Jákvæð sálfræði í kennslu Samskiptafærni og áhugahvöt

Á fyrirlestrum og námskeiðum, sem ég hef haldið m.a. fyrir kennara og foreldra, hef ég fengið óskir um að ég segði meira frá því hvernig ég nýti jákvæðu sálfræðina til að efla samskiptafærni barna.

Ég er grunnskólakennari og hef bætt við mig meistaragráðu í jákvæðri sálfræði frá Árósaháskóla. Eitt meginhlutverk jákvæðu sálfræðinnar er að auka velferð (well-being) einstaklinga og samfélaga og var það meginstefið í meistararannsókn minni, sem heitir Baráttan milli bölsýna og bjartsýna tröllsins (Kampen mellem den pessimistiske og den optimistiske trold).

Í rannsókninni athugaði ég hvort auka mætti velferð nemenda, með því að fræða og þjálfa kennara um ákveðna þætti jákvæðu sálfræðinnar og gefa þeim verkfæri sem nýttust til að bæta líðan barnanna. Ég hef tekið saman í stuttu máli þá þætti hugverksins sem snúa að samskiptum og trú á eigin getu.

Góð félagsleg tengsl stuðla að aukinni velferð

Eins og kennarar þekkja getur reynst ansi snúið að byggja upp jákvæð samskipti í fjölbreyttum hópi nemenda. Hópurinn er saman allan daginn öllum stundum og því er óhjákvæmilegt að það skapist ágreiningur og ósætti annað slagið og krakkar þurfa að kunna að bregðast við því. Til að fyrirbyggja einelti, langvarandi félagslegan vanda og vanlíðan er þörf á að kenna hópnum góð, uppbyggjandi samskipti á markvissan hátt, hvernig forðast má að sýna óæskilega hegðun og hvernig má bregðast við óæskilegri hegðun annarra. Hver og einn nemandi þarf að læra að hann sjálfur getur oft haft áhrif á það í hvaða átt samskipti þróast. Þeim sem átt hafa góð félagsleg tengsl strax í æsku, gengur betur að takast á við erfiðleika sem mæta þeim síðar á lífsleiðinni, svo til mikils er að vinna.

Þegar unnið er með hópa er mikilvægt að hafa í huga að samkeppni og samanburður skapa tapara. Það þarf því að leggja áherslu á að byggja upp umhverfi þar sem umburðarlyndi, samkennd og samvinna eru höfð að leiðarljósi og allir upplifa að þeir séu viðurkenndir af hópnum.

Leiðir til að byggja upp góð samskipti og sjálfsöryggi

Á 18 ára kennsluferli lagði ég alltaf mikla áherslu á góð samskipti og þróaði kennsluaðferðir þar sem ég nýtti hegðunarliti til efla samskiptahæfni og byggja upp góðan bekkjaranda. Ég notaði litaspjaldið til að útskýra hegðun og hegðunarmynstur, hvernig við missum okkur í óæskilega hegðun við ákveðnar aðstæður og einnig hvernig við getum forðast að detta í varnarhætti og slæma hegðun. Ég þróaði og útfærði þessa vinnu og óf saman við útinám og hópastarf og einnig inn í foreldrasamstarf, sem hafði góð áhrif á samskipti og samstarf. Eftir því sem nemendur urðu eldri fór mig að skorta verkfæri og leiðir til að efla trú þeirra á sjálfa sig og áhugahvöt. Ég hóf því leit að aðferðum til að bæta úr því og í jákvæðu sálfræðinni fann ég það sem ég leitaði að. Ég ákvað að vinna rannsóknarverkefni sem sameinaði þessa þætti, þ.e. uppbyggjandi samskipti og aukna trú á eigin getu.

Jákvæða sálfræðin leggur mikla áherslu á að vinna með styrkleika og til að geta unnið markvisst með þá þýddi ég VIA styrkleikakort með myndum og stuttum lýsingum á íslensku. Þetta eru 24 eiginleikar sem samanstanda af mannkostum og dygðum sem við búum öll yfir, en það er mismunandi hverjir þeirra verða mest ríkjandi hjá okkur. Þekking á styrkleikunum hjálpar okkur að beina athyglinni meðvitað að því sem vel gengur og vel er gert, auk þess sem við getum nýtt þá til efla okkur og bæta.

