Væntingar kennara

fjolaÉg skildi vel áhyggjur foreldra sem sögðu mér frá því að 6 ára sonur þeirra hefði komið heim úr skólanum og sagt þeim að kennarinn hans héldi að hann væri bæði vondur og lélegur. Ég er sannfærð um að enginn kennari segir svona nokkuð berum orðum en börn lesa yrt og óyrt skilaboð og draga ályktanir af þeim. Barn sem túlkar viðhorf kennara síns á þennan hátt þarf að hafa sterk bein til að sjálfsmynd hans og framtíð sem nemanda bíði ekki alvarlega hnekki.

Það eru til ótal sögur af því hvað viðhorf og væntingar kennara til nemenda geta skipti miklu máli og jafnvel breytt lífi einstaklinga. Ég hef það t.d. eftir fólki sem lesið hefur ævisögu Bill Gates að aðstæður hans í æsku hafi verið allt annað en góðar og ekkert hafi ýtt undir það sem á eftir kom. Sjálfur hafi hann gefið þá skýringu að væntingar eins kennara hafi valdið þeim straumhvörfum í lífi hans sem seinna urðu. Væntingar kennarans breyttu sjálfsmynd drengsins og opnuðu þannig dyrnar að því sem seinna gerði hann að einum ríkasta manni veraldar þvert á það sem við mátti búast.

Ætli við kennarar gerum okkur almennt ljóst hvað áhrif okkar á líf nemenda þar á meðal sjálfsmynd þeirra geta verið mikil bæði til góðs og ills?  Ég hef ósjaldan vísað í skrif norska fræðimannsins Thomasar Nordahl (2002) hér í Krítinni  en meðal þess sem hann hefur vakið athygli á er hvað kennarinn getur verið mikill örlagavaldur í lífi nemenda sinna, ekki aðeins með kennslu sinni heldur ekki síður með viðhorfi sínu og væntingum.  Að mati hans hafa nemendur ekki verið marga daga hjá kennara þegar þeim verður ljóst hvaða stöðu þeir hafa í huga hans og það á oft stóran þátt í mótun sjálfsmyndar nemandans. Af orðum kennarans, væntingum og viðbrögðum lærir nemandinn hver hann er og hlutverk hans sem nemanda mótast að miklu leyti af því. Það er oft áhrifamesta námið sem á sér stað í skólanum.

Flestir kannast við sögur af kennurum sem hefur verið talin trú um að nemendur í bekk sem þeir eru að taka við séu einstakir námsmenn, enda þótt um ósköp venjulega nemendur sé að ræða. Það er svo ekki að sökum að spyrja að eftir skamman tíma hefur bekkurinn tekið miklum framförum í námi án þess að nokkuð annað hafi breyst. Væntingar kennarans eru miklar og árangurinn skilar sér.

Nemendur sem eru að læra íslensku sem annað tungumál þurfa ekki síður en aðrir nemendur að finna að kennarar hafi væntingar til þeirra um árangur.  Í viðamikilli  rannsókn sem unnin var af Evrópuráðinu kemur fram að árangur nemenda, sem eru innflytjendur, er almennt undir meðallagi en ein af skýringunum er einmitt  talin vera sú að kennarar hafa oft minni væntingar til þeirra en til annarra nemenda. Fullyrt er að ef kennarar trúi því að með góðir kennslu geti þessir nemendur líkt og aðrir náð góðum árangri  geti það skipti sköpum og árangur þeirra aukist til muna.

Meðal þess sem ég held að við kennarar þurfum að ígrunda betur eru áhrif staðalmynda á væntingar okkar til drengja annarsvegar og stúlkna hinsvegar. Enn heyri ég stundum kennara tala um stráka og stelpur sem tvo einsleita og ólíka hópa. Þannig virðast þeir álíta að allir strákar séu meira og minna eins og öðruvísi en allar stelpur sem eru líka eins. Kennari sem sendir nemendum sínum þessi skilaboð stuðlar að því að festa staðalmyndir kynjanna í sessi. Er það örugglega það sem hann vill? Hvaða áhrif hefur það á sjálfsmynd drengja ef við trúum því t.d. að þeim líði öllum best ef þeir liggja á gólfinu þegar þeir læra, að þeir eigi erfitt með að sitja kyrrir og að þeir vilji ekki lita? Hver eru t.d. áhrifin á stráka sem vilja sitja í sætunum sínum og njóta þess að lita, því þeir eru væntanlega líka til?  Og hvað með stelpurnar sem  eiga erfitt með að einbeita sér lengi og sitja kyrrar?

Þessi stutta hugleiðing á fyrst og fremst að vera áminning til okkar kennara um það hversu mikilvægt hlutverk okkar er. Við þurfum stöðugt að ígrunda viðhorf okkar og væntingar til nemenda, skoða orð okkar og athafnir,  losna úr viðjum staðalmynda og segja nemendum okkar að þeir séu mikilvægir og að við væntum mikils af þeim hverjir sem þeir eru.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt

aðgát skal höfð i nærveru sálar.

Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast

við biturt andsvar gefið án sakar.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast

sem aldrei verður tekið til baka.

– Einar Benediktsson , úr Einræðum Starkaðar.

Heimildir

Nordahl, T. (2002). Eleven som aktør fokus på elevens læring og handlinger i skolen. Oslo: Universitetsforlaget

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s