Íslenskt uppeldi

ísensk börnStundum velti ég því fyrir mér hvort uppeldi á íslenskum börnum sé á einhvern hátt sérstakt og frábrugðið því sem gerist hjá öðrum þjóðum og ef svo er á hvern hátt  og hvaða áhrif það hefur.

Í vetur dvaldi ég nokkra daga í Englandi. Þegar ég einu sinni sem oftar fór í strætó var hann fullur af stilltum og prúðum unglingum sem voru á leið heim úr skóla. Í vagninum var líka maður sem hafði augljóslega komið við á knæpunni. Hann sat aftasta í vagninum og talaði svo hátt í símann að það fór ekki framhjá nokkrum manni. Skyndilega æpir maðurinn í símann:“ Give him the fokking phone“. Á næsta andartaki stöðvast strætisvagninn, bílstjórinn vatt sé aftur í, benti á símamanninn og sagði ákveðið: „I won’t have any swearing in this bus“. Ég leit í kringum mig til að fylgjast með viðbrögðum unglinganna og varð satt að segja dálítið undrandi þegar ég sá að þau horfðu viðurkenningaraugum á bílstjórann. Ég velti því fyrir mér hvort svona atburður gæti átt sér stað hér heima, myndi fólk kippa sér upp við það þó einhver segði F-orðið í strætó?  Og myndu íslenskir unglingar bregðast eins við athöfnum bílstjórans? Maður sem ferðast til og frá vinnu í Reykjavík með strætó segist oft vera samferða hópum skólabarna sem eru að heimsækja safn í nágrenni vinnustaðar hans. Að hans sögn geta þessar ferðir verið mjög þreytandi því börnin eru hávær og fyrirferðarmikil. Þannig virðist strætóuppeldi þessara þjóða mjög ólíkt.

Það er sannarlega ekki þannig að uppeldi í útlöndum sé alltaf til fyrirmyndar. Ég hef t.d. orðið vitni að því að foreldrar slógu barn sitt utanundir og þegar barnið fór að gráta hugguðu foreldrarnir það með orðunum: „You know that we do this because we love you“. Hér á landi yrði þessi framkoma ekki aðeins litin hornauga hún er beinlínis ólögleg og foreldrarnir gætu átt von á afskiptum barnaverndar.

Í síðustu viku var Barnamenningarhátíðin sett í Hörpu, þar söfnuðust saman allir 4. bekkingar í borginn. Meðan 1500 börn streymdu frjálsleg í fasi en skipuleg inn í húsið bar þar að nokkra útlendinga sem höfðu orð á því hvað börnin væru óþæg. Óþægð var hins vegar nokkurn veginn síðasta orðið sem okkur Íslendingunum, sem þar vorum, datt í hug, þvert á móti fannst okkur börnin glöð og áhugasöm. Þarna kristölluðust ólíkar væntingar til hegðunar barnanna.

Það þarf ekki að fara til útlanda til að bera saman ólík viðhorf til uppeldis og hegðunar barna. Með örum samfélagsbreytingum stendur skólinn frammi fyrir fjölbreyttum fjölskyldum með ólík gildi og væntingar sem getur reynst flókið fyrir skólann að mæta. Kennarar standa reglulega frammi fyrir foreldrum sem vilja meiri aga í skólann, kannski aðallega gagnvart öðrum börnum en þeirra eigin. Svo eru líka foreldrar sem telja of mikinn aga í skólanum og vilja að börnin þeirra fái aukið frelsi. Nýlega frétti ég af barni sem hvað eftir annað mætti of seint í skólann. Þegar kennarinn kallaði foreldrana á fund til að reyna að finna lausn á vandanum sögðust  þeir ekki geta breytt þessu, fjölskyldan væri B- fólk og gæti bara ekki vaknað fyrr. Skólinn byrjaði bara of snemma fyrir þau.

Íslenskir foreldrar  gefa börnum sínum ósjaldan frí úr skóla til að fara í ferðir til útlanda eða í sumarbústaði, stundum jafnvel í nokkrar vikur. Mér skilst að slíkt heyri til algerra undantekninga í nágrannalöndum okkar. Dæmi um þetta kom fram í sjónvarpsþætti um Íslendinga í Noregi þar sem íslenskir foreldrar komust að raun um að það var síður en svo auðsótt mál að fá leyfi úr skóla fyrir barnið þeirra.

Sennilega er vafasamt að tala um íslenskt uppeldi og uppeldi í útlöndum er auðvitað ekki síður fjölbreytt og sjálfsagt enn margbreytilegra. Kannski er hinn ytri rammi sveigjanlegri hjá okkur og að einhverju leyti virðist uppeldisaðferðir okkar afslappaðri. Hvort það er slæmt eða gott er erfitt að segja. Við erum stolt af því hversu mikið hefur dregið úr vímuefnaneyslu unglinganna okkar, við erum líka stolt af þeirri blómlegu listsköpun sem hér á sér stað og birtist m.a. tónlistinni og kvikmyndum svo eitthvað sé nefnd. Frumkvöðlastarf og nýsköpun hefur líka verið mikið hér og með ólíkindum hvað þessi rúmlega 300 þúsund manna þjóð kemur í verk. Hvort þessir kostir haldast í hendur við eitthvað sem hægt er að kalla íslenskt uppeldi er ekki gott að segja. Svo má líka spyrja hvort okkur myndi jafnvel vegna enn betur með því að auka agann og reglufestuna í uppeldinu og hafa rammana skýrari.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s