Nú eru flestir grunnskólar landsins byrjaðir og kennarar hafa hitt nemendur sína a.m.k. einu sinni. Mikil vinna hefur átt sér stað í skólunum undanfarnar vikur þegar kennarar hafa veriið að undirbúa komu nemenda og sækja sér margskonar fræðslu.
Það eru fáir aðrir en þeir sem hafa unnið í grunnskólum sem gera sér grein fyrir því hversu mikil vinna og skipulag hefur átt sér stað áður en nemendur mæta í skólana á haustin. Þau 19 ár sem ég vann í grunnskóla fannst mér alltaf gaman að skipuleggja skólárið framundan, Maður var fullur tilhlökkunar að undirbúa komu nemenda og uppfullur af hugmyndum um það hvernig maður ætlaði að takast á við næsta vetur og bæta starf sitt miðað við það sem gert var skólaárið á undan. Eftir að ég fór úr grunnskólanum er þetta sá þáttur sem ég sakna einna mest. Það er eitthvað alveg sérstakt við það að undirbúa komu nemenda í skólann á haustin. Tilfinningin er einna líkust þeirri sem greip mann í gamla daga þegar maður fékk glænýja stílabók og ætlaði nú aldeilis að vanda sig í hana og passa upp á að hún yrði ekki kámug eða illa unnin.
Góðu áformin náðust ekki alltaf í stílabókinni og heldur ekki í kennslunni og á stundum fylltist maður vissu vonleysi þegar leið á veturinn og fékk á tilfinninguna að maður áorkaði litlu. Ég var svo heppin að vinna aldrei alveg ein því við vorum alltaf í skilgreindum samstarfshópum sem báru sameiginlega ábyrgð á starfi tveggja árganga þó hver kennari hefði sinn umsjónarhóp. Það fyrirkomulag kom manni í gegnum erfiðustu tímabilin.
Seinna lærði ég um mikilvægi þess að setja sér markmið sem maður vildi ná, skrá niður hvernig maður vildi vinna að þeim og taka svo skref í átt að markmiðunum og meta afraksturinn jafnt og þétt. Mig langar til að kynna fyrir ykkur markmið sem einn kennari setti sér og ákvað að vinna eftir. Listinn kemur úr bókinni 21st Century discipline; Teaching students responsibility and self-management, höfundur Jane Bluestein. Þau markmið kynnti hann bæði fyrir foreldrum og börnum þeirra að hausti og því gat hann rætt við báða þessa hópa um þau þegar á þurfti að halda. Þannig gaf hann þeim hlutdeild í því sem stefnt var að og jók einnig meðvitund þeirra og ábyrgð á því sem stefnt var að. Því markmið sem engin veit af er erfiðara að uppfylla.
Ég vil að nemendur mínir:
- virði þau mörk sem þeim eru sett í skólanum, viðmið og reglur.
- verði góð í að taka ákvarðanir, hafi hæfni til að meta valkosti og gera sér grein fyrir afleiðingum hvers þeirra.
- gangi vel um hluti og setji þá aftur á sinn stað að lokinni notkun og haldi vinnusvæðum snyrtilegum.
- séu samvinnufúsir og nýti sér þá valmöguleika sem ég gef þeim.
- séu áhugasamir gagnvart eigin námi.
- taki áhættur í námi; og séu óhræddir við að takast á við nýja hluti.
- sýni af sér ábyrgð,hægt sé að reiða sig á þá og þeir séu sjálfstæðir.
- eigi auðvelt með að vinna með öðrum.
- leysi eigin vandamál á uppbyggjandi hátt
- komi undirbúnir í tíma
- hlusti og fari eftir fyrirmælum-strax
- taki fullan þátt í viðvangsefnum sem eru í gangi og umræðum.
- taki frumkvæði í námi sínu og vinnu
- haldi sig að verki og nýti tímann vel
- skili verkefnum á rétttum tíma (merktum)
- sýni af sér sjálfsaga; forðist að trufla kennslustundir.
- séu ánægðir með sig
- ráði við ringulreið og tafir og takist að halda aftur af árásargirni og mótþróa.
- finnist gott að vinna með mér og bekkjarfélögum sínum
- séu ánægðir í skólanum og hafi ánægju af að læra.
Svona lista er að mínu mati gott að gera á haustin og til viðbótar skrá niður hvað maður sem kennari ætlar að gera til að ýta undir að markmið manns náist. Listinn hér að ofan er sýnishorn, hver kennari þarf í raun að gera sinn eigin markmiðalista sem tekur mið af hans áherslum í starfi.
Hér er svo sýnishorn yfir það hvernig kennari getur gert áætlum um hvað hann ætlar að gera til að ná sínum markmiðum:
Markmið | Leiðir – athafnir- aðgerðir | Mat |
Ég vil byggja upp góð tengsl milli mín og nemenda minna | Ég nota fyrstu vikurnar til að kynnast nemendum. Nota leiki og fleiri verkefni til þess.
Ég spjalla óformlega við nemendur á göngum skólans og í frímínútum Ég set mig inn í líf nemenda til að geta átt við þá samræður um þeirra raunveruleika Ég gef nemendum færi á að panta viðtal og/eða kalla þá til mín í viðtal |
|
Ég vil að nemendur mínir séu áhugasamir gagnvart eigin námi | Ég hef fjölbreytt verkefni í boði
Ég nýti mér þekkingu mína á þeirra getu, reynslu og lífi til að bjóða nemendum verkefni við hæfi Ég legg mig fram um að gefa nemendum tækifæri til að nýta styrkleika sína í námi sínu Ég leita leiða til að vekja áhuga nemenda með sem fjölbreyttustum hætti |
Um leið og ég býð nemendur og kennara velkomna til starfa hvet ég kennara til að prófa eitthvað í þessum dúr, ef það mistekst þá er ekki annað að gera en reyna aftur. Ég veit að það skilar árangri og kemur í veg fyrir að það sem gerist í kennslustofunni sé aðeins röð ósjálfráðra viðbragða.
Svona vinnu er einnig hægt að vinna með nemendum, þá setja þeir sér markmiðin og ákveða leiðirnar.
EK