Vinnugleði og bjartsýni

bjartsyniÞað getur verið áhugavert að velta því fyrir sér að hve miklu leyti umræðumenning sem þróast  á hverjum vinnustað getur haft áhrif á líðan þeirra sem þar starfa. Það hefur áður verið fjallað um það hér í Krítinni hvernig umræða kennara og annars starfsfólks um nemendur getur skipt sköpum um velferð þeirra, en mætti þá ekki eins ætla að umræðan og skólabragurinn geti haft áhrif á starfsfólkið og líðan þess?

Kennarastarfið er líklega með skemmtilegri störfum en því fylgir jafnframt mikil ábyrgð og álag. Ef litið er til hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði má draga þá ályktun að í skólum þar sem  athyglin og umræðan beinist fremur að jákvæðum þáttum starfsins og glaðst er yfir góðum árangri líði starfsfólkinu almennt betur en þar sem umræðan um kennarastarfið einkennist af sífelldri armæðu yfir öllu því vanþakkláta erfiði sem á kennarana er lagt. Þar getur reynst kennurum þrautin þyngri að viðhalda vinnugleði sinni og bjartsýni. Í þannig andrúmslofti er erfitt að sinna starfi sínu vel og miðla jákvæðum og uppbyggjandi skilaboðum til nemendanna og foreldra þeirra.

Samkvæmt höfundi bókarinnar Positive Psychology in a Nutshell, Ilona Boniwell (2008),  er jákvætt og bjartsýnt fólk mun líklegra til að vera hamingjusamt og vegna vel en þeir sem eru svartsýnir. Flestum ætti því að vera mikils virði að starfa í andrúmslofti sem eflir bjartsýni þeirra og jákvæðni. Boniwell (2008) bendir á marga kosti sem fylgja því að vera bjartsýnn, þeir sem eru bjartsýnir þjást t.d. mun síður af kvíða og þuglyndi, þeir eiga auðveldara með að takast á við erfiðleika sem mæta þeim, eru lausnarmiðaðir og sjá tækifæri í aðstæðunum, þeir koma meiru í verk, eru heilsuhraustari,  búa yfir meiri þrautseigju, gefast síður upp og álíta sig vera heppna svo eitthvað sé nefnt. Það kemur kannski á óvart en þeir sem eru bjartsýnir eru síður í afneitun en þeir sem eru svartsýnir. Öfugt við það sem ætla mætti þá einkennir það ekki bjartsýnisfólk að stinga hausum í sandinn og vera í afneitun,  þvert á móti hefur svartsýnt fólk frekar tilhneigingu til að ýta hlutunum frá sér og fresta því sem þarf að gera.

Jákvæðu fréttirnar eru þær að þrátt fyrir að ekki sé hægt að þvinga sjálfan sig til að vera jákvæður þá geta þeir sem vilja þjálfað sig í að vera bjartsýnir og jákvæðir. Hér eru nokkur ráð:

  • Skráðu hjá þér í lok hvers vinnudags þrjú atriði sem hafa gengið vel hjá þér.
  • Hrósaðu sjálfri/sjálfum þér fyrir það sem þú gerir vel og láttu það vera leiðarljós þitt í næsta verkefni.
  • Reyndu að fyrirgefa þér mistök sem þú gerir, allir gera jú mistök, málið er að læra af þeim.
  • Gerðu  þér grein fyrir hvað eða hver það er sem einkum veldur þér vanlíðan í starfi og reyndu að finna leið til að takast á við það.
  • Hrósaðu vinnufélögum þínum þegar þeir standa sig vel.
  • Á teymis og/eða starfsmannafundum ætti að draga fram það sem vel hefur gengið milli  funda og hrósa þeim sem standa þar að baki. Þó verður að gæta þess að það séu ekki alltaf sömu einstaklingarnir sem fá hrósið.
  • Ljúktu hverjum degi með því að hugsa um það sem þú ert þakklát/ur fyrir í lífi þínu.

Við sem höfum valið okkur starfsvettvang þar sem er lítil von um ríkulega umbun í formi launa, þurfum ekki síst á því að halda að upplifa ánægju í starfi okkar. Þar virðist sem jákvætt hugarfar og bjartsýni geti gefið okkur mikið.

NKC

Heimild: Ilona Boniwell. (2008) (2. útgáfa, 1. útgáfa 2006). Positive Psychology in a Nutshell. London: Personal Well-Being Centre.

One response to “Vinnugleði og bjartsýni

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s