Að finnast lífið vera ævintýri

Eftir stúdentspróf ákvað ég að fara að vinna á leikskóla. Ég var heppinn með vinnustað því þar var mér treyst til að taka þátt í metnaðarfullu og faglegu starfi á deildinni minni. Ég beið með óþreyju hvers deildarfundar þar sem skoðanir mínar voru virtar en vænst þótti mér um að fá minn eigin hóp til að vinna með. Hópurinn samanstóð af nokkrum 4 ára einstaklingum. Eitt af því sem ég tók mér fyrir hendur var að fara með hópinn í skipulagða vettvangsferð í hverri viku. Við tókum með okkur farangur svo sem stækkunargler, vatnsbrúsa og stundum rúsínupoka. Ferðin var skipulögð af mér um nærumhverfi leikskólans. Með þessum börnum lærði ég í fyrsta skipti á mínum ferli eitthvað nýtt. Ég uppgötvaði að kennsla er alltaf gagnkvæm. Ég lærði kennslufræði.

Að vinna með börnum getur verið svo óskaplega gefandi. Eftir hverja vettvangsferð settist hópurinn saman og við ræddum um hver upplifun okkar hafði verið. Hversu vel sem ég skipulagði þessar vettvangsferðir þá kom í ljós að ég hafði lítil sem engin áhrif á það hvað börnin fengu út úr ferðinni. Ég komst að því að það skipti litlu máli hver áfangastaðurinn var, það var leiðin að honum sem var ævintýrið. Ævintýrin voru persónuleg.

Það sem reyndist standa upp úr ferðunum voru atvik sem mér þóttu venjulega ekkert sérlega tilkomumikil. Kannski var það fyrsti fífillinn sem óx við girðingarstaur eða ný brum á runna. Kannski var það steypubíllinn sem vann að fræmkvæmdum eða lögreglubíllinn sem keyrði fram hjá með brosandi lögregluþjóni sem vinkaði til okkar.

Það tók mig ekki margar vikur að uppgötva að áfangastaðurinn skipti minna máli en ferðalagið að honum. Litlu hlutirnir í kringum okkur eru þeir sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Fullorðið fólk, kennarar,  geta virst vera steinrunnin tröll úr fortíðinni því það er ekkert sem kemur okkur á óvart lengur. Við vitum ávallt betur. Með öðrum orðum þá finnst okkur hutirnir ekkert vera spennandi lengur.

Ég vann á leikskólanum í tvö ár og kvaddi með kökk í hálsi. Ég fór ekki beint í grunnskólakennarafræði. Fyrst fór ég í sálfræði (fyrir alla þroskasálfræðina) og seinna bætti ég stjórnmálafræði við sem aukagrein. Það tók mig tvö ár að uppgötva að ég væri ekki á réttri leið í lífinu. Ég uppgötvaði að ég stefndi á áfangastað í stað þess að njóta ferðalagsins. Ég lagðist undir feld og þurfti að taka afstöðu til ákveðinna spurninga.

Var ég tilbúinn að ganga inn í stétt sem stöðugt þarf að berjast fyrir sanngjörnum launum? Móðir mín er góður kennari en þrisvar sinnum hef ég horft á hana þurfa að beita verkfallsrétti sínum. Er það eðlilegt?

Hvernig ætlaði ég að eldast í starfi og komast hjá stöðnun? Hvað er það sem ég get boðið upp á?

Allt það sem fór í gegnum huga mér á þessum tíma uppgötvaði ég að væru fordómar. Áskapaður hugsunarháttur samfélagsins. Hversu margir stúdentar ætli velti því fyrir sér hvernig maður eigi nú eftir að eldast í starfi? Það er fáránleg pæling. Laun kennara eru allt að því svívirðileg miðað við ábyrgð og traust samfélagsins á getu þeirra til að fá börnum framtíðarinnar hæfni í hendur til að takast á  við lífið. Hversu margir hæfir stúdentar ætli fari í annað nám en kennaranám vegna launa? Hversu há tala er ásættanleg? Hvað er ásættanlegur kennari? En nóg um það.

Á endanum fór ég í grunnskólakennaranám því mér fannst stéttin skipta máli og ég hafði líklega smá trú á að ég gæti staðið undir ábyrgðinni. Ég útskrifaðist frá H.Í. með B.Ed. gráðu síðastliðið vor og hef senn meistaranám. Ég hef ekki tölu á því hversu oft mér varð hugsað til litlu vina minna á leikskólanum sem kenndu mér að ævintýrið verður ekki skipulagt. Það er á ábyrgð hvers og eins að finnast lífið vera forvitnilegt, áhugavert, spennandi. Ævintýri.

Það er skylda kennara að fóstra litla barnið í sjálfum sér. Það er spennandi að skilja hluti en það er alltaf eitthvað ævintýri sem börnin, nemendurnir, leiða okkur inn í. Foreldrar, kennarar og nemendur, saman, skrifa framtíðina.

Þorleifur Örn Gunnarsson

22 athugasemdir við “Að finnast lífið vera ævintýri

  1. Fallega skrifað og segir heilmikið um þig sjálfan. Takk fyrir pistilinn og gangi þér allt í haginn .
    Mikið eiga komandi nemendur þínir skemmtilega ferð fyrir höndum.

  2. Við íslendingar eigum sem betur fer efnilegt og vel hugsandi fólk eins og þennan unga mann.Megi honum ganga allt í haginn í lífinu.

  3. …….Með eða án háskólagráðu- þá held ég þú sért á réttum stað. Málið er einmitt að virða krakkana, og hafa gaman af þessu starfi. Þá blessast allt.

  4. Takk fyrir þetta Þorleifur – er ein af þeim sem fylgdi hjartanu og fór í KHÍ á sínum tíma. Er ánægð með þá ákvörðun og hvet nemendur mína í dag til að fylgja hjartanu þega ákvörðun er tekin um framtíðina.

  5. Frábær grein hjá þér … svipaðar hugsanir hjá mér þegar ég var að gera upp við mig hvort að ég ætti að fara í KHÍ. Takk fyrir skemmtilega og vekjandi lesningu.

  6. Ég þakka kærlega fyrir falleg orð í minn garð og verð að viðurkenna að þessi miklu og góðu viðbrögð við pistlinum komu mér skemmtilega á óvart.

    Ég hef komið víða við á stuttum ferli. Vann á leikskólanum í tvö ár. Hef unnið á og séð um leikjanámskeið fyrir börn á yngsta- og miðstigi grunnskóla í samtals sex sumur. Meðfram námi hef ég svo unnið í tvö ár að faglegu starfi í félagsmiðstöð.
    Ég ákvað að verða faggreinakennari á unglingastigi. Það skemmtilegt að vinna á öllum þessum stöðum þó kennslan sé ólík.

    Ég skil vel að sú spurning vakni við lestur þessa pistilsum hver ástæðan sé fyrir því að ég hafi ekki farið í leikskólakennarafræði. Það eru töfrar sem umlykja hvert aldursstig. Mér þykir afar gaman og spennandi að vinna með unglingum. Ætli ég neyðist þó ekki að viðurkenna að þröskuldur að leikskólakennaranámi sé töluvert hærri fyrir karlmenn að yfirstíga en sá sem leiðir að grunnskólanum.

    Sú reynsla sem ég hef upplifað í starfi með öðrum aldurshópum hefur gefið mér mikið. Ég byrjaði hinsvegar á leikskólanum eins og börnin og þar hófst þetta nýja ferðalag mitt.

  7. Flott grein hjá þér Þorleifur. Gangi þér allt í haginn.
    Kær kveðja Ingibjörg Ósk Þorvalds.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s