Sjálfu heilkennið  

Sjálflægnin er eitt helsta einkenni samtímans og það kemur ekki á óvart að „selfie“ hafi verið orð ársins 2014 að mati Oxford Dictionaris. Þá var hafin sú árátta fólks að taka  endalaust myndir af sjálfu sér til að deila á samfélagsmiðlum svo aðrir geti dáðst að þeim;  „Fallegust,“ „vá..á“,  „ glæsilegt hjá þér…..“ Við lifum í heimi þar sem allt  snýst um „mig“ þetta blasir m.a. við í  þeim aragrúa bóka sem koma út og beina sjónum að sjálfinu,  að sérstöðu einstaklingsins, að því hvernig á að verða betri, betri en hinir.

Börnin verða vitaskuld fyrir áhrifum af þessari áráttu, þau verða yfirborðskenndari, samkeppnismiðaðri og sjálflægari en áður hefur þekkist, segir bandaríski fræðimaðurinn og fyrrum grunnskólakennarinn Michela Borba sem hefur kallar þetta sjálfu heilkennið.

Allt snýst um eigin frama án tillits til tilfinninga og þarfa annarra. Þetta ástand er að festa rætur í menningu okkar og grefur smámsaman undan persónuleika barnanna okkar, segir hún.  Sjálflægnin gengur af samkenndinni dauðri, samkenndinni sem er  grundvöllur mannúðar. Það er þess vegna sem við þurfum að beina athyglin barnanna frá „Ég, mig, mér, mín“ að „ Við, okkur, okkur, okkar.

Borba vísar í bók sinni UnSelfie til niðurstaðna rannsókna sem sýna að  með aukinni sjálflægni hefur dregið mælanlega úr samkennd ungmenna á síðustu þremur áratugum, eða um heil 40%. Samfara þessu hefur orðið aukning á þeirri grimmd sem ungmenni beita hvert annað. Þegar sjálfið belgist úr og samkenndin dvínar verður m.a. til gróðrastía eineltis. Rannsókn sem Borba vísar til sýnir að einelti meðal ungmenna hefur aukist um 52% á árunum 2003 – 2007 og merki eru um börn séu yngri þegar eineltið byrjar, eða allt niður í þriggja ára gömul. Á sama tíma segir hún að siðferði ungmenna hafi veikst, jafnframt því sem  aukinn félagslegur þrýstingur hefur leitt til vaxandi tilfinningalegra vandamála svo sem kvíða. Og þeir, sem upplifa að þeir séu þolendur ofbeldis, þar á meðal eineltis, eiga erfiðara með að finna til samkenndar með öðrum. Þannig heldur stöðugt áfram að draga úr samkenndinni og þar með mannúðinni.

Allir þekkja þau hryllingsverk sem menn hafa drýgt þegar tekist hefur að kæfa mannúðina, þar nægir að nefna Auschwitz, fyrrum Júgoslaviu og Serbíu. Borba bendir á að markviss efling samkenndar sé forsenda mannúðar og að það þurfi að  vera verkefni allra sem annast velferð barna að vinna að henni bæði foreldra, kennara, ráðgjafa, þeirra sem vinna að tómstunda- og félagsmálum og raunar samfélagsins alls. Hún bendir líka á að börn sem búi yfir samkennd séu hamingjusamari en börn sem geri það ekki. Við verðum, segir Borba, að gera betur til að hjálpa sonum okkar og dætrum til að verða góðar manneskjur, ef við kennum þeim ekki samkennd hefur okkur mistekist.

Bók Borba;  UnSelfie, sem kom út á þessu ári, hefur að geyma hagnýtar leiðbeiningar og verkefni til að efla samkennd barna. Hún byggir á 9 megin áherslum:

  1. Tilfinningalæsi. Barnið lærir að greina eigin tilfinningar og annarra.
  2. Barnið tileinkar sér gildi umhyggju svo það geti sýnt öðrum samkennd.
  3. Barnið lærir að setja sig í annarra spor og að skilja tilfinningar, hugsanir og viðhorf annarra.
  4. Barnið lærir að tengja hugmyndaflug við siðferði. Það getur notað bókmenntir, kvikmyndir o.fl. sem kveikju til að finna til með öðrum.
  5. Barnið tileinkar sér sjálfsaga svo það geti haft stjórn á sterkum tilfinningum og dregið úr stressi sem kemur í veg fyrir að það geti hjálpað öðrum
  6. Barnið lærir að sýna vinsemd, að bera umhyggju fyrir velferð og tilfinningum annarra.
  7. Barnið þjálfast í samvinnu, lærir að vinna með öðrum að sameiginlegum markmiðum sem þjónar hagsmunum hópsins.
  8. Barnið eflist í siðferðilegu hugrekki sem hjálpar því til að segja álit sitt, grípa inn í og hjálpa öðrum.
  9. Barnið lærir að tileinka sér óeigingjarna leiðtogahæfni sem stuðlar að því að það leitast við að gerir öðrum gott, sama hversu lítið sem það er.

Vonandi á bókin eftir að rata í hendur áhugasamra kennara, foreldra og annarra uppalenda sem geta nýtt hana með nemendum sínum eða börnum. Gleymum því þó ekki að engin uppeldisbók er svo góð að hún komi í stað góðra fyrirmynda.

NKC

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s