Því er stundum haldið fram að það séu þrjár góðar ástæður fyrir því að vera kennari; jólafrí, páskafrí og sumarfrí. Það er líka gömul saga og ný að vinnuframlag kennara er stundum dregið í efa og við ósjaldan legið undir ámæli um að eiga styttri vinnudag en aðrar starfstéttir. Sjálfsagt halda einhverjir að kennarar séu enn með aukastarf eftir hádegi og á sumrin til að auka tekjurnar. Við vitum auðvitað betur, starfið er gott meira en kennsla, það er líka undirbúningur, úrvinnsla, símenntun og teymisvinna og fundir. Þannig hefur þetta einnig verið í öðrum löndum þ.á.m. í Danmörku.
Danir hafa haft vaxandi áhyggjur af öllum þeim tíma sem kennurum er ætlað að nýta í annað en kennslu. Í ljósi þess að það eru fyrst og fremst góðir kennarar sem bæta nám nemenda í skólunum er talið mikils virði að auka tímann sem kennarinn á með nemendum sínum og samkvæmt nýjum fréttum fá Danmörku virðast þarlendir kennarar nú vera tilbúnir til að kenna 37,5 40 mín. kennslustundir á viku !!! Þetta eru mikil tíðindi. Ómögulegt er að sleppa allri annarri vinnu sem tilheyrir kennslunni svo vinnudagur kennarar mun lengjast umtalsvert.
Miklar áhyggjur eru meðal ýmissa fagfélaga í Danmörku sem fullyrða að með þessu sé kennurum ætlað að greiða fyrir þær umfangsmiklu breytingar sem standa fyrir dyrum í danska skólakerfinu.
Tillögur dönsku ríkisstjórnarinnar, sem lagðar voru fram fyrr í þessum mánuði, fela í sér ósk um lengingu skóladagsins, enskukennslu frá 2. bekk, viðbótartíma í hreyfingu og aukna áherslu á símenntun kennara svo þeir geti aflað sér aukinnar sérfræðimenntunar í þeim námsgreinum sem þeir kenna.
Ef þetta er þróunin sem kennarar standa frami fyrir verðum við líklega að finna betri ástæður fyrir því að vera kennarar en fríin mörgu, löngu og góðu.
NKC