Snjalltæki, mannasiðir og heilsa

Símar verða væntanlega í einhverjum jólapökkum þessi jólin sem leiðir hugann að því að í  Japan sést fólk ekki tala í síma í lestum, og það sem meira er á veitingastöðum sjást almennt engir símar uppi við heldur. Þetta hef ég eftir samstarfskonu minni sem nýlega var á ferð í Japan. Augljóslega er þetta ekki vegna þess að almenningur í Japan á ekki síma, þeir framleiða þá  sjálfir í miklu magni, heldur virðist þjóðin hafa komið sér upp almennum viðmiðum um notkun síma. Nokkuð sem okkur hefur algerlega láðst að gera og því ríkir hér algert hömluleysi í notkun snjalltækja með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir s.s. kvíða, svefnleysi, minnkandi beinum samskiptum, athyglisskorti og stoðkefisvanda.

Á Foreldradegi Heimilis og skóla í nóvember s.l. var fjallað um niðurstöður Rannsókna og greininga um aukinn kvíða barna og ungmenna og það tengt við aukna notkun snjalltækja, þó ekki væri fullyrt að um orsakasamband væri að ræða. Aftur á móti var ályktað að aukin notkun barna og ungmenna á snjalltækjum hafi líklega stytt svefntíma þeirra meira en við gerum okkur almennt grein fyrir. Eins og kunnugt er þá hefur langtímasvefnleysi alvarleg áhrif á andlega heilsu fólks. Mörg börn fara með snjalltæki með sér í háttinn og þegar foreldrarnir standa í þeirri trú að börnin séu komin í draumalandið þá er eins víst að þau séu í beinum eða óbeinum samskiptum á netinu sem halda fyrir þeim vöku. Skilaboð geta verið að berast alla nóttina og barnið vaknar aftur og aftur til að missa ekki af neinu. Þetta eru ekkert endilega skilaboð frá einhverjum dónakörlum heldur fullt eins frá jafnöldrum, sem þegar verst lætur fá útrás fyrir eigin vanmátt með því að særa aðra og kannski þarf ekki meira en að barnið fái ekki nógu mörk „like“ á „selfie“ myndina til að valda því djúpum kvíða. Þessu ástandi hefur verið líkt við það að börnin séu ein og varnarlaus á ferð í varasömu landi sem foreldrarnir þekkja ekkert til.

Á umræddum fundi Heimilis og skóla var hvatt til þess að foreldrar settu reglur um notkun snjalltækja á heimilum sínum t.d. þá að öll snjalltæki fjölskyldunnar færu í hleðslu á hillu í ganginum kl. 21 og væru ekki í notkun á nóttunni. Mér segir svo hugur að framkvæmdin yrði síst auðveldari fyrir suma foreldra en börnin.

Það voru ekki börn sem „föttuðu uppá“ snjalltækum, heldur við fullorðna fólkið sem eigum að vera fyrirmyndin og leggja línurnar. Mörg höfum við sjálfsagt orðið vitni að því þegar tveir einstaklingar sitja við borð á veitingastað, hver með sinn síma, og virðast ekki eiga nein bein samskipti. Við þekkjum það kannski líka að sitja til borðs með eigin fjölskyldu eða vinum þar sem sumir þurfa sífellt að fylgjast með símanum sínum, eins og þeir séu á neyðarvakt. Níu ára stúlka sagði mér að henni þætti best að tala við mömmu sína í síma, því ef hún væri að tala beint við hana væri mamma hennar alltaf að horfa á símann sinn á meðan. Fyrir nokkru var ég að kenna hópi nemenda og tók eftir því að aftast sat nemandi sem allan tímann horfði á símann sinn og átti þar greinilega í líflegum samskiptum. Ég tek það fram að í upphafi kennslustundarinnar voru nemendur beðnir um að leggja snjalltækin til hliðar. Nei, þetta var ekki í grunnskóla, heldur var um að ræða nemendur á meistarastigi.

Tæknin hefur að sumu leyti tekið af okkur völdin, við erum að verða eins og leiksoppar án leikreglna. Til eru þeir sem segja að það þýði ekkert að setja reglur um notkun snjalltækja, að við þurfum að sætta okkur við að það séu breyttir tímar. Síst af öllu vil ég loka fyrir notkun snjalltækja því þau gefa okkur takmarkalausa möguleika sem sannarlega auðvelda og auðga líf okkar, en ég er sannfærð um að við þurfum einhverskonar viðmið eða mannasiði um notkun snjalltækja. Að öðrum kosti stefnir í  alvarlegan heilsufarlegan og félagslegan vanda. Auk þess sem áður er nefnt um áhrif snjalltækja á kvíða barna sá ég nýlega í fréttum frá Danmörku að mikil aukning hefur orðið á því að leitað sé með börn til sjúkraþjálfa vegna skaða í hálsi og herðum vegna mikillar notkunar snjalltækja.

Með samstilltu átaki og viðhorfsbreytingum hefur áður tekist að snúa við óheillavænlegri hegðun. Hver hefði trúað því fyrir 40 árum síðan að eftir nokkur ár þætti hvorki eðlilegt né sjálfsagt að reykja á kaffistofum, flugvélum og á skemmtistöðum? Okkur tókst einnig á undraverðan hátt að draga verulega úr ungingadrykkju og leggja niður ýmiskonar sóðaskap og ósiði. Þetta snýst fyrst og fremst um ríkjandi viðhorf og að hver og einn taki ábyrgð á eigin hegðun. Þannig verðum við fullorðna fólkið góðar fyrirmyndir barnanna.

Eftir hverju erum við að bíða?

NKC

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s