Það er kunnara en frá þurfi að segja að áherslur í menntun og skólastarfi eiga það til að sveiflast eins og pendull. Einn áratuginn eiga allir að fara austur en áratuginn þar á eftir er vestrið málið. Að undanförnu hafa áhrif einstaklingshyggjunnar haft sín áhrif á starf skólanna líkt og annarsstaðar, við höfum lagt kapp á að mæta þörfum hvers og eins, einstaklingsmiðað námið og lagað það að námsstíl einstaklinganna o.s.frv. Til að undirstrika hvað barnið er sérstakt og frábrugðið þá sendum við fleiri og fleiri börn í greiningar. Finninn Pasi Sahlberg benti á það á uLead ráðstefnunni, sem haldin var í Banff í mars s.l., að aldrei hefðu fleiri börn verið greind með ADHD í Bandaríkjunum. Ég man ekki töluna sem hann nefndi en hún nægði til þess að salurinn gapti af undrun. Sahlberg sagði að í Finnlandi væri ADHD kallað bernska og þarfnaðist ekki sérstakrar greiningar. Umhugsunarvert, ekki satt?
Til að fyrirbyggja misskilning er ég ekki að halda því fram að eintaklingsmiðað nám sé slæmt.
Kveikjan að þessum pisli eru þrjár samhljóma vísbendingar um fráhvarf frá einstaklingshyggjunni í skólanum. Sú fyrsta sem ég vil nefna er áhersla menntastefnu Evrópuráðsins (Pestalozzi program) á viðbrögð við einelti. Þeir beina kastljósinu frá einstaklingnum á samfélagið. Þess vegna er ekki lagt ofurkapp á að greina þá sem eru gerendur og þolendur og lagfæra þá, heldur er litið svo á að það þurfi að byggja upp menningu í samfélaginu (bekknum, skólanum, frístundaheimilinu, íþróttaheimilinu, vinnustaðnum) þar sem ofbeldi þ.á.m. einelti nær ekki að þrífast. Einelti er með öðrum orðum félagslegur vandi fremur en einstaklingsvandi.
Næst vil ég vekja athygli á því sem fram kom í pisli hér í Krítinni; Hvernig geta leiðtogar hreyft við því sem gert er í skólum? En hann fjallaði um breytingastjórnun. Þar eru leiðtogarnir hvattir til að eyða ekki orku sinni í að breyta einstaklingum heldur beina kröftunum að því að skapa menningu fyrir breytingar. Þetta er í takti við það sem fram kom hjá Ástralanum Simon Breakspear á fyrrnefndri uLead ráðstefnu þar sem hann sagði að besta leiðin til að ná fram breytingum væri sú að vinna með þeim sem vilja breytingar og styðja þá. Það er gömul saga og ný að við breytum ekki þeim sem ekki vilja breytast, en örvandi umhverfi getur hinsvegar vakið löngun þeirra til að taka þátt í þróunarstarfinu.
Loks vil ég nefna að um daginn hlýddi ég á frásögn íslensks sérfræðings af heimsókn til norskrar sérfræðiþjónustu í málörvun barna. Það sem einkennir þjónustu stofnunarinnar er að hún leggur sig fram um að styðja leikskóla til að skapa örvandi málumhverfi fyrir börn. Þar er með öðrum orðum ekki unnið að því að lagfæra börnin heldur umhverfið. Þessi börn segja því líklega ekki eins og dóttir mín forðum; „Þetta er konan sem setti r-ið í mig.“ Þó sjálfsagt muni talmeinafræðingar áfram þurfa að einbeita sér að einstaklingnum.
Þau atriði sem ég hef nefnt finnst mér öll benda til þess að pendullinn sé að sveiflast frá einstaklingshyggjunni í skólanum í átt að umhverfinu eða samfélaginu sem hlýtur að vera spennandi fyrir þá sem hafa gaman af breytingum.
NKC