í Undanfarið hef ég verið að kynna mér hugmyndir Carol Dweck um mindset. Í rannsóknum sínum hefur Dweck komist að því að fólk einkennist ýmist af fastmótuðu hugarfari ( fixed mindset) eða hugarfari vaxtar ( growth mindset). Í stuttu máli snýst þetta um að við trúum annað því hvort að við getum vaxið með því að leggja okkur fram eða við teljum að hæfileikar okkar og greind sé klappað í stein og verði því ekki breytt. Sú mynd sem við höfum í huganum getur því ýmist leitt okkur til vaxtar eða komið í veg fyrir að við reynum að bæta árangur okkar.
Kennarar ættu að leggja sig fram um að vera meðvitaðir um sitt eigið hugarfar (mindset) því hugarfar þeirra hefur áhrif á hugmyndir þeirra um nám og kennslu.
Kennarar sem einkennast af hugarfari vaxtar líta þannig á að með markvissri vinnu geti allir bætt árangur sinn. Kennari sem einkennist af hugafari vaxtar trúir því að allir geti bætt greind sína og hæfni með því að vinna af þrautseigju, með góðum stuðningu og aðferðum sem henta. Hann leggur sig fram um að bæta námsárangur nemenda. Hann skapar andrúmsloft þar sem litið er á mistök sem lærdómstækifæri og hann notar markvissa leiðbeinandi endurgjöf til að gera öllum nemendum kleift að vaxa. Kennari sem einkennist af hugafari vaxtar spyr aldrei hvort hægt sé að kenna tilteknum einstaklingi eða hópi heldur spyr hann hvernig hann geti kennt þeim svo þeir nái árangri.
Kennari með fastmótað hugarfar hefur ekki trú á að hann geti bætt námsárangur nemenda, því hann lítur þannig á að greind sé óumbreytanlegur fasti. Kennari með fastmótað hugarfar hefur mismiklar væntingar til nemenda og flokkar nemendur eftir því hvaða greind og hæfni hann telur þá búa yfir. Vegna hugmynda sinna um að eiginleikar okkar séu klappaðir í stein, hrósar kennari með fastmótað hugarfar frekar fyrir eiginleika og afköst en fyrir dugnað og þrautseigju eins og kennari sem einkennist af hugarfari vaxtar hrósar fyrir.
Framkoma og athafnir kennara hafa áhrif á hvort nemendur þróa með sér fastmótað hugarfar eða hugarfar vaxtar ( það sama á við um foreldra þó hér sé einungis fjallað um kennara). Höfundur bókarinnar The growth mindset in the classroom , Mary Cay Ricci, gerði rannsókn á því hvernig hugarfar nemenda í einum skóla var við upphaf skólagöngu. Þar kom fram að í 1. bekk einkennast nær allir nemendur af hugarfari vaxtar, hafa fullta trú á því að þeim séu allir vegir færir og að þau geti lært hvað sem er. Í öðrum bekk fækkar þeim nemendum sem einkennast af hugarfari vaxtar og í 3. bekk fækkar þeim svo enn meira. Þegar kennarar sem einkennast af hugarfari vaxtar lesa um þessar niðurstöður myndu þeir skoða hvað það er sem þeir mögulega gera til að þessi þróun eigi sér stað. Þeir myndu síðan leita leiða til að draga úr því að ala nemendur upp í fastmótuðu hugarfari. Kennarar sem einkennast af fastmótuðu hugafari myndu ekki líta á þessi gögn sem tækifæri til vaxtar heldur halda áfram sínu striki því þeir trúa því ekki að þeir geti haft áhrif á þessa þróun, og telja hana öðrum að kenna. Það viðhorf er einkennandi fyrir fólk sem einkennist af fastmótuðu hugarfari.
Það er hægt að vinna með hugarfar sitt og þróa það í átt til vaxtar. Það eru dæmi um það í bók Dweck að kennarar hafi snúið starfi sínu við og aukið árangur nemenda verulega með því að tileinka sér hugarfar vaxtar. Það á líka við um kennara sem hafa komist að því við skoðun á eigin hugarfari að þeir hafa einkennst að mestu leyti af fastmótuðu hugarfari í starfi sínu.
EK