandi ofbeldi eru að slakna. Í áranna rás hafa þolmörk okkar varðandi uppeldi sífellt verið að breytast til samræmis við viðhorfi almennings þegar foreldrar mínir voru að alast upp þótti t.d. eðlilegt að rassskella börn en með breyttum viðhorfum til uppeldis var flengingum barna hafnað. Þegar ég var að alast upp þótti sjálfsagt að 7 – 8 ára stúlkur væru einar síns liðs að gæta smábarna, slíkt þykir ekki lengur ásættanlegt. Þegar elsta barnið mitt var að alast upp tíðkaðist að drukknir unglingar söfnuðust saman í tugatali á Hallærisplaninu um helgar, þær samkomur voru fyrst og frems aflagðar vegna þess að foreldrar ákváðu að hafna þeim. Kannski er komið að því að við endurskoðum þolmörk okkar varðandi samskipti og ofbeldi. Á það ekki að vera sjálfsagt að allir nemendur og starfsmenn búi við andlegt og líkamlegt öryggi í skólum sínum og raunar hvar sem er? Til að þetta nái fram að ganga þurfum við fullorðna fólkið, einkum foreldrar og kennarar, að standa saman og samræma þolmörk okkar og þá má okkar eigin hegðun ekki vera undanskilin. Við þurfum m.a. að vanda okkur þegar við tölum og skrifum um samferðafólk okkar, því það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Í samfélagi fjölmenningar er þetta hreint ekki auðvelt, menningarlegur bakgrunnur fjölskyldna hefur aldrei verið jafn margbreytilegar og viðhorf til uppeldis og agamála eru að sama skapi fjölbreytt. Besta fyrirkomulag sem ég hef séð varðandi þessi mál er í skóla sem lagði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar öllum reglum um samskipti. Inntak sáttmálans nær yfir öll réttindi en ekki síður skyldur nemenda, foreldra og þeirra sem með þeim starfa. Frá fögurra ára aldri læra börnin um megin áherslur sáttmálans með því að ræða um þær og starfa í anda hans, þannig læra þau m.a. að öllum réttindum fylgir ábyrgð. Allur skólabragurinn einkennist af óumdeildri hugmyndafræði sáttmálans og þar er ekki óalgengt að börnin vísi í tilteknar greinar sáttmálans í umræðum sín á milli. Nefnd voru nokkur dæmi m.a. um nemanda sem fannst hann mæta tillitsleysi annars nemanda, hann benti viðkomandi á að hann væri að brjóta á honum 12. gr. sáttmálans (þar er fjallað um rétt barna til að tekið sé tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þess og þroska).
Hvernig sem skólinn kýs að setja sínar reglur er nauðsynlegt að foreldrar taki virkan þátt í samræðunni við skólann um hegðun og samskipti þannig að sem mest samræmi ríki í viðhorfi og skilaboðum fullorðna fólksins til barnanna og vika reglur ekki jafnan best þegar allir eiga hlutdeild í þeim?
NKC