Innblástur frá ráðstefnunni Celebrating Linguistic Diversity.
Á nýliðnu vori sóttum við ráðstefnuna „Celebrating Linguistic Diversity“ sem haldin var í Toronto Kanada. Rástefnan var að þessu sinni haldin til heiðurs fræðimanninum Jim Cummins sem hefur um árabil rannsakað og skrifað um málþroska og læsi tví- og fjöltyngdra barna.
Á ráðstefnunni var fjallað á fjölbreyttan hátt um rannsóknir, þróunarverkefni og aðferðir í kennslu tví- og fjöltyngdra barna á öllum skólastigum. Eitt af því sem vakti sérstaka athygli okkar var umfjöllun um aðferðir sem miða að því að efla mál og læsi tví- og fjöltyngdra barna í skólum þar sem fjöldi þeirra er mikill. Bent var á að í mörgum skólum væru tungumálin orðin svo mörg að flókið reyndist að bjóða öllum móðurmálskennslu í eigin tungumáli. Markmiðið verður þess í stað að þróa leiðir til að efla mál og læsi með því að vinna með tungumál allra nemenda, bæði skólamálið og móðurmálið á þann hátt að skilningur barnanna á hugtökum og orðum dýpki og tengist sem mest reynslu þeirra og fyrri þekkingu. Tungumálið verður þannig að nokkurskonar rannsóknarviðfangsefni sem unnið er með á skapandi hátt í samvinnu nemenda og kennara. Bent var á fjölmargar leiðir til að vinna á þennan hátt og fullyrt að þær aðferðir þyrftu ekki endilega að kosta mikla peninga heldur fyrst og fremst breytta hugsun kennara og jákvætt viðhorf. Eitt dæmið fjallaði um náttúrufræðikennara sem var að vinna með skordýr og kenna hugtök tengd þeim á skólamálinu. Samtímis fékk hann nemendur til að finna út nöfn og hugtök á eigin tungumáli, kannaði hvort þau vissu meira um eða hefðu reynslu af viðfangsefninu á eigin tungumáli og gaf þeim tækifæri til að rannsaka það nánar t.d. á spjaldtölvu, vefsíðu eða í samræðu við aðra. Umræða um viðfangsefnið fór síðan fram á skólamálinu og samhliða var lögð áhersla á að kenna lykilorðin og hugtökin sem var verið að vinna með.
Hér á landi hefur umræðan um það hvort að skólinn eigi að kenna fjölbreytt móðurmál aukist verulega. Í þeirri umræðu virðist oft sem tvö sjónarhorn séu ríkjandi. Annarsvegar það að skólinn eigi að einbeita sér að íslenskukennslunni en móðurmál barnanna eigi eingöngu að tala og læra utan veggja skólans. Aðrir telja mikilvægt að börn fái tækifæri til að læra móðurmál sitt í skólanum. Þeir síðarnefndu sjá þá oft fyrir sér móðurmálskennslu sem kennd er til viðbótar við það nám sem fer fram í skólanum og tengist kannski lítið eða ekkert markmiðum í námi barnanna almennt og enn síður íslenskunámi þeirra og læsi.
Umræðan á ráðstefnunni náði hinsvegar langt út fyrir þessi tvö sjónarhorn. Einn af áhugaverðari fyrirlestrunum sem við sátum var haldinn af Dr. Roma Chumak-Horbatsch sem nýverið gaf út bókina LAP – Linguistically Appropriate Practice, a Guide for Working with Young Immigrant children. Chumak heldur einnig úti vef með upplýsingum um mál og læsi My Language . Þó að rannsóknir hennar beinist fyrst og fremst að máltöku og læsi ungra barna má nýta margar af hennar hugmyndum í kennslu eldri nemenda. Chumak leggur sérstaka áherslu á að í skólum sem hafa það að markmiði að starfa án aðgreiningar þurfi að þróa skólastarfið þannig að þekking, reynsla og styrkleikar allra barna verði metin að verðleikum og nýtt í námi þeirra. Chumak segir að skólar sem krefjast þess að nemendur skilji móðurmáli sitt eftir við útidyrnar og viðurkenna það ekki sem hluta af sjálfsmynd þeirra og reynsluheimi stuðli að því að börn sem hefja skólagöngu sína tví- eða fjöltyngd, yfirgefi skólann mörgum árum síðar eintyngd og illa læs.
Aðferðir af þessu tagi gætu hjálpað okkur til að hugsa um íslensku sem annað mál og móðurmálskennslu í öðru samhengi en áður. Með því að þróa markviss vinnubrögð í eflingu máls og læsis allra barna námi þeirra til heilla má mögulega koma í veg fyrir að eingöngu sé kennd íslenska í íslenskutímum og önnur móðurmál í sérstökum móðurmálstímum sem hafa litla tengingu við annað nám barnanna. Nemendur með annað móðurmál þurfa að læra íslensku til að standa sig vel í stærðfræði, náttúrufræði, lífsleikni, eignast vini og verða hluti af samfélaginu. Þau þurfa líka að viðhalda móðurmáli sínu til að eignast aðgang að menningu, tilfinningum og visku fjölskyldu sinnar. Hvað okkur hin varðar þá þjálfum við eyru okkar og færni til að skilja og eiga í samskiptum þvert á tungumál og menningu ef við opnum fyrir önnur tungumál í umhverfi okkar. Munum því eftir að bjóða öllum móðurmálum inn í skólastarfið, það víkkar sjóndeildahring okkar allra og eflir fjölmenningarlæsi nemenda og kennara.
Erindi okkar um fjölbreytt tungumál í námi íslenskra leik- og grunnskólabarna féllu í góðan jarðveg en hér fyrir neðan má sjá nokkur af þeim dæmum sem við fjölluðum um:
Fjölbreytt tungumál í leikskóla
Spjaldtölvur í starfi Hagaskóla
Fjölmenningarstefna skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur „Heimurinn er hér“
Fríða B. Jónsdóttir og Kristín Vilhjálmsdóttir