Í skólastofu 21. aldarinnar getur verið erfitt að hlú að mikilvægum þáttum eins og sveigjanleika, víðsýni og lausnaleit, sérstaklega í kennslustofum þar sem mikil áhersla er lögð á að umbuna nemendum fyrir rétt svör.
Þetta kemur fram í grein um Nei-in 3 sem nemendur þurfa að fá, sem ég rakst á á twitter um daginn.
Í greininn er lögð áhersla á mikilvægi þess að nemendur fái NEI við þremur algengum spurningum, til að þjálfast í því að stunda gagnrýna hugsun.
- NEI það er ekki eitt rétt svar við þessari spurningu. Ég vil fá í það minnsta fjögur ólík svör, þar sem farnar eru ólíkar leiðir til að komast að niðurstöðu.Kennarar eru of oft fljótir að láta þar við sitja þegar „rétta“ svarið er komið frá einum úr nemendahópnum. Þá þagna þeir nemendur sem mögulega eru með annars konar „rétt“ svar. Það er erfitt að byggja upp markvissar samræður um málefni þegar einn nemandi kemur fljótt með svar sem álitið er rétta svarið. Í námi sem byggist á umræðu verður að gefa rými fyrir mörg svör, því það getur dýpkað skilning nemenda að heyra mörg sjónarmið. Til að breyta þessu þarf kennari að leita eftir mörgum svörum og dvelja lengur við sömu spurninguna svo mögulegt sé að velta upp ýmsum flötum.
- NEI það er ekki sniðmát eða fyrirfram ákveðin grind að þessu verkefni. Ég vil sjá fjölbreyttar nálganir við að mæta þeim kröfum sem gerðar eru í námskrá eða í verkefninu. Ég vil að nálganirnar ykkar endurspegli það hversu ólíka hæfileika þið hafið, hugsið á fjölbreyttan hátt og hversu margskonar leiðir þið farið við að leysa viðfangsefni. Ég vil ekki fá verkefni sem öll líta út fyrir að hafa verið skorin út úr sama mótinu.Þegar strangar reglur eru um orðafjölda, uppsetningu, stíl og uppbyggingu er hætt við því að nemendum sem sækjast eftir háum einkunnum fylgi þeim fyrirmælum af kostgæfni en leggi ekki mikið í verkefnið frá eigin brjósti. Til að gera nemendum kleift að vera á vinnustað sem er knúin áfram af forvitni og greiningu, þurfa kennsluaðferðirnar að ýta undir það að nemendur fái tækifæri til að sýna fram á það hvað þeir læra með fjölbreyttum hætti. Þegar nemendur skila af sér vel unnum verkefnum sem endurspegla þau markmið sem sett voru með verkefninu, þarf kennari að gera þá kröfu til þeirra að skila næsta verkefni á annan hátt og þannig koll af kolli.
- NEI það er ekki ætlast til að þið kynnið svör ykkar munnlega. Ég vona að mörg ykkar langi til að tala og bregðast við, en þið megið líka bara hugsa um svarið án þess að segja það upphátt. Með því að hugsa og hlusta á aðra eruð þið líka að taka þátt – þið eruð að ígrunda, greina og vega og meta. Þið getið skrifað niður hugleiðingar og hugmyndir.
Nemendur eru ekki allir sterkir í að segja skoðun sína og margir þeirra kvíða því að vera látnir tala fyrir framan hóp. Þögulir, greinandi og hugsandi einstaklingar eru ómetanlegir. Með því að orða það að ekki þurfi allir að skila munnlega af sér gefur kennarinn þessum nemendum merki um að þeir geti komið þekkingu sinni frá sér á annan hátt.
Ég held að gott sé fyrir kennara í grunn- framhalds- og háskólum að hugleiða þessa punkta þegar þeir skipuleggja kennslu sína. Það er sama á hvað skólastigi af þessum þremur það er, þær spurningar sem þessi svör eiga við, koma oft upp. Því miður virðist mér vera of algengt að við bregðumst við með því að ætlast til eins rétt svars, gefum nemendum mjög stýrt sniðmát og ætlumst til að allir skili af sér þekkingu sinni með sama hætti. Þannig drögum við líklega úr því að þeirra eigin styrkleikar blómstri en gerum það að verkum að nemendur læra að fara eftir fyrirmælum og þeir nemendur sem hentar að gera hlutina öðruvísi fá ekki tækifæri til nýta styrkleika sína og þeir jafnvel álitnir annarsflokks nemendur.
Að mínu mati ættu kennara heldur að leggja sig fram um að ýta undir fjölbreytileikann og leyfa öllum nemendum að njóta sín.
EK