Vald

fjolmeningÉg lít upp til kennara og tel að þeir gegni mjög ábyrgðamiklu starfi sem hverju samfélagi er nauðsynlegt.  En ég hef áhyggjur af stöðu stéttarinnar og finnst visst valdaleysi einkenna hana. Ég þekki marga sterka kennara en þegar ég hugsa um kennarastéttina sem hóp finnst mér hún  yfirleitt hafa frekar hjáróma rödd sem fáir líta á sem sterkt samfélagslegt áhrifavald. Kennarar eru töluverðir áhrifavaldar í lífi  barna og flestir þeirra  leggja sig fram í starfi svo að menntun barna verði eins góð og hægt er.

En ég  tel hættu á því að kennarar eftirláti öðrum of mikið að segja sér fyrir verkum og þeir eigi því á hættu að missa völdin yfir þekkingunni á því fagi sem störf þeirra byggjast á. Mér finnst ég sjá vísbendingar um þetta víða og í minni meistaraprófsritgerð komst ég að því að þessi togstreita eða valdabarátta hefur staðið yfir lengi. Það hafa lengi verið til sérfræðingar sem vilja segja kennurum fyrir verkum og virðast þeir á stundum jafnvel ekki treysta fagþekkingu kennara. Ég óttast að kennarar skynji þetta en skilji ekki og viðbrögð þeirra sem hóps eða stéttar dragi úr líkum á því að þeir  nái yfirráðum yfir eigin fagi eða verði treyst til  þess að vera þar við stjórnvölinn. Þar liggja mínar áhyggjur fyrir hönd stéttar minnar.

Þegar ég tala um fag kennara á ég ekki við þekkingu kennara í námsgreinum, heldur er ég að vísa til fræðilegra hugmynda um nám, kennslu og bekkjarstjórnun svo dæmi sé tekið. Ég tel að til að ná tökum á listinni að kenna, dugi ekki þekking kennara á þeirri námsgrein sem kennd er, ein og sér. Að mínu mati þurfa kennarar að vita hvaða hugmyndafræði þeir aðhyllast í námi og kennslu, geta rökstutt þær skoðanir sínar og valið sér kennsluaðferðir miðað við þær skoðanir. Ég tel einnig að kennarar þurfi að vera meðvitaðir um þau áhrif sem athafnir þeirra og orðfæri hafa á nemendur og þekkja til fræða þar að lútandi.

Ég tel verulega hættu á því að kennarar breytist í hugsunarlaus millistykki milli sérfræðinga og nemenda ef þeir  taka umhugsunarlaust  við nákvæmum leiðbeiningum frá sérfræðingum sem telja sig vita betur. Sú leið sem kennarar  hafa til að styrkja sig í starfi er í mínum huga fyrst og fremst að efla sjálfa sig í starfi með markvissri starfsþróun. Sú starfsþróun þarf að snúa bæði að þeim námsgreinum sem þeim er ætlað að kenna og einnig að kennslufræðilegri þekkingu. Kennarar þurfa að standa á sterkum þekkingargrunni  til að öðlast þá rödd og það vald sem ég tel að þeim beri.  Þekkingargrunn sinn byrja kennarar  að byggja með því að ná sér í starfsréttindi í sinni grunnmentun, en það er nauðsynlegt fyrir kennara, ef þeir vilja flokkast sem sérfræðingar að viðhalda, bæta við og öðlast nýja þekkingu og færni á sínu fagi í veröld sem er stöðugt að breytast.

Mig grunar að sumir telji óþarft að kennarar efli vald sitt yfir þekkingunni á fagi sínu, nema hugsanlega á námsgreinum, og telji að því valdi sé jafnvel best komið fyrir annars staðar. Það sem er þó enn verra að mínu mati, er að mér virðist sem trú margra á að kennurum sé treystandi fyrir þessu valdi sé lítil sem engin. Hvað með kennara sjálfa? Ég spyr mig stundum að því hvort það geti verið að þeir kæri sig ekki um þetta vald og þá ábyrgð sem því fylgir. Er mögulegt að þeir vilji helst láta aðra segja sér hvernig best sé að kenna?

Ég tel að markvissar rannsóknir kennara  á eigin störfum geti  styrkt þá sem fagmenn og að með starfsþróun sem felst í því að byggja upp eigin þekkingarbanka með ígrundun og samræðu við kollega og aðra sérfræðinga um fagið sitt verði stéttin sterkari og áhrifameiri fagstétt.  Í  síkvikri veröld er nauðsynlegt að skoða eigin starfshætti markvisst og velta fyrir sér á gagnrýnin en uppbyggilegan hátt tilgangi og markmiðum sem vinna manns byggir á. Þannig lærdómssamfélag kennara dreymir mig um að byggja upp.

Sjá betri rökstuðning.

EK

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s