Í þessum pistli ætla ég að beina sjónum mínum að börnum sem eru að læra íslensku sem annað mál og vekja lesendur til umhugsunar um það hversu mikilvægt það er að huga að mikilvægi móðurmálsins og fyrri þekkingu barna í því ferli. Um leið vil ég taka fram að mikilvægt er að skoða alla þætti skólastarfsins þegar unnið er með fjölbreytta nemendahópa í stað þess að einblína á einn afmarkaðan þátt eins og t.d. kennslu íslensku. Of mikil áhersla á íslenskukennslu á kostnað annarra þátta hefur allt of oft þróast út í að börnum með annað móðurmál er kennt tungumálið í „sérkennslu“ þar sem þau eru tekin út úr hópnum og kennt í aðstæðum sem krefjast hvorki samskipta við jafnaldra sem tala íslensku né tengingar við það námsefni sem verið er að vinna í skólastofunni. Á Tungumálatorginu og fjölmenningarvefnum Allir með geta kennarar fundið fjölbreyttar hugmyndir að því hvernig hægt er að vinna með aðlagað námsefni og móðurmál nemenda í skólastofunni.
Fyrstu skrefin í nýjum skóla hjá barni með annað móðurmál en íslensku eru gríðarlega mikilvæg og þarf að byggja upp traust á milli fjölskyldu og skóla frá upphafi. Það tekur tíma fyrir barn að aðlagast og læra nýtt tungumál, skólinn þarf að gefa tíma til þeirrar aðlögunar og hlú að þörfum barna á hverju stigi en um leið átta sig á því að þarfirnar eru ekki þær sömu í upphafi og þegar lengra er komið. Fyrstu dagarnir í nýju málumhverfi þar sem barnið skilur ekki orð fara fyrst og fremst í það að átta sig á tungumálinu sem er allt í kringum það og að lesa í hegðun annarra og samskipti. Frá upphafi þarf að koma í veg fyrir einangrun í barnahópnum sem getur með tímanum öðlast aðrar birtingarmyndir s.s. eins og einelti eða útskúfun jafnaldra en byrja á því að virkja öll börnin strax í verkefnum og samskiptum sem krefjast ekki íslenskukunnáttu. Ótal margir þættir spila síðan inn í það hversu hratt barninu gengur að læra íslensku sem annað mál og má ekki gleyma því að hvert barn er einstakt og einstaklingsmunur í máltöku annars máls líkt og móðurmáls getur verið mikill . Aldur barna og innri þættir s.s. eins og áhugahvöt, persónuleiki og staða í móðurmáli og ytri þættir s.s. eins og umgjörð og skipulag starfsins ásamt færni kennarans og bekkjarfélaga til þess að eiga í samskiptum þvert á tungumál, hefur mikil áhrif á það hversu fljótt barnið fer að geta tekið þátt í skólastarfinu og tileinka sér íslensku.
Þá hafa viðhorf og væntingar skólasamfélagsins til nemenda mikil áhrif á möguleika þeirra til að ná árangri í námi en stundum er almenningsálitið og samfélagslega orðræðan búin að ákveða hverjir séu „góðir“ nemendur og hverjir ekki. Jákvætt viðhorf og miklar væntingar til nemenda geta hinsvegar gert gæfumuninn. Slík sýn felur í sér þá trú að börn séu almennt fær og greind og geti lært sama hver bakgrunnur þeirra er. Jákvæð sýn kemur í veg fyrir viðhorf sem einkennist af því að „kenna barninu sjálfu um“ það sem miður fer eða ákveða að það tilheyri áhættuhópi eða hópi barna sem ekki getur lært, eingöngu vegna uppruna, bakgrunns eða fyrri reynslu. Það viðhorf einkennist af því sem kalla má hallalíkan (e. deficit model) en þá er fyrst og fremst horft á það sem barnið kann ekki í stað þess að finna hvað barnið getur og byrja þar. Hlutverk fullorðins sem horfir á barn út frá hallalíkaninu er þá fyrst og fremst að „lækna“ eða „laga“ barnið.
Það getur tekið mörg ár fyrir börn að læra íslensku sem annað mál ásamt því að beita orðaforða og málfærni á þann hátt sem krafist er í náminu og þrátt fyrir að börn virðist á yfirborðinu tala ágæta íslensku þarf oft að fara í dýpri samræður við þau til að átta sig á raunverulegri kunnáttu þeirra. Hægt er að skipta málþroska eða kunnáttu barna sem læra íslensku sem annað mál í tvo megin þætti og er þá annars vegar talað um félagslegt mál ( e: Basic interpersonal communicative skills, BICS) og hinsvegar „akademískt“ mál CALP, (e:cognitive, academic language proficiancy, CALP). Talið er að það taki barn 2-3 ár að verða félagslega fært í nýju máli og 5-7 ár að ná „akademískri“ færni sem felur í sér kunnáttuna til að geta lesið sér til gagns og frekara náms. Við þurfum að átta okkur á því á hvaða stigi barnið er statt hverju sinni og mæta þörfum þess miðað við þá stöðu. Þá þarf að gæta þess að gera raunhæfar kröfur til barna, pressa ekki of mikið á að þau tali til að byrja með því slíkt getur valdið streytu og hegðunarerfiðleikum sem hefur neikvæð áhrif á þróun sjálfsmyndar og áframhaldandi nám barnsins. Of litlar kröfur til barna geta líka haft neikvæð áhrif á framhaldið og þarf skólasamfélagið að hjálpast að við að byggja upp trú barna á eigin getu með litlum en markvissum skrefum sem fela í sér þátttöku í raunverulegum verkefnum, samræðum og félagslegum samskiptum í skólastofunni.
Áhugahvöt einstaklings er talin vera helsta forsenda þess að honum gangi vel að læra nýtt tungumál. Áhugahvöt verður hinsvegar ekki til staðar ef við tileinkum okkur ekki jákvæð viðhorf til barna sem eru að læra íslensku sem annað mál auk þess sem við verðum að sýna frumkvæði og vilja til samræðu sem felur í sér að gefa og þiggja. Um leið og við bjóðum upp á metnaðarfullt skólastarf fyrir öll börn þurfum við sýna fram á þau verðmæti sem liggja í fjölbreyttri menningu þeirra og móðurmálum og bjóða börnum og fjölskyldum þeirra upp í dans frá fyrsta degi.
Fríða Bjarney Jónsdóttir
Ítarefni:
•Handbók um móttöku nemenda með annað móðurmál en íslensku í grunnskóla Reykjavíkur