Eftir að það birtist við mig viðtal í fréttum Stöðvar tvö hef ég orðið vör við að margir benda á auðvelda lausn á þeim vanda sem þar var rætt um og telja að vandinn leysist með því að kennarar banni síma í kennslustofum.
Ég heyri fólk segja að það geti varla verið mikið mál að hafa körfu á kennaraborðinu sem símarnir séu settir í í byrjun dags. Svo hef ég líka séð mynd úr kennslustofu þar sem hékk plasthengi með litlum hólfum fyrir símana. Þetta getur alveg gengið upp, en skapar samt ákveðinn vanda. Hugsum okkur að hver nemendi sé með 50 000,- kr. síma (sum eru með ódýrari síma og önnur dýrari) þá geta verðmætin í þessum hirslum í 20 barna bekk auðveldalega verið milljón, eða u.þ.b. þriggja mánaða laun kennarans. Ég velti fyrir mér hver ber ábyrgð á þeirri milljón, ef símar týnast eða er stolið úr hirlsunum. Ég á óþægilega auðvelt með að gera mér í hugarlund skammarræður foreldra sem dynja á kennara sem tapast hefur sími hjá. Mér finnst ekki alveg augljóst að skólar taki í mál að bera ábyrgð á heilli milljón í hverri kennslustofu.
Mér finnst annar vinkill á þessari umræðu einnig áhugaverður, en hann snýst um að, það er engu líkara en öllum finnist sjálfsagt að nemendur komi með síma í skólann og líti þannig á að það sé verkefni kennaranna að sjá til þess að þeir séu ekki notaðir í kennslustundum. Ég hef engan heyrt segja að það gæti leyst vandann að foreldrar sæu til þess að nemendur fari ekki með síma í skólann. Væri það ekki auðveldasta leiðin til að losna við síma úr skólum? Hlýtur ekki að vera minna mál fyrir foreldra að semja við sitt barn um að skilja símann eftir heima en kennarann sem þarf annars að byrja hvern daga á því að gera síma nemenda upptæka? Það getur verið tímafrekt að þrasa við nemendur sem ekki vilja lúta reglum og óþarfi að trufla skóladaga heilu bekkjanna með því.
Ég veit að nú þegar eru símar bannaðir í mörgum kennslustofum, en ekki endilega amast við því þó þeir séu í skólatöskum nemenda því í einhverjum tilvikum vilja foreldrar að börn sín séu með síma á daginn til að hægt sé að ná í þau. Þetta skapar engin vandamál þar sem gagnkvæm virðing og traust ríkir en dæmin sanna að sumum nemendum er ekki treystandi. Enda telja nokkrir nemendur, á hvaða aldri sem er, þær reglur sem gilda ekki eiga við um sig. Þeir nemendur eiga oft foreldra sem rísa öndverðir gegn því að reglunum sé framfylgt gagnvart þeirra barni, mæta jafnvel í skólann með hótanir eða senda börnin með hótanir fyrir sína hönd. Í þeim samkiptum kristallast áveðið virðingarleysi og í raun höömluleysi sem getur oft verið erfitt að eiga við af reisn.
Mér finnst aðal vandinn ekki felast í því að nemendur séu með síma og því finnst mér lausnin ekki felast í því að banna þeim að vera með síma í skólanum. Að mínu mati felst vandinn í því að nemendur skuli finna hjá sér þörf til að nota tækið til að niðurlægja kennarana sína. Vert er að benda á að einelti með snjalltækjum beinist líka að jafnöldrum nemenda svo vandinn er ekki einangraður við kennara eða kennslustundir og því leysir það aðeins þann hluta vandans sem beinist að kennurum, að banna síma í skólum.
Það er staðreynd í dag að stór hluti nemenda á síma og margir þeirra síma hafa myndavél og eru tengdir beint við netið svo þeir auðvelda börnum sem þannig eru innrætt að dreifa skítkasti um náungann víða. Bæði heimili og skólar þurfa að taka þátt í því að kenna umgegnisreglur um þessi öflugu tæki og ala börn upp í að nota þau á uppbyggilegan hátt. Ábyrgð, virðing og tillitsemi gagnvart náunganum á jafnt við þegar þessi tæki eiga í hlut og í öðrum samskiptum fólks. Með því að velja auðveldustu leiðina og skapa jafnvel togstreitu með boðum og bönnum missum við fullorðna fólkið tækifæri til að hafa áhrif á hvernig börn umgangast þessi tæki og börnin búa sér til sínar eigin umgengnisreglur sem geta eins og dæmin sanna verið grimmar og niðurlægjandi .
Það felst menntandi tækifæri í því að kennarar, foreldrar og nemendur vinni saman að því að setja sér vinnureglur varðandi símanotkun nemenda. Stundum getur verið eðlilegt að nemendur noti síma í kennslustundum t.d. til að leita sér upplýsinga eða til að glósa í , en stundum eiga þeir að vera heima eða ofan í skólatösku. Það er áhyggjuefni ef virðing nemenda og foreldra fyrir kennurum er svo þverrandi að það er ekki hægt að vinna sameiginlega að því að nota þessi tæki á uppbyggilegan hátt, það er einnig áhyggjuefni ef foreldrar treysta sér ekki til að setja börnum sínum mörk varðandi símanotkun og umgengni við þá og síðast en ekki síst er það áhyggjuefni ef kennarar og foreldrar geta ekki lagt saman krafta sína til að kenna nemendum að lifa í sítengdum heimi. Ef þessir aðilar bregðast eru börnin sjálfala í því tómrúmi sem skapast þegar þeir fullorðnu axla ekki ábyrgð sína sem fyrirmyndir og uppalendur.
Nemendur þurfa uppeldi og kennslu í því taka ábyrgð og hegða sér af kurteisi á netinu eins og annarsstaðar. Það þarf að efla dómgreind nemenda og eftir því sem hópurinn með sterkar innri bremsur og góða dómgreind stækkar fær hópurinn sem ekki býr yfir dómgreind og þekkir ekki mörk minna rými. Að mínu mati þarf að vinna á þeim nótum, sætta sig við að tækin eru komin til að vera og vinna ötullega að því að notkun þeirra sé ekki meiðandi.
Þetta er samfélagslegt verkefni sem ekki dugar að setja í hendur kennara einna. Virðingar- og tillitsleysi nemenda endurspeglar aðeins það samfélag sem þeir búa í svo við þurfum öll að líta í eigin barm að mínu mati. Það er ekki alltaf farsælast að fara auðveldustu leiðina.
Hér eru nokkrar hugmyndir um hvernig GSM símar geta nýst í kennslu.
EK
Flott grein. Mér þætti í lagi að segja við þá, endilega verið með síma, kannski þarf einhver að ná í ykkur. Ég er líka með símann minn á mér ef mig langar að taka mynd af ykkur þegar þið eruð að gera eitthvað sem mér finnst þess virði að deila á facebook hóp starfsmanna skólans…snúum vörn í sókn