Vel uppalin börn

steinarnirNú þegar jólin nálgast rifjast upp fyrir mér kirkjuferð fyrir mörgum árum síðan. Þetta var á aðfangadagskvöld og kirkjan full af prúðbúnum gestum. Við hjónin höfðum komið ungum börnum okkar fyrir á milli okkar á kirkjubekknum og minnt þau á að vera prúð og stillt. Rétt hjá sat önnur fjölskylda einnig með ung börn. Þegar líða tók á guðsþjónustuna gerðust þau börn óróleg og foreldrarnir settu þau niður á gólfið. Börnin fóru nú að vappa um guðshúsið og í framhaldi af því að spretta úr spori enda kirkjugangurinn fýsilegur til hlaupa og altarið spennandi staður að skoða og skríða um. Mér varð litið framan í foreldrana og sá að þau fylgdust með börnum sínum og brostu ástúðlega, enda voru þetta falleg börn og klædd í sitt fínasta púss. Börnin mín horfðu spyrjandi á mig og ég sendi þeim skýr skilaboð með kennarasvipnum um að þetta væri ekki í boði fyrir þau enda er það álit mitt að börn eigi að sitja stillt og prúð þegar þau fara í kirkju. Kennarinn í mér er alltaf á vaktinni og meðan sálmasöngurinn hljómaði varð mér hugsað til þess að eftir fáein ár færu þessi börn í skóla þar sem ætlast væri til að þau sætu kyrr og færu eftir reglum. Að mörgu leyti gerir skólinn ráð fyrir því að öll börn hafi fengið sambærilegt uppeldi, kennarar eru fremur einsleitur hópur að miklum hluta konur á miðjum aldri með svipaðan félagslegan bakgrunn og hugmyndir okkar um hvernig börn eigi að haga sér eru því fremur sambærilegar. Staðreyndin er hinsvegar sú að samfélagið er alltaf að verða margbreytilegra og hugmyndin um hvað sé vel uppalið barn er ekki jafn skýr og áður.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að foreldrarnir í kirkjunni vildu börnum sínum aðeins það besta og það sama á við um alla foreldra sem ég hef kynnst. Þó ég hafi ekki alltaf verið sammála þeim öllum. Börn sem hafa fengið svipað uppeldi og börnin mín eiga almennt ekki í miklum vanda með að aðlagast væntingum skólans, en hvað með hin börnin? Það getur ekki alltaf verið auðvelt fyrir þau. Norski uppeldisfræðingurinn Thomas Nordahl hefur bent á að börn séu ekki búin að vera marga daga í skóla þegar þeim verður ljóst hvaða viðhorf kennarinn hefur til þeirra. Það skynja þau m.a. með líkamstjáningu hans og athugasemdum. Barn sem hefur ekki fengið „rétt“ uppeldi finnur því fljótt að það er ekki efst á vinsældalistanum og hin börnin verða smám saman einnig meðvituð um þetta barn er ekki eins og það á að vera. Það þarf ekki mörg orð til að útskýra hvaða áhrif slíkt getur haft á sjálfsmynd barnsins, skólagöngu þess og reyndar alla framtíð. Það þarf sterk bein til að þola slíkt og líklega freistandi að gefa bara skít í skólann og allt sem hann stendur fyrir.

Vegna þess hvað hugmyndir um gott uppeldi eru orðnar margbreytilegar er svo mikilvægt að skólinn skapi vettvang fyrir foreldra og kennara til að ræða saman um uppeldi og samskipti. Þegar kennari tekur við bekk getum við verið viss um að foreldrarnir hafa miklu meiri áhuga á að vita hvaða væntingar hann hefur til barna þeirra, hvernig hann fylgir þeim eftir, hvað hann gerir til að efla samskipti og samstarf og hvernig hann tekst á við vandamál sem upp kunna að koma, en hvaða bækur hann muni nota í kennslunni. Það væri því mikils virði ef nýi kennarinn gæti mætt foreldrahópnum og sagt;  svona kennari er ég. Jafnframt þyrfti hann að hlusta á foreldrana og gefa þeim tækifæri til að ræða hugmyndir sínar og leita leiða til að þeir geti samræmt megin gildi sín varðandi uppeldi og samskipti barnanna. Síðast en ekki síst þyrftu allir kennarar að skoða vandlega viðhorf sín til allra nemenda sinna til að forðast að skaða ungar sálir af hreinni vangá. Það vill enginn góður kennari gera.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s