Kennarar og foreldrar á krossgötum

skrifSkólinn hefur ekki farið varhluta af áhrifum neytendasamfélagsins eins og oft má sjá í væntingum og viðhorfi  foreldra til skólans. Margir foreldrar hafa tileinkað sér hlutverk nýja neytandans sem er sjálfstæður og vel upplýstur einstaklingshyggjumaður sem vill eiga hlutdeild í þeim málum sem hann varða og hefur tilhneigingu til að velja vöru og þjónustu sem er persónuleg og á einhvern hátt sérstök eða frábrugðin hinni almennu  (Lewis og Bridger 2001). Eins og fram kom í rannsókn sem Börkur Hansen o.fl. gerðu hér á landi 2004, fjölgar þeim foreldrum sem koma til skólans í [hlutverki neytenda], þeir eru almennt meðvitaðir um rétt sinn og láta í sér heyra ef þeir eru ósáttir.  Mér þykir ólíklegt að þetta hafi breyst mikið síðasta áratuginn, nema hugsanlega þannig að kröfuhörðum og gagnrýnum foreldrum hafi fjölgað. Frá nágrannalöndum okkar berast  a.m.k. þær fréttir að æ fleiri lögfræðingar séu ráðnir að skólaskrifstofum til að takast á við fjölgun mála sem varða kröfur og kvartanir foreldra.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp núna er að ég frétti nýlega af skólum í Bandaríkjunum þar sem foreldrar fá að velja umsjónarkennara fyrir börn sín. Kannski  verður það að teljast fullkomlega eðlileg þróun út frá sjónarhorni nýja neytandans. Því skyldu foreldrar ekki alveg eins hafa val um kennara barna sinna eins og lækni eða hárskera?  Vinsælustu kennararnir eru þannig í aðstöðu til að velja úr umsækjendum og hinir sitja þá væntanlega uppi með börn áhugalausu og/eða áhrifalausu foreldranna (það er ekki tilviljun að ég nota hér hugtakið vinsælustu kennararnir en ekki bestu kennararnir). Er það þangað sem við stefnum og yrði það nemendum til góðs?

Neytandasamfélagið og kröf­ur um árangur setja aukinn þrýsting á kennara og hafa að vissu leyti sett þá  í nýja stöðu gagnvart foreldrum. Þetta er umhugsun­ar­vert, ekki síst í ljósi þess að hingað til hefur almennt verið litið svo á að það væru kenn­ararnir sem leggðu línurnar og gerðu kröfur til foreldranna en ekki öfugt. Norsku fræðimennirnir Ericsson og Larsen (2000) tala um foreldra og kennara sem danspar þar sem enginn vafi leiki á því að kennarinn sé dansherrann. Svo virðist sem foreldrar hafi verið í hlutverki áhrifalausu aðstoðarmanna hins betur vitandi sérfræðingsins. Landi þeirra Berit Aanderaa (1996) varaði á sínum tíma við því að sérfræðingarnir í skólanum drægju úr trú foreldra á eigið mikilvægi, en að hennar mati er börnum ekkert nauðsynlegra en foreldrar sem eru meðvitaðir um mikilvægi sitt. Þrátt fyrir að skólinn sé óneitanlega þýðingarmikill þáttur í samfélaginu, segir Aanderaa, hefur honum aldrei verið ætlað það hlutverk að koma í stað heimilisins eða foreldranna, enda getur hann það ekki.  Með því að taka að sér hlutverk hins betur vitandi sérfræðings hafa kennarar að vissu marki tekið ábyrgð af foreldrum, ábyrgð sem þeim hefur aldrei verið ætluð og skilar ekki tilætluðum árangri heldur jafnvel þvert á móti. Á sama tíma virðist sem valdið sé a.m.k. að einhverju leyti að færast frá þeim og til foreldranna.  Sem er umhugsunarvert.

Með tilli til þess að enginn einn einstakur þáttur er talinn hafa eins mikil áhrif á námsárangur og líðan nemenda í skólanum og áhugi og stuðningur foreldra (Desforges og Abouchair, 2004) verður að líta á foreldra sem mikilvæga þátttakendur í námi barna sinna. Því er nauðsynlegt að skólinn finni leiðir til að skapa forsendur fyrir góðu samstarfi. Kennarar eru sannarlega sérfræðingar í nám og kennslu og eiga að nýta þá þekkingu til að upplýsa foreldra, vekja áhuga þeirra og finna leiðir til að gefa þeim hlutdeild og þar með ábyrgð á námi barna sinna á forsendum hverrar fjölskyldu. Til þess að það geti orðið þurfa kennarar að öðlast trú á að framgangur skólastarfs og ekki síst þeirra eigin stéttar hafi hag af samstarfinu við foreldra. Að öðrum kosti er óvíst hvert við stefnum.

NKC

Heimildir:

Aanderaa, B. 1996. Barnehage-og småskoleutvikling – for familiens skyld. Sammen med familien. Arbeid i partnerskap med barn og familier (ritstj. M. Sandbæk, og G. Tveiten), bls. 213–227. Oslo, Kommuneforlaget AS.

Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannsson og Steinunn Helga Lárusdóttir. 2004. Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaga. Valddreifing eða miðstýring? Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Vefslóð: http://netla.khi.is .

Desforges, C og A. Abouchaar. 2003. The impact of parental involvement, parental support and family education on pupil acchoevement and adjustment:  A literature Review (Research Report RR 433). Department for education and skills.

Ericsson, K. og G. Larsen. 2000. Skolebarn og skoleforeldre. Om forholdet mellom hjem og skole. Oslo, Pax Forlag a/s.

Lewis, D. og D. Bridger. 2001. The soul of the new consumer. London, Nicholas Brealey Publishing.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s