Að gera eða að læra

presentation1Orðin sem við veljum að nota hafa stundum meiri áhrif en við gerum okkur alltaf grein fyrir. Ég hef verið hugsi yfir því hvaða áhrif það hefur að við kennarar virðumst hafa sterka tilhneigingu til að tala um hvað nemendur eigi að gera, eða klára fremur en hvað þeir eiga að læra. Það er að segja við notum stundum orðið gera þegar við ættum frekar að orðið læra.  Að gera þarf nefnilega alls ekki að þýða það sama og að læra og skilaboðin sem felast í þessum litlu orðum geta skipt miklu máli.

Hér er lítið dæmi: Kennslustundin er að hefjast, nemendur eru sestir í sætin sín og kennarinn skrifar viðfangsefni kennslustundarinnar á töfluna; Æfing 14 í móðurmáli. Um leið segir hann nemendum að þeir sem klári áður en tíminn sé búinn megi lesa. Kunnugleg mynd, ekki satt?  Áherslan er á afköst fremur en á nám nemenda og þeim sem vinna hratt er umbunað.  Svipaða áherslu má stundum greina á kynningarfundum að hausti þegar kennarar kynna fyrirhugað námsefni fyrir foreldrum og athyglinni er beint að námsbókunum en minna að námsmarkmiðum einstakra námsgreina. Þegar nemendur fá sjálfir að gera áætlanir í námi sínu er sama tilhneiging ríkjandi, áætlanir þeirra beinast oft að því að ljúka ákveðnum fjölda blaðsíðna í vinnubókum innan tiltekins tíma. Þeir hafa einnig tileinkað sér orðræðu skólans og spyrja hvað þeir eigi að gera í tímanum, fremur en hvað þeir eigi að læra. Þegar börnin svo koma heim spyrja foreldrarnir hvað þau hafi gert í skólanum, þegar þeir ættu e.t.v. að spyrja hvað þau hafi lært.

Til gamans, og kannski að einhverju leyti í alvöru,  má velta því fyrir sér hvort þetta tengist aðdáun okkar á vinnusemi og því að hafa sem mest að gera. Sá vinnur sem er alveg að drukkna. Vinnan sjálf virðist þannig vera markmið fremur en það sem út úr henni kemur.

Í ljósi þess hvað aðalnámskráin leggur ríka áherslu á að nemendum sé hjálpað til þess að vera virkir þátttakendur í námi sínu og ábyrgir fyrir því, er þörf á að ígrunda hvaða hugtök við notum í kennslustofunni og hvaða skilaboð við sendum nemendum okkar. Í KRÍTINNI hefur áður verið fjallað um Shirley Clarke, sem er sérfræðingur í leiðsagnarmati, en hún telur afar mikilvægt að efla námsvitund nemenda. Kennarinn þarf að kenna börnum að vera nemendur sem eru meðvitaðir um hvað þeir eru að læra og hvernig þeir læra. Jafnframt þarf kennarinn að rækta upp námsmenningu í bekknum/nemendahópnum sem m.a. einkennist af því að nemendur upplifa að námið sé eftirsóknarvert. Í þannig aðstæðum er ekki talað um hvað nemendur séu að gera í tímanum, heldur hvað þeir séu að læra. Markmið er ekki að gera æfingu 14, heldur að læra að skrifa stóran staf í sérnöfnum (svo dæmi sé tekið).  Árangurinn er metinn úr frá fyrirfram ákveðnum viðmiðum sem sýna hvort nemandinn hefur náð námsmarkmiðum sínum, sem venjulega tengjast hvorki afköstum né hraða. Clarke varar beinlínis við því að nemendum sé hrósað fyrir afköst. Þegar nemandi brunar hindrunarlaust áfram í gegnum námsefnið er það vísbending um að verkefnið sé of létt þ.e.a.s. ekki við hans hæfi og að hann sé ekkert að læra, segir hún. Það er hæpið uppeldi að verðlauna fyrir þannig vinnu.

Allir sem þekkja til menntamála vita hvað það er flókið og seinlegt að breyta skólastarfi, en það er ekkert óskaplega flókið fyrir kennara að fara markvisst að tala um það við nemendur hvað þeir séu að læra í stað þess að tala um hvað séu að gera. En það gæti samt haft mikil áhrif. Hér með skora ég á kennara að ígrunda vandlega hvernig þeir nota þessi litlu orð; læra og gera.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s