Foreldrar í afneitun

glosÍ vikunni tók ég þátt í áhugaverðum umræðum kennara sem ræddu um samstarf við foreldra. Nokkrir kennaranna höfðu sérstakar áhyggjur af foreldrum sem væri í afneitun vegna barna sinna. Þetta væru foreldrar sem ekki fengjust til að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir og það hindraði allar umræður, ákvarðanir og samstarf. Þá steig fram kona sem lýsti reynslu sinni af því að vera móðir fatlaðs barns sem áður var í grunnskóla og ég held að frásögn hennar hafi haft mikil áhrif á viðhorf allra sem voru á staðnum. Ég er viss um að þessir kennarar munu hugsa sig vandlega um áður en þeir nota aftur hugtakið foreldrar í afneitun.

Í stuttu máli var reynsla þessarar móður sú að skólinn og sérfræðingarnir sem tengdust skólanum einblíndu stöðugt á fötlun barns hennar. Allir fundir (og þeir voru margir) snerust um það sem barnið gæti ekki gert og allar þær hindranir sem barnið rækist á. Jafnvel þegar barnið var í  1. bekk var farið að ræða þann vanda sem fylgja myndu handavinnunámi barnsins í 4. bekk. Á þessum fundum var mönnum jafnframt tíðrætt um fjármál og þann kostnað sem fötlun barnsins hefði í för með sér fyrir skólann. Með öðrum orðum þá sá skólinn hálf-tómt og dýrt glas þegar það horfði á barnið. Heimafyrir var sýnin önnur, fjölskyldan lagði áherslu á að fatlaða barnið tæki þátt í öllu með fjölskyldunni, það fór með í skíðaferðir, útilegur, sund, veislur o.fl. líkt og hinir. Þau fögnuðu styrkleikum barnsins, sem eru margir, og stuðluðu að eflingu þess. Þau sáu með öðrum orðum hálf-fullt glas. Vegna þessarra viðhorfa  var foreldrunum oft bent á að þau væru í afneitun, að þau neituðu að horfast í augu við það vandamál sem barnið þeirra væri. Fólkið í skólanum var stutt allskyns greiningum sem studdu viðhorf þeirra um að barnið skorti allt mögulegt og með greiningarnar að vopni var barnið tekið afsíðis og látið vinna eitt með stuðningsfulltrúa í stað þess að vera með félögum sínum, það er að segja þar til móðirin mótmælti. Í hennar huga voru félagsleg tengsl barns hennar og lífsgleði meira virði en þjálfun fínhreyfinga.

Sjálfsagt hefur mörgum fundist þessir foreldrar erfiðir vegna þess að þeir höfðu önnur viðhorf til barnsins síns en sérfræðingarnir. Það fór að sjálfsögðu ekki framhjá þeim að barnið þeirra væri fatlað, en í þeirra huga var barnið bara svo miklu, miklu meira.

Fræðimenn sem fjallað hafa um samstarf kennara og foreldra hafa bent á að stundum verði valdabarátta fótakefli í samstarfinu (Hargreaves, 1999; Lasky, 2000; Nordahl, 2007 o.fl.). Kennarinn/skólinn líti oft þannig á að hann hafi vald til að skilgreina vanda barnsins og úrræði og foreldrar sem ekki samþykkja þetta vald verði til vandræða.

Það eru auðvitað engir tveir foreldrar eins og þess vegna ekki hægt að gefa út einhverja ríkisleið í samstarfinu við foreldra, en lærdómurinn sem draga má af þessari frásögn er sá að kennarar og aðrir sérfræðingar í uppeldis og menntamálum þurfa að hlusta á foreldra og heyra það sem þeir eru að segja. Það eru fyrst og fremst þeir sem bera ábyrgð á velferð barna sinna og okkar hinna að styðja foreldrana í því verkefni, jafnvel þó það þýði að við þurfum að endurskoða hugmyndir okkar.  Vissulega þarf það að vera innan skynsamlegra marka og lagaramma og ef sú staða kemur upp að við álítum að viðhorf foreldranna geti valdið barninu þeirra skaða þá þarf að finna úrlausnir til að tryggi hagsmuni barnsins.

Ég get ekki látið staðar numið án þess að taka það fram að fatlaða barnið, sem hér hefur verið til umfjöllunar, er ekki lengur barn, heldur fullorðinn, lífsglaður og sterkur einstaklingur sem stundar háskólanám með góðum árangri. Það var reyndar fyrst þegar í háskóla var komið sem hætt var að líta á fötlunina sem hindrun.