Ég fræddi kennarana, sem tóku þátt í rannsókninni, um eiginleika styrkleikanna og sýndi þeim hvernig þeir gætu nýtt þá í kennslu samhliða hegðunarlitunum. Ég lagði einnig áherslu á að uppfræða þá um hvernig hægt er að temja sér bjartsýnt hugarfar og notaði módel til útskýringa. Þessi módel sýna á einfaldan hátt hvernig hægt er að bregðast við þegar bölsýnin lætur á sér kræla, hvað það er sem gerist og hvernig beina má huganum í jákvæðan farveg á ný.

Ég útbjó tvö tröll, sem ég nefni bölsýna tröllið og bjartsýna tröllið eða já og nei tröllin, til að nýta með ungum nemendum í stað módelanna. Tröllunum gaf ég eiginleika út frá kenningum jákvæðu sálfræðinnar og heðgunarlitunum. Þau eru nýtt til að sýna hvernig hægt er að tileinka sér bjartsýnt hugarfar og hvernig telja má í sig kjark til að takast á við ögrandi verkefni. Tröllin eru líka hjálpleg til að sýna hve óþörf hræðsla við mistök er, að mistök séu eðlilegur hluti af lærdómsferli og til að læra af.

Ég fléttaði þannig saman í eina heild vinnu með VIA styrkleika, tröllin (bjartsýnt hugarfar) og hegðunarlitina. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að þessi þrenna auki sjálfsöryggi og bæti samskipti nemenda. Krakkarnir voru naskir í að sjá út styrkleika og þeir sem áður höfðu verið ragir að reyna sig við verkefni og fljótir að gefast upp, höfðu nú meiri kjark til að takast á við áskoranir og að prófa. Kennararnir voru ánægðir með fræðsluna og verkfærin og töldu sig komna með efni í hendur sem fangaði kjarnann í góðum samskiptum, að finna þetta góða í hverjum og einum, í stað þess að vera alltaf að benda á hluti sem betur mættu fara.

 

Ásthildur Kristín Garðarsdóttir

 

 

Helstu heimildir sem pistillinn byggir á:

 

Bandura, A. (2012). Self-Efficacy. Kognation & Pædagogik, 22. årg. Nr. 83, 16-35.

Callesen, K., Nielsen, A. M., & Attwood, T. (2002). Kat-kassen manual. Psykologisk Forlag A/S.

Dweck, C. S. (2008). Mindset: The new psychology of success. Random House Digital, Inc.

Fredrickson, B. L. (2013). Updated thinking on positivity ratios. Amerikan Psychologist.

Páll Skúlason. (28. 12 2008). Páll Skúlason hjá Evu Maríu. Sunnudagskvöld hjá Evu Maríu. (E. M. Jónsdóttir, Interviewer) Reykjavík.

Peterson, C., & Seligman, M. E. (2004). Character Strengths and Virues a Handbook and Classification. Oxford New York: Oxford University Press.

Seligman, M. (1998). Learned Optimism. New York: Free Press.

Skaalvik, E. M., & Skaalvik, S. (2007). Skolens læringsmiljø Selvopfattelse, motivation og læringsstrategier. København: Akademisk Forlag.

Werner, E. E. (2005). Resilience and Recovery: Findings from the Kauai longitudianal stydy. Research, Policy, and Practice in Children’s Mental Health, 19(1), 11-14.

2 athugasemdir við “Jákvæð sálfræði í kennslu Samskiptafærni og áhugahvöt

  1. Má ekki hafa þessa auglýsingu, sem hylur hluta greinarinnar, annars staðar eða minnka hana? Ég sé ekki hver höfundur er.

  2. því miður ráðum við ekki við þessar auglýsingar, þær eru ekki á okkar vegum heldur leyfir wordpress sér að setja þær inn, þurfum að borga til að losna við þær. Í tölvunni hjá mér virðast þær koma r neðst og skyggja ekki á neitt. Ásthildur Kristín Garðarsdóttir er höfundur. Þetta er ansi hvimleitt…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s