Menntun og útskriftarár: B.Ed frá Kennaraháskóla Íslands, 1999
Skólinn sem ég kenni við: Hamraskóli í Grafarvogi
Bekkur: 6. bekkur
Síðasta símenntunarnámið sem ég sótti: Ég dreif mig til Wales snemma í vor og sat fyrirlestur og sótti vinnusmiðju hjá Shirley Clarke ásamt 100 öðrum kennurum. Námskeiðið bar yfirskriftina Understanding Formative Assessment og var fróðlegt og fræðandi í alla staði.
Hvaða þrjú atriði í kennsluháttum mínum hafa haft mest áhrif á árangur nemenda minna:
Fyrir utan nauðsynlegu þættina; starfsgleði, jákvætt viðhorf og takmarkalausan áhuga á öllu sem viðkemur námi og framförum nemenda minna þá held ég að eftirfarandi þættir hafi mikið að segja.
- Ég vinn fyrst og fremst út frá markmiðum Aðalnámskrár og leita stöðugt leiða til að aðstoða nemendur mína við að ná þeim.
- Fjölbreytni í kennsluaðferðum, innlögnum og verkefnum.
- Skýr og afmörkuð verkefni/kennslustundir þar sem tilgangur og afrakstur er nemendum mínum ljós frá byrjun.
Hverju er ég stoltust af í starfinu mínu: Ég er fyrst og fremst stolt af því að vera ennþá kennari. Hef reynt að breyta um starfsvettvang en veit nú að kennarastarfið er mitt þrátt fyrir allt og allt, enda eina vitið að nýta þá hæfileika sem manni eru gefnir. Ég tel þetta eitt af mikilvægari störfum í samfélaginu og sinni því af heilum hug og miklum metnaði. Eyði svo frístundum í að afla nauðsynlegra aukatekna fyrir heimilið.
Hvaða markmið set ég mér í þróun starfs míns:
Það eru spennandi tímar í menntamálum. Hugmyndir manna um nám, hvernig við lærum og hvaða færni við þurfum að búa yfir eru að breytast. Nemendur okkar eru einnig að breytast. Þær aðferðir sem áður þóttu heppilegar í námi og kennslu duga ekki lengur einar og sér. Tæknin hefur rutt sér til rúms og óhjákvæmilegt að skólaumhverfið taki mið af því. Það þykir mér nú ekki leiðinlegt og er spennt að prófa mig áfram með nýjar hugmyndir og aðferðir og að auka mína eigin færni í starfi. Ný Aðalnámskrá grunnskóla lofar góðu, boðar nýja hugsun og stefnu og næsta mál á dagskrá er að kynna sér hana betur. Auk þess er ég stöðugt að semja, þróa og prófa nýstárlegt náms- og kennsluefni í íslensku fyrir 1. – 7. bekk fyrir námsgagnaauðlindina 123skoli.is.