Yfirskrift þessa pistils vísar til orða sem féllu í umræðum nokkurra aðila um skólamál. Sá sem spurði hefur engin bein tengsl við skólastarf, en orð hans og raddblær gáfu til kynna að hugmyndin um skóla án aðgreiningar væri gamaldags og að við ættum nú orðið að vita betur. Reglulega koma fram fullyrðingar um að skóli án aðgreiningar gangi ekki upp og það er vel kunnugt að hluti kennara er þeirrar skoðunar, enda reynir mikið á þegar nemendahópurinn hefur mjög fjölbreyttar þarfir í námi.
Stundum finnst mér talað eins og hugmyndin um skóla án aðgreiningar sé sprottin upp í tómarúmi án tengsla við aðra samfélagsþróun, enda þótt raunin sé sú að hugtakið vísar til jöfnuðar sem lýðræðisþjóðir leggja almennt áherslu á. Mér hefur alltaf fundist sem myndin hér að ofan lýsi svo ágætlega þessari hugmynd. Einhverjir gætu litið svo á að jafnrétti felist í því að láta öll börnin fá eins kassa til að standa á, hvort sem þau þurfa á honum að halda eða ekki. Hugmyndafræði skóla án aðgreiningar gengur aftur á móti út á að skapa öllum nemendum þá aðstöðu sem þeir þurfa til að ná árangri, til að sjá yfir vegginn.
Enn hef ég engan kennara hitt sem segist vera andsnúinn jöfnuði eða jafnrétti en væntanlega höfum við ólíkar hugmyndir um hvað þetta merkir og hvernig best sé stuðlað að jöfnuði í skólanum. Sumir álíta t.d. að jöfnuði verði best náð með aðgreiningu, innflytjendur sér, fatlaðir saman og án samskipta við ófatlaða, stúlkur aðskildar frá drengjum, vel læsir nemendur í einni stofu og hæglæsir í annarri o.s.frv. meðan aðrir leggja áherslu á að börn læri best um lýðræði og jöfnuð í umhverfi sem endurspeglar fjölbreytni samfélagsins. Jafnan þegar verið er að auka réttindi einstakra undirmálshópa ógnar það stöðugleikanum, ekki síst þeim sem eru í ríkjandi stöðu. Menn eru ekki alltaf sáttir við að láta eftir kassann sinn. Þetta var augljóst þegar blökkumenn í Bandaríkjunum börðust fyrir jafnrétti og einnig þegar konur krefjast þess að sitja við saman borð og karlar, eins og fram kom í erindi Kimmel á alþjóðlegri ráðstefnu um karla og karlmennskurannsóknir sem haldin var í HÍ í júní 2014. Þar benti hann á ótta sumra karla við að missa lífsgæði sín ef jafnrétti karla og kvenna kæmist á. Grunnurinn að þessum skilningi hefur stundum verið tengdur við hugtakið „öðrun“ en það byggist á hugsuninni um okkur og hina og hefur áhrif á það hvernig einstaklingurinn upplifir sjálfan sig og ekki síður hvernig umhverfið upplifir hann og setur hann í ákveðið hlutverk. Skýr skilaboð felast í því þegar barn er sett í hóp sem sker sig frá öðrum; þú tilheyrir þessum en ekki hinum og þar með eru þessar væntingar gerðar til þín.
Margir telja það vera eitt mikilvægasta hlutverk skólans að vinna að jafnrétti og jöfnuði enda hefur líklega engin opinber stofnun betri tækifæri til að móta framtíðar samfélagið en skólinn. Jöfnuði verður sjaldnast náð án hindrana, það á einnig við um skóla án aðgreiningar. Einhverjir foreldrar kunna að óttast að barnið þeirra fari á mis við tiltekin gæði vegna þarfa annara nemanda og kannski upplifa einhverjir kennarar að fjölbreyttar þarfir nemenda komi í veg fyrir að þeir geti notað þær kennsluaðferðir sem þeir hafa mesta trú á. Þeir sem velja að gerast kennarar gera það almennt af því að þeir vilja taka þátt í að byggja upp heilbrigð og sterk börn og þar með betra samfélag. Ég efast um að það finnist margir kennarar sem vilja að það verði samfélag aðgreiningar, ójöfnuðar.
Getur verið að tortryggni sumra, þar á meðal kennara, í garð skóla án aðgreiningar stafi af því að þeim hefur ekki gefist tækifæri til að taka þátt í umræðunni um skóla jöfnuðar og enn síður komið að því að skilgreina hvernig unnt sé að vinna að markmiðinu? Snýst þetta kannski að einhverju leyti um hugtök? Ég leyfi mér a.m.k. að efast um að nokkur myndi spyrja í forundran: Er enn verið að vinna með skóla jafnréttis og jöfnuðar.
NKC
Góð grein hjá þér Nanna. Alltaf þörf á að vekja máls á mikilvægi jafnréttis, líka í skólakerfinu. Í samfélagi lýðræðis og jöfnuðar verður skólafólk á öllum stigum og í öllum stöðum að standa vörðu um jafnrétti til náms. Ég held að allir séu að reyna sitt besta og rannsóknir sýna að íslenskt menntakerfi er framarlega þegar kemur að jöfnuði og þannig á það að vera
Skóli án aðgreiningar snýst ekki um jöfnuð og rétt nemenda eins og hann er praktíseraður á Íslandi í dag. Það er ekki gerlegt að veita öllum nemendum þær aðstæður til náms sem þeir eiga rétt á eins og búið er að skólum í dag. Ég er ósátt við yfirborðslega umræðu um skóla án aðgreiningar þar sem skautað er framhjá því hvernig aðbúnaður og mannafli er í grunnskólum. Skóli án aðgreiningar snýst ekki um afstöðu okkar kennara, hann snýst um það að okkur er ekki gert kleift að mæta þörfum nemenda. Í mörgum tilfellum eru nemendur með raskanir sem krefjast fagþekkingu þroskaþjálfa og fagfólks á geðsviði fremur en kennara. Fræðasamfélagið okkar er hvað iðnast við að tala grunnskólann niður með því að gera lítið úr því starfi sem þar er unnið. Ég hef alltof oft setið undir fyrirlestrum um ódug kennara þegar kemur að þjónustu við nemendur með sérþarfir. Mér finnst sú nálgun afar ósanngjörn og vildi óska að aðfinnslum um aðbúnað og þjónustu við nemendur væri beint þangað sem hún á heima, til yfirvalda og þá meina ég bæði ríki og sveitarfélög. Það er skelfileg tilfinning að geta ekki komið til móts við þarfir nemenda sinna og sitja undir ámæli um laka fagmennsku og ódug. Ég hef séð margan góðan kennarann brotna og séð marga kennara flýja grunnskólann. Sjálf hef ég oft verið á barmi örvæntingar. Við erum bæði undirmönnuð og vantar sérþekkingu, gögn og aðstöðu. En við kennarar sem glímum við kerfið hvern dag í störfum okkur eru látnir sitja uppi með skömmina. Ég er ekki hissa á því að aðeins helmingur menntaðra kenna kjósi að sinna kennslu í grunnskóla maður þarf að hafa ansi hreint harðan skráp til að brotna ekki.