Foreldrar geta verið álag fyrir kennara

kennariPistillinn minn verður í lengra lagi að þessu sinni af því að efnið hefur verið mér sérstaklega hugleikið í allmörg ár og ég tel aðkallandi að horfast í augu við vandann og bregðast við honum.

Kennarar hafa vakið athygli á því að starf þeirra sé stöðugt að verða flóknara og meira krefjandi ekki síst vegna aukinna samskipta við foreldra. Of margir foreldrar sendi í sífellu tölvupósta og símaskilaboð, jafnvel á kvöldin og um helgar og kvarti við skólastjóra ef þeir fái ekki svör um hæl. Skilaboðin geta tengst samskiptum barns þeirra við önnur börn, sérstökum matarþörfum þess, einstökum námsgreinum, fatnaði, heilsu barnsins eða heimanámi, en einnig eru kennarar beðnir um að sjá til þess að barnið sinni ákveðnum erindum á skólatíma fari t.d. til tannlæknis eða í tónlistartíma, eða til ömmu og afa þegar skólinn er búinn. Þá eru ótalin skilaboð frá foreldrum sem kennarar upplifa sem óréttmæta gagnrýni á störf sín, aðfinnslur og kvartanir. Mér skilst að það hafi líka færst í vöxt að foreldrar geri sér erindi inn í kennslustofur, stundum án þess að gera boð á undan sér, til að fylgjast með, spjalla við kennarann eða jafnvel til að ræða með hrútshornum við einstaka nemendur sem þeir telja börn sín eiga sökótt við. Örugglega á þetta aðeins við um lítinn hluta foreldra, engu að síður taka þessi auknu og erfiðu samskipti bæði tíma og orku frá kennurum, sem væri betur varið með nemendum. Þar að auki leyfi ég mér að fullyrða að fátt sé meira slítandi fyrir kennara en foreldrar sem eru sífellt að tortryggja hann, finna að störfum hans og gera kröfur fyrir barnið sitt sem illmögulegt er að mæta. Orkan sem fer í að sinna þessum erfiðu málum nýtist ekki í kennslu með nemendum.

Það er ekki að undra þó einhverjir kennarar séu farnir að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að koma böndum á afskipti foreldra af skólastarfinu og benda á að það þurfi að setja foreldrum reglur um hvernær og hvernig þeir geti haft aðgang að þeim.  Ég heyrði einn kennara fullyrða að það gengi alltaf best í skólanum þegar foreldrar héldu sig víðs fjarri öllu öðru en félagsstarfi. Vísað hefur verið til þess að hér áður fyrr var einn vikulegur tími áætlaður til samskipta við foreldra, og það talið duga. Líka hefur verið vakin athygli á því að í sumum nágrannalöndum okkar er öllum útidyrum skólans læst svo engir aðrir en nemendur og starfsfólk hafa aðgang nema með samkomulagi, og spurt hvort komið sé að því að við tökum upp sama fyrirkomulag hér. Eða ætti kannski að hafa einn starfsmann í skólanum sem annast öll samskipti við foreldra, nema í sérstökum tilvikum og í foreldraviðtölum?  Áður en reynt verður að finna lausnir og setja reglur held ég að það sé mikilvægt að við reynum að skilja orsök vandans.

Hvað hefur breyst?

Það er ekki ýkja langt síðan að skiptin milli heimilis og skóla voru klippt og skorin; foreldrar sáu um uppeldið heima og það var þeirra verkefni  að sjá til þess að börnin kæmu með skólaþroska í skólann þar sem kennararnir sáu um nám og kennslu. Afskipti foreldra af náminu voru talin óþörf og óæskileg. Samskipti kennara og foreldra fólust einkum í upplýsingum, sem voru takmarkaðar við eitt til tvö viðtöl á ári og álíka mörg bréf sem kennarinn sendi heim, auk þess sem nemendur voru með heimanám. Samskipti kennara og foreldra voru almennt svipuð samskiptum annarra sérfræðinga og skjólstæðinga um þetta leyti, eða fram á sjöunda tug síðustu aldar og sjálfsagt eitthvað lengur. Upp úr því verða breytingar í samfélaginu mjög örar m.a. á sviði samskipta. Allir gera t.d. ráð fyrir að fá svör við spurningum sínum strax. Samskipti sérfræðinga og notenda þjónustunnar (sem áður nefndust skjólstæðingar) hafa jafnframt þróast í átt til aukins jafnræðis þar sem gert er ráð fyrir að viðhorf notandans hafi ekki minna vægi en þekking sérfræðingsins og að allar vegamiklar ákvarðanir sem varða líf og velferð notandans og barna hans séu teknar í samráði við hann. Á síðustu áratugum hefur auk þess verið staðfest að áhrif foreldra  á nám og líðan barna þeirra eru veruleg og því talið nauðsynlegt að gefa foreldrum raunverulega hlutdeild í daglegu lífi barna sinna þ.á.m. í náminu og ákvörðunum þar um.

