Meðaljóna

menntakvikaÞað sköpuðust áhugaverðar umræður á Fésbókinni og víðar í kjölfar pistils sem ég skrifaði í Krítina  um daginn,  þar sem ég velti því fyrir mér hvort skólinn stuðlaði í of ríkum mæli að meðalmennsku kennara og nemenda. Það kom mér satt að segja á óvart hversu margir hafa tekið undir þessar vangaveltur og nefnt dæmi máli sínu til stuðnings. Einn kennari sagði m.a. frá því að henni hefði verið bent á að með starfi sínu varpaði hún rýrð á samkennara sína, sem ekki væru tilbúnir til að leggja jafn mikið á sig og hún.  Af umræðunni má draga þá ályktun að í einhverjum skólum a.m.k. ríki þegjandi samkomulag um að enginn kennari skuli með starfi sínu stuðla að því að öðrum kennurum finnist þeir ekki vinna nægilega vel. Ósjaldan er vísað í kjarasamninga og samstöðu til að halda aftur af „ofurkennurum“ en líka eru dæmi um að eldri og reyndari kennarar bendi góðlátlega á að þetta hafi nú allt verið reynt áður og ekki skilað miklum árangri.  Jafnvel þó svona Meðaljónu einkenni ríki ekki allsstaðar  vekur það margar spurningar. Þekkist það einnig meðal annarra starfsstétta? Er hugsanlegt að þetta sé frekar bundið við dæmigerðar kvennastéttir en karlastéttir? Hvað veldur þessu og síðast en ekki síst hvaða áhrif hefur þetta á skólastarfið í heild sinni?

Ég spurði vinkonu mína sem er hjúkrunarfræðingur hvort hún kannaðist við Meðaljónu vandann í sinni stétt og hún hélt nú það. Það er ekki alltaf vel séð, sagði hún, að kona sem er hjúkrunarfræðingur haldi að hún sé eitthvað betri en samstarfskonur hennar. Það virðist aftur á móti sjálfgefið að karlar í stéttinni ætli sér framgang og almennt reyna hvorki kynbræður þeirra né samstarfskonur að hindra þá á þeirri braut eða draga hæfni þeirra í efa. Þessi óformlega könnun mín bendir með öðrum orðum til þess  að Meðaljónan sé kvennavandi fremur en vandi kennara. Ég ætla mér ekki þann dug að fara nánar út í þá sálma en er að vissu leyti létt. Einhverjir munu væntanlega hugsa til aldalangrar hefðar fyrir samkeppni karla meðan konur hafa a.m.k. á yfirborðinu verið jafnar en þegið þjóðfélagsstöðu sína af feðrum sínum og eiginmönnum og það getur verið erfitt að breyta jafn rótgrónum hefðum.

Ef raunverulega er reynt að halda aftur af áhugasömum eldhugum í kennarastéttinni hlýtur það að vera umhugsunarefni. Eigum við ekki að fagna slíkum kennurum, hvetja þá og styðja ekki síður en hina? Eða er eitthvað að óttast, gæti viðurkenning á góðum kennurum t.d. stuðlað að neikvæðri samkeppni milli kennara og í framhaldi af því samkeppni nemenda? Er kannski best að halda sem fastast í Meðaljónuna?

NKC

3 athugasemdir við “Meðaljóna

  1. Góð hugleiðing! Ég held fast í þá trú að flestir kennarar hefji störf fullir af metnaði og von um að þeir geti haft jákvæð áhrif í sínum skóla. Þeir leggja líf og sál í starfið þar til þeir komast að því hversu vanmetið það í rauninni er. Álagið sem fylgir því að leggja allt sitt í kennarastarfið er hreinlega ekki launanna virði. Að auki er lítil samfélagsleg hvatning fyrir kennara að gera meira en þeir þurfa og ef til vill er það eitthvað sem vantar því eina gulrótin í kennarastarfinu er að eldast því þá hækka launin. Samkeppni á meðal kennara gæti líka verið af hinu góða og virkað sem hvatning þó fæstir hafa áhuga á keppni ef verðlaunin eru engin. Sá sem vinnur mest fær sömu laun og sá sem vinnur minnst … í peningum alla vega 🙂

  2. „Einn kennari sagði m.a. frá því að henni hefði verið bent á að með starfi sínu varpaði hún rýrð á samkennara sína, sem ekki væru tilbúnir til að leggja jafn mikið á sig og hún“ Nákvæmlega það sama kom fram í nýja danska kennaraþættinum, „Rita“ á Stöð 2. En þar er það karl sem skýtur þessu skoti á konu. Ég held ekki að þetta sé kynbundið.

  3. Góður punktur. Ég hef ekki greint kynjamun á þessu en ætla að velta því fyrir mér. Vil síðan enn tjá mig um upphaflega erindið: Ég vinn með frábærum kennurum sem vinna þrotlaust starf fyrir nemendur. Foreldrar senda mér endalausar þakkir sem ég miðla jafn óðum til viðkomandi kennara, fyrir utan það sem kennarar fá beint til sín. Ég er viss um að þetta er ekki einsdæmi og það er ekki það sem ég meina. Það sem vekur athygli mína er að þrátt fyrir hægfara viðhorfsbreytingu kennurum í hag er ennþá sprellifandi meðal almennings og ráðamanna sú ímynd kennarans að hann geri helst ekkert auka viðvik. Þetta er því miður orðin staðalmynd kennarans 😉 Allt sem dregur fagmennskuna fram í dagsljósið er af hinu góða. Góðir kennarar þurfa að vera óhræddir við að „koma út úr skápnum“ með þá góðu hluti sem þeir eru að gera og af þeim sökum bíð ég spenntur eftir kennara mánaðarins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s