Ráðstefnan: Að skapa lærdómssamfélag – Building Learning Communities 2013
Að skapa lærdómssamfélag var yfirskrift ráðstefnu sem við Björg Melsted kennari í Melaskóla, Gunnar Björn Melsted kennari í Dalskóla og Birna Sigurjónsdóttir verkefnastjóri á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur sátum í Boston í júlí sl. Ferðin var farin að eigin frumkvæði og á eigin vegum en með ferðastyrk frá Kennarasambandi Íslands. Fyrirtækið sem stendur að ráðstefnunni heitir Novemberlearning en Alan November upphafsmaður þessarar ráðstefnu er einn af stjórnendum þess. Sumarráðstefnan sem nú var haldin í 14. skipti, er stærsti viðburðurinn og að þessu sinni sóttu hana um 1000 manns frá 30 þjóðlöndum en flestir voru skólafólk úr Bandaríkjunum. Yfirskriftin er sú sama frá ári til árs en áherslur mismunandi á hverju ári en þó er notkun upplýsingamiðla til samvinnu, samskipta og sköpunar í námi rauður þráður í umfjölluninni.
Viðfangsefnið að þessu sinni var hvernig lærdómssamfélag er skapað með því að skólinn taki upplýsingatækni í þjónustu sína og nýti í námi og kennslu. Þátttakendur voru af öllum skólastigum, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, kennarar og skólastjórnendur, fræðslu- og umdæmisstjórar. Hver dagur þessarar þriggja daga ráðstefnu byrjaði með sameiginlegum fyrirlestri en síðan voru í boði fjölmargir fyrirlestrar og málstofur í minni hópum sem hver þátttakandi valdi eftir eigin áhuga.
Hvernig stendur skólinn sig í því að undirbúa nemendur?
Aðalfyrirlestur fyrsta dags flutti Dr. Young Zhao (www.zhaolearning.com). Young Zhao hefur samið bókina: World Class Learners. Educating Creative and Entrepreneurial Students (2012).
Hann ræddi um hvað samfélagið getur gert til að breyta skólanum og nýta nýja tækni í námi og kennslu. Sífellt þarf að breyta og leita nýrra leiða í menntun. En vitum við sem samfélag hvert við viljum fara? Án þess eru breytingarnar einskis virði. Hvað er góð menntun og hvaða menntun viljum við fyrir börnin okkar. Að hans mati er menntunin góð ef hún tryggir að börnin geti flutt að heiman en þurfi ekki að búa áfram í kjallaranum hjá mömmu og pabba að námi loknu.
Í Bandaríkjunum er mikið atvinnuleysi á sama tíma og mörg störf eru laus og ekki hægt að fá fólk til að sinna þeim, þarna er misræmi bendir hann á. Skólar hafa litið fram hjá fjölbreytileikanum og halda áfram að framleiða einsleita einstaklinga fyrir iðnaðaðarsamfélag fortíðar. Hver og einn hefur ólíka hæfileika og enginn er góður í öllu, enginn er heldur lélegur í öllu. Ekki er vitað hvað gagnast nemendum í framtíðinni, segir hann og í stað þess að leggja áherslu á menntun til atvinnu (e: employment education) þarf mennta nemendur til að verða frumkvöðlar (e: entrepreuneurship education).
Sköpun (e: creativity) kemur fyrst inn í menntaumræðuna um 1980 sem það kemur fram sem jákvætt hugtak. Skólinn dregur úr sköpun og frumkvæði segir Zhao og vitnar í rannsókn sem sýnir að 98% 3ja ára barna eru skapandi en um 45 ára aldur eru 2% manna skapandi en sköpun og frumkvæði eykst aftur við eftirlaunaldur.
Hann talar jafnframt um að miðstéttin og þau störf sem hún hefur sinnt séu að hverfa. Nýja miðstéttin er skapandi fólk sem tekur frumkvæði í eigin lífi og starfi og skólinn hefur ekki staðið sig í að mennta þann hóp. Í þessum hópi skapandi einstaklinga eru flestir sem stóðu sig ekki í skólanum og hættu, dropouts, gagnslausir (e: traditionally useless people).
Árangur í PISA eða Timms tryggir ekki gæði menntunar, segir hann einnig – tryggir ekki að börnin geti flutt að heiman vegna þess að frumkvæði og sköpun eru í öfugu hlutfalli við árangur eins og hann er mældur í þessum prófum. Nær er að skoða sjálfstraust og líðan sem almennt er hærri í vestrænum löndum en asískum þó árangurinn á prófunum sé hærri þar.
Björg Melsted, Gunnar Björn Melsted og Birna Sigurjónsdóttir