Foreldrar og uppeldi

Foreldrahópurinn er fjölbreyttari en áður, þá á ég ekki aðeins við stækkandi hóp innflytjenda, heldur einnig mikla breidd í félagslegri stöðu innfæddra s.s. menntun og efnahag. Það getur leitt til mikils munar á gildum fólks, væntingum og hugmyndum þ.á.m. í tengslum uppeldi barna. Öfugt við foreldrahópinn er margt sem bendir til þess að kennarahópurinn sé fremur einsleitur, hann samanstendur aðallega af miðaldra konum með sambærilega menntun og  áþekk gildi. Ef við göngum út frá því að lík börn leiki best má geta sér til um að samskipti kennara og foreldra séu almennt auðveldari þegar báðir aðilar eiga sér líkan félaglegan og hugmyndafræðilegan bakgrunn. Þegar bilið er hins vegar mikið er líklegra að samskiptin verði meira krefjandi.

Ég held að enginn efist um að foreldrar og uppeldisaðferðir þeirra hafi breyst, sem hefur vissulega áhrif á störf kennara.  Í viðtali við Simon Sinek á Youtube lýsir hann því m.a. hvernig ungt fólk í dag (aldamótabörnin) sé oft alið upp við sífellt hrós og talið trú um að þau geti fengið allt sem þau vilja. Ungmennin verði því sjálflæg og sérhlífin og ef þau fái góðar einkunnir í skóla sé það ekki endilega vegna þess að þau hafi staðið sig svona vel heldur jafnvel vegna þess að kennararnir hafi látið undan kvörtunum og þrýstingi  foreldra þeirra. Reyndar hef ég heyrt dæmi um foreldra sem hafa haldið þessu áfram eftir að börn þeirra komu í háskóla.  Orðið krullforeldrar hefur stundum verið notað yfir svona foreldra, en það er dregið af samnefndri ís-íþrótt, og vísað til þess að einn eða tveir liðsmenn hreinsa í sífellu braut kubbsins sem rennur eftir ísnum svo hann komist hindrunarlaust í mark. Það er með öðrum orðum allt gert til að koma í veg fyrir að barnið þurfi að takast á við hindranir, taka ábyrgð eða læra af mistökum.

Tímaskortur og aukin streita er meðal þess sem einkennir foreldra í dag, jafnt og aðra, engu að síður held ég að nútíma foreldrar elski börn sín ekki minna en foreldrar gerðu á árum áður. Raunar finnst mér margir ungir foreldrar taka foreldrahlutverkið mjög alvarlega og leggja sig verulega fram um að gera sitt allra besta.  Ég veit af foreldrum sem hafa mikinn áhuga og skoðanir á námi barna sinna en reynsla þeirra er að  kennararnir fara í vörn þegar þeir vilja ræða nám og kennsluaðferðir. Einnig eru dæmi um foreldra sem hafa miklar áhyggjur af líðan barna sinna í skólanum en finnst þeir ekki mæta skilningi kennara þegar þeir bera sig upp við þá og telja sig mæta miklum ósveigjanleika af hálfu þeirra.  Enn virðast líka finnast kennarar sem nota tölvupósta og upplýsingakerfi til að senda foreldrum skilaboð um neikvæða hegðun barna þeirra, jafnvel endurtekið, án þess að setja fram tillögur um hugsanleg úrræði. Viðkomandi foreldrar fá hins vegar engar fréttir þegar vel gengur.  Ekki þarf að taka fram að samskipti af þessum toga grafa undan trausti og virðingu foreldra á starfi kennara. Þegar traustið er ekki fyrir hendi þá skortir allar forsendur fyrir samstarfi og velferð barnsins er í húfi.

Meðal þess sem hugsanlega hefur haft áhrif á samskipti kennara og foreldra er að farið var að vísa til skólans sem þjónustustofnunar,  sem hefur ákveðna merkingu í hugum almennings. Þú hefur rétt á ákveðinni þjónustu frá stofnununinni, getur gert kröfur en þarft ekki að leggja mikið af mörkum sjálfur.  Það má því spyrja sig hvort þetta hafi verið skynsamlegt?

Eins og ég nefndi fyrr er það reynsla mín að flestir foreldrar vilja vanda sig við uppeldi barna sinna,  það á við um tveggja barna föður sem sagði mér  í mikilli einlægni, að hann langaði svo  til að gera sitt besta sem skólaforeldri en hann vissi bara ekki hvaða væntingar skólinn hefði til hans og hvaða væntingar hann ætti að gera til skólans. Mér finnst vandinn að miklu leyti endurspeglast í orðum þessa föður; við höfum ekki komið okkur saman um gegnsæjar leikreglur um samskipti og samstarf kennara og foreldra, leikreglur  sem passa inn í samfélagið eins og það er í dag.  Skortur á leikreglum gerir bæði foreldra og kennara óörugga.

