Skólaskylda eða fræðsluskylda

bornadleikjumÞað verður ekki hjá því komist að grípa boltann sem Gretar L. Marinósson varpaði inn á Krítina fyrir skemmstu þar sem hann veltir fyrir sér hvort það sé ekki ákveðinn tvískinnungur að halda því fram að skólinn sé fyrir börnin, því ef svo væri hvers vegna er þeim þá skylt að sækja hann? Og Grétar spyr hvort afnám skólaskyldu sé ekki forsenda fyrir því að gera skólastarf lýðræðislegt. Spurningar Grétars eru áhugaverðar og talandi dæmi um það hvað hugmyndir okkar um skólann eru oft fastmótaðar. Ýmsir hafa þó velt kostum og ókostum skólaskyldunnar fyrir sér. Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði um það á landsfundi sínum fyrir nokkrum árum að fræðsluskylda kæmi í stað skólaskyldu og Jón Gnarr borgarstjóri mun hafa lýst sömu skoðun. Vinkona mín, sem er kennari, er meðal þeirra sem lengi hefur haldið því fram að skólaskylda sé tímaskekkja. Að hennar mati er fræðsluskylda málið því þannig telur hún að megi auka ábyrgð foreldranna á námi og hegðun barnanna í stað þess að láta skólann bera alla ábyrgðina. Vinkonu minni verður einkum tíðrætt um þetta þegar umræðan um erfiða hegðun nemenda verður hávær á kennarastofunni. Viðhorf hennar samræmast ágætlega áhugaverðri umfjöllun Grétars L. Marinóssonar í Netlu, árið 2003 en þar segir hann m.a.:„ Áhrifin af afnámi skólaskyldu gætu orðið þau að ábyrgð á hegðun nemenda færðist í auknum mæli á herðar heimila og nemenda sjálfra. Afleiðingin yrði væntanlega sú að foreldrar og nemendur færu að móta sér sjálfstæðari afstöðu til gildis skólanáms og verða virkari í samvinnu sinni við skólann. Þetta mundi vafalítið leiða til bættrar hegðunar nemenda“.

Danmörk er meðal þeirra landa þar sem ríkir fræðsluskylda en ekki skólaskylda. Þar eiga öll börn rétt á og skulu fá fræðslu og þau eiga rétt á að ganga í skóla. Foreldrar geta valið um hvort þeir senda börn sín í grunnskóla sem eru ókeypis, í einkaskóla eða kenna þeim heima að uppfylltum ákveðnum kröfum sem yfirvöld fylgja eftir. Í fljótu bragði er þetta ekki svo frábrugðið aðstæðum okkar því í 15. Gr. laga um grunnskóla 2008 nr. 91 segir: „Nemendum er skylt að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. Skólaskyldu er unnt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viðurkenndum hætti samkvæmt lögum þessum“.  Samkvæmt lögunum er skólastjóra einnig heimilt að veita nemendum undanþágu frá skólasókn telji hann til þess gildar ástæður

Jafnvel þótt skólaskylda yrði afnumin hér og tekin upp fræðsluskylda í staðinn yrðu væntanlega litlar eða engar breytingar á daglegu lífi flestra barna en ég verð að játa að ég hef áhyggjur af börnum sem myndu einungis njóta heimakennslu. Af hagnýtum ástæðum er ekki ólíklegt að börn sem búa á afskekktum bæjum myndu gjalda fyrir afnám skólaskyldu því væntanlega yrði freistandi fyrir févana sveitarfélög að fella niður dýran skólaakstur. Einnig má búast við að foreldrar, sem tilheyra jaðarhópum s.s. í trúmálum og stjórnmálum eða eru af einhverjum ástæðum upp á kant við samfélagið, verði líklegri en aðrir til að kenna börnum sínum heima frekar en að gefa þeim kost á að taka þátt í hefðbundnu skólastarfi. En kannski eru það einmitt þessi börn sem þurfa mest á því að halda að ganga í almenna grunnskóla.

Við gætum farið sömu leið og Danir og haldið úti virku eftirliti með kennslu og uppeldi barna í heimakennslu og gripið inn í ef alvarlegur brestur er á en þetta yrði dýrt auk þess sem ég er ekki viss um að það sé fullnægjandi. Að mínu mati ættu öll börn að stunda nám undir handleiðslu menntaðra kennara og fá tækifæri til að þjálfast í að vera þátttakendur í samfélagi jafningja með margvíslegan bakgrunn. Skólinn er auðvitað mikilvæg mennta og uppeldisstofnun en hann gegnir ekki síður mikilvægu félagslegu hlutverki.

Ég get auðveldlega fallist á viðhorf þeirra sem halda því fram að með fræðsluskyldu yrði ábyrgð foreldra á námi og hegðun barna þeirra aukin og það er sannarlega mikils virði. Þegar kemur að vali um skólaskyldu eða fræðsluskyldu verð ég samt að viðurkenna að vera gripin forræðishyggju því með skólaskyldunni tel ég að hagsmunir barnanna séu betur varðir auk þess sem ég álít að skólaskylda sé betur til þess fallin að stuðla að jafnræði í samfélaginu. Það á við um þetta mál eins og svo mörg önnur að báðir möguleikar hafa sína kosti og galla.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s