Skólinn og flughermir

bekkurRaddir þeirra sem vilja efla lýðræðislega þátttöku nemenda í skólanum hafa verið nokkuð áberandi að undanförnu. Eða kannski heyri ég bara betur til þeirra en áður. Grunnþættirnir lýðræði, jafnræði og mannréttindi endurspegla þessa hugmynd líkt og áherslan á nemendamiðað skólastarf eða rödd nemenda. „Vesen“, hugsa efalaust einhverjir en þó geri ég ráð fyrir að fleiri velti því fyrir sér hvers vegna og hvernig hægt sé að útfæra þessa þætti í skólanum.

Nýlega heyrði ég haft eftir Jóhanni Björnssyni heimspekikennara í Réttarholtsskóla að það mætti líkja skólaráðum grunnskóla við flughermi. Áður en flugmaður sest við stýri flugvélar æfir hann sig í flughermi og lærir að takast á við þau verkefni sem bíða hans þegar í alvöruna er komið. Í skólaráðum fá nemendur á sama hátt þjálfun í að starfa í lýðræðissamfélagi. Ég velti því fyrir mér hvort ekki megi taka þessa skemmtilegu samlíkingu enn lengra og líkja skólanum við flughermi. Samkvæmt lögum um grunskóla nr. 91/2008 er það er hlutverk grunnskólans að búa nemendur undir starf í lýðræðissamfélagi og staðreyndin er að það lærist ekki að sjálfu sér eins og ljóst má vera.

Í gær sótti ég tvo ólíka fundi sem áttu það sameiginlegt að beinast að því að kenna nemendum að bera virðingu hver fyrir öðrum og starfa saman. Fyrri fundurinn var á vegum samtakanna Náum áttum en yfirskrift hans var; Árangursríkar leiðir í eineltismálum. Vanda Sigurgeirsdóttir lektor við Menntavísindasvið HÍ var meðal þeirra sem flutti erindi en hún talaði um hversu mikilvægt það væri að kenna börnum að eiga vini og vera vinir. Hún, líkt og margir aðrir fræðimenn, líta fremur á einelti sem félagslegan vanda en vandamál ákveðinna einstaklinga sem þarf að passa eða refsa. Einelti verður að hennar mati oft hluti af menningu staðarins hvort sem um er að ræða bekk eða vinnustað og er jafnvel límið sem heldur hópnum saman. Það er hlutverk fullorðna fólksins að kenna börnum að eiga góð samskipti ekki síst með því að vera góðar fyrirmyndir. Kennarar þurfa að vera sérstaklega meðvitaðir um hvernig þeir koma fram við nemendur sína og leggja sig fram um að sýna þeim öllum virðingu. Foreldrar þurfa ekki síður að gæta þess hvernig þeir koma fram og tala um aðra, hvort sem það er nágranninn, vinnufélaginn eða skólafélagar barnanna.

Síðari fundurinn var á vegum SAMFOK en til hans var boðið fulltrúum skólaráða í einu hverfi í borginni. Markmiðið var að stuðla að eflingu nemenda í skólaráðum. Með lögum um grunnskóla nr.91/2008 er ákveðið að í hverjum skóla skuli starfa skólaráð. Auk skólastjóra sitja í skólaráði tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, tveir fulltrúar nemenda og einn fulltrúi grenndar­samfélags eða viðbótarfulltrúi úr hópi foreldra valinn af öðrum fulltrúum skólaráðs (sjá reglugerð). Á fundinum sögðu nemendurnir frá því hvernig þeir hefðu tækifæri til að hafa áhrif á skólastarfið og ræddu saman. Hafi ég haft einhverjar efasemdir um getu grunnskólanemenda til að velta fyrir sér hugmyndum um lýðræði og tjá skoðanir sínar þá hurfu þær á þessum fundi. Jafnframt var fjallað um markmið skólaráðs og um ábyrgð og skyldur fulltrúa nemenda í skólaráðinu.  Skólaráðin geta gefið endalaus tækifæri til að efla lýðræðislega vitund og þátttöku nemenda t.d. með kosningum á fulltrúum nemenda. Í skólaráðum vinna börn með fullorðnum á jafnréttisgrunni og taka þátt í ákvörðunum sem varða daglegt líf þeirra. Nemendur læra hvað felst í fulltrúalýðræði og þegar vel tekst til er bakland þeirra einnig virkt.

Í umræðum barnanna kom fram að áhrif þeirra ná fyrst og fremst til félagsstarfsins, lítið var rætt um áhrif nemenda á inntak eða framkvæmd náms, sem er í samræmi við það sem fram kemur í niðurstöðum rannsóknar um starfshætti í grunnskólum; nemendur telja sig almennt ekki hafa áhrif á innihald námsins og hafa litlar væntingar um það (Gerður G. Óskardóttir, 2014). Þetta er  umhugsunarvert í ljósi þess að þátttaka nemenda í skipulagi náms og kennslu og í mati er víða í brennidepli í umræðu um menntaumbætur. Algengt er að hugtakiði rödd nemenda sé notað fyrir þessa áherslu.

Ekki er til ein samhljóða skilgreining á rödd nemenda, en segja má að hugtakið sé notað í víðtækri merkingu sem einhverskonar ferli þar sem nemendur geta sett fram skoðanir sína á námi og skólastarfi og tekið þátt í ákvörðunum um það. Hafa verður í huga að rödd nemenda er ekki einungis tengd almennri þátttöku í verkefnum og möguleikum þeirra á að koma skoðunum sínum á framfæri heldur því að hafa vald til að móta nám sitt og hafa áhrif á breytingar (Thomas, 2007 í Gerður G. Óskarsdóttir, 2014). Það er með öðrum orðum verið að gefa nemendum tækifæri til að æfa sig í að lifa og starfa í lýðræðissamfélagi.

NKC

Gerður G. Óskardóttir. (2014). Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s