Mál og lestur – það munar um foreldra

cropped-kids-reading1Lestur er eins og margt annað sem börn læra – með góðum ásetningi, stuðningi, æfingu og reynslu. Sumt er nýtt en alls ekki allt. Hið tæknilega ferli lestrar, að umbreyta í huganum letri á blaði í hljóð, tengja saman hljóðin og mynda orð og setningar er ný iðja fyrir börnum þótt þau hafi verið meðvituð um að slíkt ferli eigi sér stað við lestur. Að átta sig á merkingu er hins vegar aðeins að litlu leyti tæknilegt ferli. Það er hugrænt ferli sem er háð valdi á máli, áhuga, einbeitingu, hugkvæmni, skapandi og greinandi hugsun o.s.frv. Börn hafa reynslu af slíkri úrvinnslu – fyrir þeim er ekki nýtt að hugsa. Þau sem lesa sér til gagns og yndis hafa tileinkað sér árangursríkar hugsunarvenjur því lestur felur fyrst og fremst í sér að hugsa. Þau hafa líklega einnig gott vald á máli því bæði ánægjulegur og árangursríkur lestur kallar á góðan orðaforða. En hvað er orðaforði og hvernig tengist hann árangri í lestri?

Orðaforði endurspeglar margs konar þekkingu, vitund og reynslu. Veraldleg þekking er uppsöfnuð þekking og færni á ýmsum sviðum sem sprettur af reynslu og menningu samfélagsins. Orðaþekking felur í sér þekkingu á orðum og ekki síður vitund um hvernig nota má orð á skapandi og greinandi hátt. Orð eru ekki aðeins ívaf hugsunar heldur að mörgu leyti uppistaða hennar. Tungumál eru lykilverkfæri hugans og orðaforði gegnir afar mikilvægu hlutverki í því gangverki. Orðaforði er forsenda náms og nám endurspeglast í orðaforða. Sá sem bætir við sig þekkingu, bætir við sig orðaforða og sá sem leitar þekkingar reiðir sig á orðaforða til þess að meðtaka hana. Reyndin er sú að auðugur orðaforði er ávísun á velgengni í námi meðan rýr orðaforði skapar vítahringsáhrif. En hvernig öðlast börn góðan orðaforða og forðast slíkan vítahring? Hvað þarf til? Hvað geta foreldrar gert til þess?

Börn læra tungumál og heyja sér orðaforða í gegnum félagsleg samskipti, hlustun, lestur og með því að taka vel eftir umhverfi sínu og umheimi. Hlutverk foreldra er að skapa skilyrði sem stuðla að því að börnin öðlist m.a. fjölbreytilega málreynslu. Þessa reynslu geta foreldrar hæglega veitt börnum sínum með því að ræða við þau um daginn og veginn, reynslu þeirra, hvað þau eru að hugsa og hvað þau eru að fást við. Foreldar geta auðgað þessa reynslu barna sinna – ekki síst með því að setja hana í víðara samhengi og skapa börnunum þar með enn betri yfirsýn. Við það nota foreldrar og börn tungumálið á ríkulegan hátt – hagnýtan, blæbrigðaríkan og eftir atvikum efnisríkan orðaforða, einföld sem flókin orð um veruleikann. Í því samhengi meðtaka börn orðaforða, skynja merkingu hans og átta sig á hvernig þau geta notað hann á viðeigandi hátt. Ef hugsun barna tekur mið af orðaforðanum sem þau ráða yfir þarf ekki að velkjast í vafa um gildi þess að nota fjölbreyttan og blæbrigðaríkan orðaforða í samskiptum við þau.

Lestur verður með tíð og tíma ein mikilvægasta leiðin til náms. Lesefni verður ekki skiljanlegt nema lesandinn hafi gott vald á tungumáli og reyndar hefur sá að jafnaði gott vald á máli sem les mikið. Það er mikilvægt að foreldrar leiði börn sín markvisst inn í heim lestrar og það geta þeir gert svo um munar. Þeir átta sig kannski ekki á því en þeir geta hæglega mótað lestrarvenjur barnanna löngu áður en þau fara sjálf að lesa. Það gera þeir m.a. með því að lesa fyrir þau og fá þau til að taka virkan þátt í lestrinum. Lesefnið opnar og mótar huga barnanna en ekki síður lestrarathöfnin sjálf. Þau taka eftir því hvernig foreldrar lesa, ráða í svip þeirra og fas og kynnast ritmálinu á þann hátt sem þau þekkja talmálið. Lestrar-, náms- og hugsunarvenjur þeirra mótast þegar þau eru virkjuð til þátttöku í lestrarathöfninni, t.d. með því að rifja upp það sem áður hefur komið fram, spyrja spurninga, leita skýringa á því sem er framandi, draga lesefnið saman, álykta um það og jafnvel spá fyrir um hvað gæti gerst í framhaldinu o.s.frv. Þegar þau fara að lesa síðar, staldra þau við í lestrinum, rifja upp, spyrja sig spurninga um efnið, eigin skilning o.s.frv. Þau hafa vanist því að vera virkir þátttakendur í lestrarathöfninni og skynja ábyrgð sína á því að móta eigin skilning á efninu. Þau hugsa markvisst og meðvitað – en það er það sem felst í árangursríkum lestri. Foreldrar geta mótað þessa venju löngu áður en börnin fara sjálf að rýna í letur og lagt þannig mikilvægan grunn að lestri og læsi.

Þegar börnin læra að lesa geta foreldrar stutt við þau á margan hátt, fylgst með, hvatt þau, hlustað á þau og rætt við þau um lesefnið, merkingu þess og samhengi. Það er eflaust það hlutverk sem skólinn felur helst foreldrum vegna lestarnámsins en foreldrar geta gert margt annað í þágu lestrar og læsis. Þeir ættu t.d. alls ekki að hætta að lesa fyrir börnin þótt þau geti lesið sjálf. Auk þess að efla tengsl milli barna og foreldra styrkir samveran lestrarvenjur og stuðlar að lestaráhuga. Vitað er að lestur getur haft mjög jákvæð áhrif á líf barna, aukið við reynslu þeirra, orðaforða, hugsun og árangur, veitt þeim djúpa ánægju og stuðlað að því að þau gleymi stað og stund í iðju sinni. Þrátt fyrir það er vitað að mörg börn lesa lítið sem ekkert nema í skólanum – ekki vegna þess að þau ráða ekki við það heldur vegna þess að þau kjósa að gera það ekki. Það geta verið margar ástæður fyrir því en ein þeirra er örugglega sú að hvatning, stuðningur og aðgengi að áhugaverðu lesefni er ekki nægilega vel til staðar. Það er mikilvægt hlutverk foreldra að veita slíka hvatningu, tryggja aðgengi að viðeigandi lesefni, vera sjálfir fyrirmyndir sem lesa, fara með börnunum á bókasöfn og í bókabúðir. Það munur mikið um foreldra þegar kemur að lestraruppeldi og tilgangur þessarar greinar er að vekja athygli á því.

Guðmundur Engilbertsson, læsisáhugamaður

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s