Hrós

„Í skólanum mínum er nemendum mikið hrósað, en þar er algerlega bannað að hrósa þeim fyrir að vera greindir eða fljótir að vinna“ sagði Jón Baldvin Hannesson skólastjóri Giljaskóla á kennaranámskeiði sem hann hélt fyrir skömmu. Orð Jóns Baldvins hafa verið mér ofarlega í huga. Þegar ég var að alast upp var fáheyrt að börnum væri hrósað a.m.k. ekki þannig að þau heyrðu. Enda var almennt álitið að börn gætu ofmetnast af hrósi og ég held að kynslóðin á undan mér sé enn dálítið feimin við hrós og fari sparlega með það. Við sem liðum fyrir skort á hrósi erum aftur á móti staðráðin í því að láta afkomendur okkar ekki fara á mis við hrósið og nú er því gjarnan ausið ótæpilega yfir börn og nemendur eins og það sé sjálfsagður hlutur sem allir eigi alltaf rétt á.

Af orðum Jóns Baldvins mátti heyra að kennarar í Giljaskóla hafa ígrundað hrósið og áhrif þess. Þar er farið með hrósið eins og áhrifaríkt verkfæri sem nýtt er til að styðja við og leiðbeina nemendum. Það að hrósa nemendum fyrir að vera gáfaðir eða fljótir að vinna er eins og að hrósa þeim fyrir að vera bláeygðir eða rétthentir. Hrós fyrir slíkt stuðlar því fyrst og fremst að ofmetnaði sem getur jafnvel leitt til þess að viðkomandi nemendur telja sig ekki þurfa að leggja sig fram.

Með tilliti til þess að stundum hef ég heyrt kennara skilgreina skóla án aðgreiningar sem skóla þar sem börn vinna á mismunandi hraða þykja mér áherslur Giljaskóla umhugsunarverðar. Höfum við e.t.v. í of miklum mæli lagt áherslu á hraða og afköst? Er sanngjarnt að nemendur sem lítið þurfa að hafa fyrir þeim verkefnum sem kennarinn úthlutar þeim, og spæna því upp fjölda vinnubóka á skömmum tíma, fái hrós fyrir afköst meðan nemendur sem vinna hægar en leggja sig fram við að ná árangri fái engin? Auk þess má velta því fyrir sér hvort mikil afköst nemenda séu ekki fyrst of fremst vísbending um að kennarinn hafi ekki látið þá fá viðfangsefni við hæfi. Til að forðast misskilning er ég ekki að halda því fram að það megi ekki hrósa dugmiklum nemendum, en það er áreiðanlega ekki erfitt að finna önnur tilefni en vinnuhraða til að hrósa þeim.

Hér á landi eru margir skólar sem nýta enska matsblaðið Three stars and að wish sem hefur verið þýtt Þrjár stjörnur og ein ósk (áskorun) og John Morris skólastjóri Ardleigh Green Junior School hefur kynnt fyrir íslenskum kennurum. Matsblaðið er m.a. notað til að meta einstök verkefni  nemenda. Áður en farið er af stað eru sett fram skýr markmið með verkefninu í samræmi við færni nemenda. Þegar úrlausnirnar eru metnar af kennaranum, samnemendum, foreldrum eða öðrum, fá nemendurnir eina stjörnu fyrir hvert markmiðanna sem þeir hafa náð og áskorun um að gera næst eitthvað á annan hátt til að árangurinn verði enn betri. Fullt samræmi er alltaf á milli markmiða og mats og þannig beinir matið nemendum áfram þ.e.a.s. það veður leiðbeinandi. Það má einnig nota þrjár stjörnur og ein áskorun þegar nemendur meta einstakar kennslustundir eða þegar kennarar meta kennslustund hjá hver öðrum og á fleiri vegu. Þannig eru stjörnurnar tákn um hrós fyrir markmið sem viðkomandi hefur náð.

Það eru ekki einvörðungu kennarar sem þurfa að ígrunda hrósið og áhrif þess á uppeldi barna foreldrar þurfa ekki síður að vanda sig í meðförum hróssins. Að sjálfsögðu þykir öllum foreldrum börnin sín vera einstök en erum við að gera börnum okkar greiða þegar við hrósum þeim viðstöðulaust fyrir gáfur, fegurð, hæfileika o.s.frv. án þess að tengja það við athafnir þeirra? Hvernig verða samskiptin í hópi barna (eða fullorðinna) sem öll hafa alist upp við að vera stórkostleg án þess að þau hafi þurft að ávinna sér hrósið? Hvernig er að lifa í samfélagi sem samsett er af slíkum einstaklingum?

Það var ekki algerlega út í hött þegar gamla fólkið hélt því fram að börn gætu ofmetnast af hrósi og orðið að liðleskjum. Hrósið er dýrmætt því þarf að umgangast það af virðingu og varfærni. Hrós er  miklu verðmætara þegar maður hefur áunnið sér það með orðum sínum eða athöfnum en þegar það fæst fyrir ekki neitt.  Öllum þykir hrósið gott og með því að nota það skynsamlega getur það verið afar hjálplegt uppeldis – og kennslutæki til að styðja nemendur til góða verka og jákvæðs þroska.

NKC

One response to “Hrós

  1. Bakvísun: Aðdáun á börnum | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s