Þú ert snillingur, sæta

myndLof og hrós eru aðferðir sem við notum í þeim tilgangi að efla sjálfstraust barna enda liðin sú tíð að hrós var álitið eyðileggja börn og gera þau bæði montin og frek. En hefur hrósið tilætluð áhrif?

Bandaríski fræðimaðurinn Carol Dweck hefur skoðað áhrif mismunandi hróss á börn og komist að niðurstöðu um að í hrósi felist mikilvæg skilaboð til barnsins um hvað skipti máli, en að við séum alls ekki nægilega meðvituð um skilaboðin og áhrifin sem þau hafa. Væntanlega kannast ýmsir við dæmi af þessu tagi:

Barn sýnir foreldri sínu sögu sem það var að skrifa. Foreldrið: „Vá, þú ert bara alger snillingur, þú varst ekki nema 15 mínútur að klára söguna þína“. Skilaboðin sem foreldrið sendir með þessu hrósi er að snilldin felist í því að vera fljótur að skrifa sögu. Þetta getur haft áhrif á það að barnið leggur sig ekki fram við sögugerðina af ótta við að það taki of langan tíma.

Barn er að teikna mynd og foreldrið segir: „Glæsilegt hjá þér, þú ert bara alger listamaður“. Ef barnið hefur nú ekki verið að leggja sig neitt sérstaklega fram við að gera myndina er hætt við að það túlki skilaboðin á þann veg að það hafi ekki þörf fyrir að vanda sig við að teikna.

Erum við þá aftur komin á þann stað að það eigi ekki að hrósa börnum? Nei, alls ekki. Hrós er mikilvægt en ef það á að gagnast börnum til aukins þroska og hæfni, segir Dweck, þarf hrósið að fela í sér skilaboð um að það sé mikils virði að leggja sig fram og að nýta mistök til að læra af þeim. Hún varar sérstaklega við því að hrósa barni fyrir meðfædda eiginleika eða hæfileika því það geti beinlínis unnið gegn barninu, en því miður virðist vera rík tilhneiging til að dást að fólki fyrir að ná árangri án fyrirhafnar eins og t.d. nemandanum sem fær topp einkunnir án þess að opna bók. Barn sem sífellt fær að heyra að það sé snillingur reynir ósjálfrátt að komast hjá því að takast á við áskoranir enda óttast það fátt meira en að gera mistök og verða afhjúpað. Fyrr eða síðar mun það hafa neikvæð áhrif á námsferil þess, því enginn verður óbarinn biskup. Það er heldur ekki líklegt að barn sem endalaust fær skilaboð um að útlit skipti meira máli en flest annað leggi mikið á sig til að auka hæfni sína. Til hvers er það? Dweck bendir á að það séu ekki aðeins beinu skilaboðin sem barnið fær frá foreldrum sínum sem hafi áhrif, óbeinu skilaboðin, sem barnið nemur af umræðum foreldra sinna um annað fólk, komast líka til skila. Af þeim lærir barnið hvaða kosti foreldrar þeirra meta mest og hvað þeir fordæma, og ung börn vilja umfram allt geðjast foreldrum sínum.

Ef við lítum aftur á dæmin hér á undan gagnast það barninu, sem var að skrifa söguna, miklu betur ef foreldrið hrósar því t.d. með því að segja: „ Mér finns alveg frábært hvað þú lýsir sögupersónunni vel, ég get alveg séð hana fyrir mér. Það væri gaman að fá líka að vita hvernig henni líður“. Og foreldri barnsins sem var að teikna gæti hrósað barninu sínu fyrir hvað það notaði fallega liti í myndinni og bætt við að það hefði verið flott ef það hefði líka teiknað glugga á húsið.

En það eru ekki bara foreldrar sem þurfa að vera meðvitaðir um skilaboðin sem send eru börnum með hrósi og umbun. Kennari sem verðlaunar nemendur með því að leyfa þeim gera eitthvað skemmtilegt þegar þeir eru búnir að reikna dæmin í bókinni, sendir skilaboð um að það sé mikilvægt að vera fljótur að reikna auk þess sem það sé ekki skemmtilegt. Og þegar kennari lítur yfir verk nemenda síns og segir „glæsilegt hjá þér“, án þess að útskýra það frekar, gagnast nemandanum  endurgjöfin lítið eða ekkert.

Auðvitað er það vel meint þegar við segjum við börn að þau séu snillingar eða sæt en ef marka má umfjöllun Dweck er kominn tími til að við hugleiðum hvort í hrósinu felist skilaboðin sem við viljum senda börnunum okkar og nemendum.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s