NKC

Heimildir

Hargreaves, A. (1999). Professionals and parents: Social movement for educational change. Skoðað í maí 2003 á Kisnet: http:/www.keele.ac.uk/depts/ed/kisnet/interviews/hargreaves.htm

Lasky, S. (2000). The cultural and emotional politics of teacher-parent interactions.Teaching and teacher education, 16 (843-860). Skoðað í maí 2003 á vef Elsevier:www.elsevier.com/locate/tate

Nordahl, T. (2007). Hjem og skole, Hvordan skape et bedre samarbeid? Osló: Universitetsforlaget

11 athugasemdir við “Foreldrar í afneitun

 1. Frábær grein Nanna. Ég finn þó að hugarfarið gagnvart fjölbreytninni er að breytast og kennarar eru oft að lyfta grettistaki við erfiðar aðstæður. Við þekkjum hins vegar öll umræður þegar foreldrar og skólinn hafa ólíka sýn á barnið enda er sjónarhornið ólíkt og við með ofgnótt af samanburði milli barna. Stundum erum við með hálftómt glasið en stundum þurfa foreldrar líka góðan tíma til að átta sig á hlutum og við þurfum að gefa þeim tíma til þess. Frábært að fitja upp á þessu.

 2. Mikið til í þessu og oft spurning hver hamlar hvern. Gruna að við „hinir“ séum til meiri vandræða en þeir sem skilgreindir eru sem fatlaðir. Sammála þér Jón Páll að boltinn getur líka legið hjá okkur foreldrunum með framvindu og þróun. Ætli það séu ekki þrjár hliðar á málinu: hlið samfélagsins, hlið foreldrana og að lokum hlið barnsins og vísa ég mér m.a. til stuðnings skóla án aðgreiningar sem því miður virkar ekki sem skyldi.

 3. Takk Nanna! Fyrir þessa frábæru grein og að fylgja þessu eftir. Þetta er mikilvægt mál og snýst jú fyrst og fremst um viðhorf, virðingu og vilja.

 4. Takk fyrir! Það er mikið verið að greina, sem betur fer oftast til að skilja og skapa sameiginlegan skilning á hví eitthvað er að hindra ákveðinn þroskahraða, hins vegar mega sjóngler okkar ekki beinast að skortinum , fötluninni eða vel virkninni á neikvæðan hátt. Ég hef nú alltaf talið að veikleikar okkar séu styrkleikar og styrkleikar veikleikar allt eftir samhengi, stað og stund. En eins og segir hér að ofan, allt snýst þetta um viðhorf til manneskjunnar.

 5. Viðhorf, vilji og áhugi til að læra af þeim sem þekkja oft mun betur til aðstæðna en kennarar sem hafa sérþekkinguna. Það má virkja þetta svo vel saman barninu í hag. Skóli án aðgreiningar er ekki að virka sem skyldi m.a. vegna þess hvernig skorðum honum eru settar, tími peningar ofl en ekki vegna þess að hugmyndin er slæm.

 6. Bakvísun: Foreldrar í afneitun·

 7. Frábær grein sem allir ættu að lesa!
  Verandi foreldri barns með sérþarfir í skólanum finnst mér sorglega mikið horft á neikvæða þáttinn, alltof sjaldan sem við foreldrarnir fáum að heyra hvað vel gangi hjá barninu. Ekki er það sérlega gott veganest fyrir foreldrana og barnið?!
  „Everybody is a genius. But if you judge a fish by its ability to climb a tree, it will live its whole life believing that it is stupid.”

 8. Takk fyrir þessa grein, Nanna, því hún kallar sannarlega á ígrundun á eigin viðhorfum og sýn á aðkomu þeirra sem koma að uppeldi annarra manna barna. Virðing og umhyggja virðast lykilhugtökin hér og samlíkingin við glösin hálffullu eða hálftómu á vel við.

 9. Flott grein um mikilvægt málefni. Við sem foreldrar erum sérfræðingar í okkar börnum. Því miður er skólakerfinu samt sett þau mörk að peningar og aðstaða verður oft að aðalatriði, ekki hvað síst á tímum samdráttar eins og núna. En ég er líka sammála Jóni Páli hér á undan að það eru vissulega kennarar og jafnvel stöku skólastofnanir sem eru að lyfta grettistaki í þessum efnum. Það er hins vegar þannig að breytingar á viðhorfum í skólasamfélaginu þarf líka að verða í foreldrasamfélaginu þannig að báðir aðilar séu í takt. Það sem ég á við er að það er ekki nóg að annað hvort foreldri eða kennari breyti rétt gagnvart einstaklingnum og horfi á jákvæðu eiginleikana því að það eru alltaf fleiri sem koma að vinnunni með viðkomandi barn. Það virðist því alltaf þurfa að taka lítil skref sem stækka og stækka.

 10. Bakvísun: Vinsælustu póstarnir 2013 | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s