Frímínútur

FrímínúturÁ nýbyrjuðu skólaári hafa frímínútur verið til meiri umræðu en oftast áður en því veldur ágreiningur um túlkun kjarasamninga kennara og sveitastjórna. Ég ætla ekki að blanda mér í þann ágreining en hef aftur á móti verið að velta sjálfu fyrirbærinu frímínútum fyrir mér.  Frímínútur eru svolíðið sérstakt fyrirbæri, þær eru óaðskiljanlegur hluti skólastarfsins en samt ekki partur af námi nemenda. Tilgangur þeirra er vafalítið sá að gefa nemendum tækifæri til að líta upp úr námsbókunum og leika sér úti með skólafélögunum án beinna afskipta starfsmanna skólans. Mörgum börnum finnist frímínútur líka vera hápunktur skóladagsins en svo eru önnur sem geta vart hugsað sér neitt skelfilegra og oft hefur verið  bent á að hvergi sé einelti meira en þar.

Frá því að ég man fyrst eftir mér hafa frímínútur verið fastur liður í daglegu starfi skólans, með reglulegu millibili er starf nemenda rofið og þeir sendir út á skólalóð í 10 – 20 mínútur og dyrum skólans læst. Enginn fær að vera inni nema sá sem er með vottorð frá foreldrum og kannski líka einn vinur hans. Eina undantekningin er þegar veðrið er afleitt eða mengun yfir hættumörkum. Hér áður fyrr var hefðin sú að kennarar skiptust á að taka frímínútnavaktina og gengu oft saman tveir og tveir um skólalóðina til að fylgjast með og vera til staðar ef eitthvað kæmi upp á. Undanfarin ár hefur það aukist að skólaliðar annist frímínútnagæsluna í stað kennara. En fleira hefur breyst eins og fram kemur í meistaraprófsritgerð Kristínar Þóru Möller (2014), sem hún vann við Háskólann á Akureyri. Þar segir m.a:

Rannsóknir hafa sýnt að tækifæri barna til að taka þátt í frjálsum leikjum með jafnöldrum sínum fer minnkandi og eru frímínúturnar í skólanum oft eina tækifærið sem börn hafa til að auka félagsfærni sína í gegnum slíkan leik (Pellegrini og Bohn, 2005, bls. 17). Þessi skortur á færni veldur því að tilraun barna til að leika sér í frjálsum leik endar oftar en ekki í rifrildum og slagsmálum og flóknari leikir leysast upp áður en þeir eru komnir af stað. Margir nemendur enda sem aðgerðarlausir áhorfendur á hliðarlínunni (Robert Wood Johnson foundation, 2007, bls. 3) (bls. 54).

Því er ekki að vænta að nemendur í dag flykkist úr í frímínútur til að leika sér saman í Stórfiskaleik, Bim-bam, Brennó eða Fallin spýta, þó sjálfsagt séu undantekningar þar á. Börn eru almennt ekki lengur eins sjálfsæð og áður og foreldrar leggja aukna áherslu á að börnin þeirra séu í öruggum höndum, ekki aðeins inni í kennslustofum heldur allan tímann sem þau eru í skólanum.

Ekki eykst tiltrúin á frímínútur við lestur niðurstöðu rannsóknar Umboðsmanns barna (2010) á líðan barna þar sem segir:

Öryggi á skólalóðum virðist vera ábótavant og það kemur hér berlega í ljós að börn vilja fá betra eftirlit í frímínútum. Að sjá kennara eða annað starfsfólk úti á skólalóðinni veitir þeim öryggi (bls. 37).

Þetta er í samræmi við niðurstöður Kristínar Þóru Möller (2014, bls. ) þegar hún segir að þátttakendur rannsóknar hennar upplifi mikið af vandamálum í frímínútum og að það komi tímabil sem eru erfiðari en önnur sérstaklega þegar veðurfar er slæmt og þegar það vantar fólk til vinnu. Það sé mikið um að nemendur séu bæði að taka með sér vandamál út í frímínútur og koma inn úr frímínútum með óleystan ágreining. Samt sem áður er það mat þátttakendanna að margt jákvætt eigi sér líka stað í frímínútunum, t.d. gefst nemendum mikilvægt tækifæri til að leysa ágreining og mynda og styrkja vináttutengsl (bls. 54).  Hluta vandans telur Kristín Þóra að megi rekja til þess að starfsfólk skólans skorti faglega þekkingu og færni til að hafa umsjón og ábyrgð með frímínútum.

Frímínútur, eins og við þekkjum þær,  eru líklega barn síns tíma. Ég geri ráð fyrir að flestir séu sammála um að nemendur þurfi að fá tækifæri til að hreyfa sig og leika sér meðan þeir eru í skólanum en er það rétta leiðin að senda allan skarann, tugum og jafnvel hundruðum saman, úr á lóð á sama tíma og vona það besta?

Í Pressunni þann 30. ágúst s.l. segist Margrét Pála Ólafsdóttir skólastjóri og höfundur Hjallastefnunnar vilja leggja niður frímínútur. Hún telur að stórlega sé hægt að draga úr einelti í skólum með því að breyta formi frímínútna eins og við þekkjum þær í dag.

Þegar stór hluti allra barna fer út á sama tíma og eftirlit er takmarkað og ekkert skipulagt starf er fyrir hendi, er hætta á félagslegu og líkamlegu einelti og útilokunum. Þótt skólaliðar séu að gera sitt besta þá er það ekki nóg þegar tugir eða hundruð barna fara öll út á sama tíma. Frímínútur eru mesti háskatíminn í skólagöngu barna. Ég held að margir fullorðnir geti kinkað kolli yfir því.

Í stað núverandi fyrirkomulags frímínútna vill Margrét Pála fella hvíldartíma barna inn í samverutíma með kennurum. Þetta þýðir að í raun þarf að „gjörbylta“ grunnskipulagi grunnskólanna (Margrét Pála Ólafsdóttir, 2015).

Er ekki orðið tímabært að horfast í augu við að frímínútur eru hálfgert vandræðabarn og að við þurfum að líta heildstætt á skóladag nemenda þar sem hvíld, hreyfing, útivist og leikur er samofinn öðru starfi undir handleiðslu fagfólks? Það er sjálfsagt hægt að fara margar leiðir til þess ekki síst þar sem kennarar, frístundaráðgjafar og annað starfsfólk starfar í teymum. Ég þykist vita að í ýmsum skólum sé verið að leita slíkra leiða, vonandi skila þær þeim breytingum sem þörf er á.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s