Nýlega fór ég í skólaheimsókn til London í þeim tilgangi að skoða skóla sem hafa náð framúrskarandi námsárangri. Tveir skólanna; Langford og Falconbrook voru valdir af Shirley Clarke, en þeir starfa í samræmi við aðferðir leiðsagnarnáms sem hún hefur stýrt þróun á. Hinir skólarnir tveir Ardleigh Green og Redden Curt voru valdir vegna fyrra samstarfs við skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, þar sem ég starfa. Áður hefur verið fjallað um Shirley Clarke og störf hennar hér í Krítinni. Ferðafélagar mínir voru stjórnendur og kennarar úr fjórum grunnskólum í Reykjavík og einn samstarfsmaður minn, samtals 18 manns. Markmið skólanna fjögurra; Hamraskóla, Kelduskóla, Dalskóla og Hlíðaskóla er að tileinka sér hugmyndir og aðferðir leiðsagnarnáms og auka þannig gæði eigin starfs jafnframt því að verða þekkingarskólar í leiðsagnarnámi. Gert er ráð fyrir að þekkingarskólarnir geti í framhaldinu stutt við aðra skóla og kennara. Ferðin var styrkt af Erasmus. Leiðsagnarnám hefur verið skilgreint á ýmsan hátt, ein ágæt skilgreining er sú að með leiðsagnarnámi veit nemandinn alltaf hvað hann er að læra (hvaða hæfni hann er að tileinka sér), hvar hann er staddur í námsferlinu og hvað hann þarf að gera til að ná markmiðinu. Megin tilgangur leiðsagnarnáms er að gera nemendum kleift að taka ábyrgð á eingin námi og auka þannig framfarir sínar. Hugmyndafræðin og aðferðirnar eru í samræmi við áherslur núgildandi aðalnámskrá grunnskóla á leiðsagnarmat. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að leiðsagnarnám hefur mikil jákvæð áhrif námsframfarir nemenda (sjá m.a. umfjallanir D. William og J. Hattie).
Fyrst nokkur orð um forsögu þekkingarskólanna sem að miklu leyti má rekja má aftur um áratug, eða til þess tíma þegar John Morris skólastjóri Ardleigh Green Junior School hóf að kynna skólum í borginni kennsluhætti skóla síns. Skólinn hafði þá þegar náð framúrskarandi árangri með aðferðum Shirley Clarke „Formative assessment“ sem margir kjósa að nefna leiðsagnarnám. John hefur síðan haldið fjölda námskeiða á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og á þriðja hundrað kennara hefur sótt Ardleigh Green heim. Auk þessa hefur John veitt einstökum skólum ráðgjöf og stuðning. Hugmyndir og aðferðir Shirley Clarke hafa því að einhverju leyti verið notaðar í skólum borgarinnar um árabil, þar á meðal í Hamarskóla, Laugarnesskóla, Sæmundarskóla og Vesturbæjarskóla. Undanfarin 2-3 ár hefur skóla- og frístundasvið lagt sérstaka áherslu á stuðning við skóla sem kjósa að efla leiðsagnarnám með reglubundnum námskeiðum og samráðsfundum, meðal annars flutti Shirley Clarke erindi og hélt fræðslufundi um leiðsagnarnám árið 2017. Kennurum til stuðnings voru hagnýt verkefni og fræðsla um leiðsagnarnám vistuð á sérstökum vef: www.nammedleidsogn.wordpress.com sem nálgast má með því að skrá: leiðsagnarnám á vefinn www.menntastefna.is en aðferðirnar eiga góða samleið með menntastefnu borgarinnar. Margt bendir til að besta leiðin til að styðja kennara við að þróa kennsluaðferðir sé jafningjastuðningur, það er að segja þegar starfandi kennarar deila þekkingu sinni og reynslu með öðrum kennurum. Þekkingarskólum í leiðsagnarnámi er einmitt ætlað það hlutverk.
