Yfirskrift þessa pistils er fengin úr grein sem birtist í The Sunday Times. Þar fjallar Steve Hilton um mikilvægi allra foreldra í velferð barna sinn. Í umfjöllun sinni vísar hann einkum til barna sem alast upp við erfiðar félagslegar aðstæður og hvetur bresk stjórnvöld til að stuðla að því að þessi hópur foreldra fái fræðslu meðan börn þeirra eru enn ung og áður en skólagangan hefst. Ábending hans minnir á orð Desforges sem hann lét falla á fundi Heimilis og skóla og SAMFOK fyrir fáeinum árum: Það skiptir ekki máli hver þú ert sem foreldri, heldur hvað þú gerir.
Nú þegar nýtt skólaár fer í hönd er ástæða til á að minna á þá mikilvægu staðreynd að foreldrar hafa veruleg áhrif á námsárangur barna sinna og líðan þeirra í skólanum eins og fram kemur í samantekt sem Wendy Berliner gerði fyrir The Guardian: The importance of parental engagement in learning
Þar er vísað í orð virtra fræðimanna á þess sviði. Hér eru nokkrar tilvitnanir sem undirstrika mikilvægi foreldra í skólastarfinu:
Hlutdeild foreldra í námi barna sinna svarar til þess að tveimur til þremur árum sé aukið við menntun barnanna (Hattie).
Ef foreldrar vilja gefa börnum sínum gjöf þá er besta gjöfin sú að kenna þeim að takast á við áskoranir, eflast af mistökum, að njóta þess að leggja sig fram og halda áfram að læra. Þetta mun veita börnunum færni til að byggja upp og viðhalda sjálfstrausti sem endist þeim alla ævi (Dweck).
Áhrif foreldra á nám sjö ára barna er sex sinnum meiri en áhrif skólans. Þegar börnin eru ellefu til tólf ára eru áhrif foreldra 30% meiri en skólans. Þegar börnin eldast og þroskast, eða upp úr tólf ára aldri, eru það börnin sjálf sem hafa mest áhrif á námsárangur sinn. Það er ekki á neinu tímabili sem skólinn er helsti áhrifavaldurinn (Desforges).
Áætlun Epstein sýndi að áhrifin voru mest þegar hlutdeild foreldra var að fullu samofin skólaþróuninni og þegar sérstök teymi kennara og fulltrúa greindarsamfélagsins voru gerð ábyrgð fyrir framkvæmdinni (Kreider).
Foreldrar eru týndi hlekkurinn í menntun barna, án þeirra næst ekki sami árangur og með þeim. Því ætti það að vera kappsmál kennurum og öðrum sérfræðingum í skólamálum að finna leiðir til að auka hlutdeild foreldra í námi barna sinna enda gera lög um grunnskóla nr. 91/2008 ráð fyrir því að foreldrar beri ábyrgð á námi barna sinna í samstarfi við þau og kennara. Keflið er hjá kennurum og Berliner gefur þeim fimm ráð til að efla foreldra:
- Gefið ykkur tíma til að kenna foreldrum nemenda ykkar.
- Leitið leiða til að fá foreldrana inn í skólastofuna.
- Ekki reikna með því að allir foreldra séu komnir með, haldið áfram að reyna að ná til allra.
- Nýtið reynslu foreldra og þekkingu.
- Veitið foreldrum góð ráð um hvernig má stuðla að jákvæðri hugsun og venjum heima.
Um leið og Krítin óskar nemendum, kennurum og foreldrum árangursríks skólaárs bendum við á FORELDRAVEFINN þar sem finna má hagnýt ráð fyrir skólaforeldra m.a. um hvernig styðja má við nám barna í lestri og stærðfræði.
NKC