Hvað getum við lært af öðrum? – Síðari hluti

Presentation1Á þriðja degi ferðarinnar heimsótti ég ásamt meirihluta hópsins Ardleigh Green skólann í Havering meðan aðrir skoðuðu Redden Court unglingaskólann, skammt þar frá. Yfirbragð Ardleigh Green hefur nokkuð breyst frá því ég kom þangað fyrst fyrir 12 árum síðan og er orðið léttara, ég held að óhætt sé að segja að bæði nemendur og kennarar brosi breiðar þar en í fyrri skólunum tveimur. Tónlistin setur sterkan svip á daglegt líf og einnig er mikið um falleg verk eftir nemendur á veggjum auk þess sem íþróttir setja svip á starfið, þó aðstaðan þætti engan veginn boðleg hér. Annað sem ég tel að einkenni skólann er hvað nemendur er virkir og meðvitaðir um eigið nám. Það virðist sama hvar borið er niður nemendur segja frá því hvað þeir eru að læra, lýsa vinnu sinni og tala um hvernig þeim gengur. Þeir standa hiklaust upp og lesa sögur sem þeir hafa samið eða syngja fyrir gesti, án þess að hafa fengið tækifæri til að undirbúa sig. Vikulega sendir skólinn út fréttaþátt á Youtube sem gefur foreldrum og öðrum tækifæri til að fylgjast með starfi skólans.  Eins og ég nefndi fyrr einkennist nám og kennsla af áherslum leiðsagnarnáms sem er í föstum skorðum. Kennarar sérhæfa sig yfirleitt í einum árgangi, 30 nemendur eru í hverjum bekk og þarna, líkt og í fyrri skólunum tveimur, er um getublöndun að ræða. Ekki er ósennilegt að hægt sé að skýra mismuninn á yfirbragði skólanna með því að starfið í Ardleigh Green var orðið framúrskarandi gott fyrir meira en áratug síðan og hefðir hafa fests í sessi. Sami skólastjóri hefur stýrt skólanum í yfir 20 ár, skólastjóri sem hefur fengið margháttaðar viðurkenningar fyrir störf sín, og kennarahópurinn er fyrir löngu kominn með reynslu og þekkingu. Sú hugsun læddist líka að mér að hugsanlega hefði Ardleigh Green skólinn lært eitthvað af áralögnum samskiptunum sínum við reykvíska skóla.

Umfjöllun skólastjóranna um samskipti við foreldra vakti athygli okkar gestanna og var töluvert rædd. Að þeirra mati felst ábyrgð kennaranna fyrst og fremst í því að tryggja nám nemenda, annað er talið vera truflun. Þess vegna hitta kennarar foreldra aðeins á föstum fundum sem eru 2 – 3 á ári. Nema í undantekningartilvikum. Foreldrar hafa ekki aðgang að netföngum eða símanúmerum kennara en ef þeir þurfa að hafa samband við skólann er það gert í gegnum skrifstofuna. Ef málið er alvarlegra en svo að skrifstofan geti leyst það fer það inn á borð stjórnenda. Allar skólalóðir eru læsar svo enginn fer þar inn nema með samþykki skólaritara. Töluvert ólíkt því sem við eigum að venjast.

Þar sem ég fór ekki í Redden Court skólann mun ég ekki fjalla um hann hér.

Hvað lærðum við svo af þessari heimsókn? Þar sem tilgangur ferðarinnar var að kynnast því hvernig leiðsagnarnám fer fram var dýrmætt að sjá hvað hugmyndafræðin og aðferðirnar geta skilað miklum námsárangri og góðum aga, jafnvel við aðstæður sem eru langt um meira krefjandi en við eigum að venjast. Þær væntingar sem gerðar voru til allra nemenda vöktu athygli og ekki síður hvað þeim tókst að standa undir væntingunum. Óhætt er að segja að þær séu meiri en við eigum að venjast. Það sem virðist skipta sköpum í skólunum er öflug forysta sem hefur skýra faglega sýn og kennarahópur sem er viljugur til að vinna saman að þróun náms og kennslu m.a. með því að beita starfendarannsóknum. Umfjöllun Seamus Gibbons lýsir í mínum huga kjarna málsins: Við þurfum að taka ákvörðun um hvernig manneskjur við viljum að börnin okkar verði, svara því hvert hlutverk skólans á að vera í því ferli og loks hvers vegna. Eins og fram kom hjá honum er svörin við síðustu spurningunni að finna í niðurstöðum rannsókna.

Fjarvera námsbóka var áberandi og vakti margar spurningar t.d. þá hvort námsbækur stýri náminu of mikið hjá okkur. Lærdómsríkt var að sjá hvað starfið var alls staðar samræmt og nám nemenda í algerum forgangi, ekki síst í ljósi þess að hér er hefð fyrir því að kennarar séu fremur sjálfstæðir og stundum heyrast þær raddir að mikilvægasta hlutvek þeirra sé að sjá til þess að nemendum líði vel, sjálft námið skipti minna máli.

Almennt viðhorf okkar ferðafélaganna var að ekki sé eftirsóknarvert að reyna að gera skólana okkar eins og skólana sem við heimsóttum, enda væru aðstæður og menning okkar öðru vísi og margt sem við teljum betra hér, þar má meðal annars nefna list- og verkgreinar. Áhuginn fyrir því að gera enn betur er hins vegar mikill og heimsóknin til London sannfærði okkur enn frekar um að með  hugmyndafræði og aðferðum leiðsagnarnáms skapast sannarlega tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á nám og kennslu í skólunum okkar, ekki síst í þeim tilgangi að gera nemendur að betri námsmönnum sem eru ábyrgari fyrir námi sínu.

NKC

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s