Víkur nú sögunni aftur að skólaheimsóknunum í London. Skólastjórar Langford og Falconbrook tóku báðir við slæmu búi fyrir 4-5 árum en hefur með óbilandi trú á aðferðum leiðsagnarnáms og mikilli staðfestu tekist að snúa dæminu svo við að það verður að teljast undravert. Að sögn Stellu Smith skólastjóra Falconbrook er skólinn í því hverfi í Englandi þar sem lægst setta 1% þjóðarinnar býr, þegar tekið er mið af félagslegri stöðu. Almennt atvinnuleysi er ríkjandi, læsi er ekki sjálfgefið og glæpir daglegt brauð. Í skólanum eru tæplega 300 nemendur á aldrinum 4 – 11 ára sem tala samtals um 60 tungumál. Þegar Stella tók við stjórn skólans ríkti þar, að hennar sögn, mikið agaleysi og námsárangur var óásættanlegur. Eftir að hún kom til starfa réð hún nýja kennara, enda hættu hinir sem fyrir voru. Kennararnir starfa nú allir í samræmi við hugmyndir leiðsagnarnáms. Þeir njóta stuðnings skólastjóra og aðstoðarskólastjóra við að tileinka sér aðferðirnar og eru starfendarannsóknir kjölfestan. Nú þegar er námsárangur nemenda Falconbrook skólans orðinn yfir meðallagi í Englandi og við íslensku gestirnir getum staðfest að hegðun nemenda var til mikillar fyrirmyndar.
Félagslegt umhverfi Langford skólans, sem einnig er fyrir nemendur á aldrinum 4 – 11 ára, er ekki jafn veikt og umhverfi Falconbrook engu að síður tók Seamus Gibbons skólastjóri við löskuðu búi fyrir rúmlega fjórum árum síðan þegar hann varð áttundi skólastjóri skólans á tveggja ára tímabili. Aðeins einn fast ráðinn kennari var við skólann, árangur nemenda var slakur og hegðun verulega ábótavant. Ástandið hafði m.a. þau áhrif að ábyrgir foreldrar sendu börnin sín í aðra skóla, nemendum hafði því fækkað jafnt og þétt. Áður en Seamus hóf störf við Langford tók hann þátt í þróun leiðsagnarnáms í samstarfi við Shirley Clarke og var því sérfræðingur í hugmyndafræði og aðferðum þess. Seamus sagði frá því að fyrst eftir að hann tók við stjórn Langford hafi skólayfirvöld sífellt verið að bjóða honum lausnir sem áttu að styðja við skólastarfið, hann hafnaði hins vegar öllu enda staðráðinn í því að með leiðsagnarnáminu næði skólinn markmiðum sínum sem er að nemendur verði góðar manneskjur sem kunna að lesa og reikna og búi yfir mikilvægri þekkingu. Hann benti á að námið og kennslan er byggt á niðurstöðum rannsókna sem hafa m.a. staðfest árangur leiðsagnarnáms. Þegar á 3. ári voru gæði Langford skólans metin framúrskarandi af Ofsted. Biðlistar nemenda frá öðrum hverfum lengjast jafnt og þétt og sífelldur straumur gesta óskar eftir að heimsækja skólann enda fer orðspor hans víða. Undanfarin fjögur ár hafa nýir kennarar verið ráðnir að skólanum en þeir tileinka sér kennsluaðferðir leiðsagnarnáms með beinum stuðningi stjórnenda.
Það fyrsta sem blasir við þegar gengið er um húsnæði Langford og Falconbrook, sem í báðum tilfellum er í gömlum fjögurra hæða byggingum, er skólabragurinn. Það fer ekki fram hjá neinum að þetta eru menntastofnanir þar sem nám nemenda er í forgrunni. Kennsluhættir eru samræmdir og í föstum skorðum í öllum bekkjum. Nemendur eru niðursokknir í nám sitt enda eru miklar væntingar gerðar til hvers og eins og þeir leggja sig fram um að standa undir þeim væntingum. Aðspurðir vita nemendur almennt hvað þeir eru að læra og hvers vegna enda hafa námsmarkmið, viðmið og fyrirmyndir verið vandlega rædd og eru til staðar. Algengt er að sjá námsfélaga vinna saman tvo og tvo einkum að gagnkvæmri leiðbeinandi endurgjöf sem nemendur nýta enda virðast mistök álitin eðlilegur þáttur náms. Seamus lagði áherslu á að hugsun nemenda um námið sé lykilatriði og því er lögð rík áhersla á samræður og vinnu með hugtök. Það vakti athygli okkar gestanna að engar námsbækur voru sýnilegar enda eru það námsmarkmið sem stýra náminu ekki námsefnið. Skrifleg verkefni eru unnin í stílabækur sem ljósrit af reglum og viðmiðum hafa oft verið límd inn í.
Í síðari hluta pistilsins mun ég halda áfram að fjalla um heimsóknina og velti því fyrir mér hvað við getum lært af henni.
NKC