Hvað er til ráða?

Það vantar samræðuna innan hvers skólasamfélags þar sem tekin er sameiginleg ákvörðun um hvernig foreldrar og skóli vinna saman að uppeldi og menntun barnanna, m.a. þarf að svara spurningunni; hvað er vel uppalið barn?  Það þarf að svara því hvað skólinn, kennarinn og/ eða foreldrar geri  til að tryggja sem best að þeim markmiðum verði náð sem skólasamfélagið ákveður að stefna að og er í samræmi við lög og námskrár. Einnig þarf að skilgreina  framkvæmdir, ábyrgðaraðila og setja tímamörk.  Sambærileg samræða þarf að fara fram á hverju hausti í hverjum einstökum bekk/hópi og þar ætti að vera skyldumæting foreldra. Stuðla þarf að því, eins og kostur er, að foreldrahópurinn og kennarinn vinni að því markmiði sem þau hafa orðið ásátt um. Það er sjálfsagt að nemendur taki einnig þátt í umræðunum að einhverju marki, enda þó þeir eigi ekki að taka ákvarðanir um uppeldi sitt. Vissulega tekur þetta tíma, en ég er sannfærð um að hann mun skila sér í auknum gæðum skólastarfs og betra starfsumhverfi kennara.

Það vilja engir foreldrar ala upp börn sem verða sjálfhverfir letihaugar. Flestir foreldrar halda  vafalaust að þeir séu að gera sitt besta, stundum vita þeir ekki betur.  Það þarf að finna leiðir til að fræða foreldra um hvernig best er staðið að barnauppeldi, hvort sem það er gert með námskeiðum, ráðgjöf, myndböndum eða á annan hátt.

Ég hef heyrt kennara segja að það geri starf þeirra erfiðara að foreldrar beri ekki lengur eins mikla virðingu fyrir skólanum og áður.  Mig grunar að hér á árum áður hafi almenningur m.a. borið meiri virðingu fyrir skólanum og öðrum stofnunum vegna valdsins sem þær höfðu, eða virtust hafa. Ýmsir fræðimenn hafa bent á að það sé alltaf erfitt að gefa frá sér vald sem maður telur sig hafa og að margir kennarar óttist að missa tökin ef þeir deili valdi með nemendum og foreldrum (Hargreaves, 1999; Nordahl, 2007 o.fl.). Sennilega hefur ótti almennings við vald dvínað en væntingar um traust hafa komið í staðinn og traustið þarf að ávinna sér hvort sem um er að ræða einstaka kennara eða skólann sem heild. Sennilega er það eitt mikilvægast verkefni sem þeir standa frammi fyrir. Þar sem traust ríkir eru miklar líkur á góðum og uppbyggilegum samskiptum.

NKC

Heimildir:

Hargreaves, A. (1999). Professionals and Parents: Social movement for educational change. (Var á netinu 2003).

Nordahl, T. (2007). Hjem og skole. Hvordan skape et bedre samarbeid? Oslo: Universitetsforlaget.

One response to “Foreldrar geta verið álag fyrir kennara

  1. Mjög mikilvæg umræða. Ég sé ýmsar vísbendingar um að skólinn haldi foreldrum í fjarlægð, ekki síst frá því að taka þátt í ákvörðunum um nám barna þeirra og skólavist. Víst geta stanslausar beiðnir og athugasemdir foreldra verið hvimleiðar fyrir kennara og tekið óþarflega mikinn tíma frá kennslu. Það má vera ein ástæðan fyrir varnarstöðunni. En ég held þó að við þurfum að skoða málið aðeins betur. Er það sem kennarar upplifa sem innrás foreldra á faglegt svæði sitt ef til vill viðbrögð foreldrar við þeirri upplifun að ekki sé auðvelt að ná sambandi við kennarann eða skólann eða að ekki sé hlustað á þá sem samstarfsmenn á jafnræðisgrunni eins og Aðalnámskrá grunnskóla gerir þó ráð fyrir? Oft hefur það áhrif í þá átt að minnka slíka ásókn þegar opnað er fyrir aðgang og öllum erindum tekið vel. Vita skólar hvernig best sé að koma við því samstarfi sem gert er ráð fyrir í Aðalnámskrá þar sem stendur: Virk hlutdeild og þátttaka foreldra í námi og starfi barna sinna er forsenda þess að foreldrar
    geti axlað þá ábyrgð sem þeir bera á farsælu uppeldi og menntun barna sinna?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s