Í sömu viku og grein Óttars Guðmundssonar geðlæknis birtist í Fréttablaðinu , þar sem hann gagnrýnir ofnotkun áfallahjálpar, hlustaði ég á unga stúlku lýsa því hvernig það væri að byrja í grunnskóla hér á landi eftir að hafa búið í útlöndum undanfarin ár. Það kom ekki á óvart að agaleysið varð henni að umræðuefni, við erum vön því að aðflutt börn nefni það. En það eru ekki bara nemendurnir sem tala um agaleysi, margir kennarar hafa líka áhyggjur af agaleysi og kalla eftir lausnum. En hver er skýringin á agaleysinu sem talað er um að ríki í íslenskum skólum? Er hugsanlegt að skólinn laði á einhvern hátt fram agaleysið með starfsháttum sínum eða gæti hún að einhverju leyti falist í tíðarandanum eins og Óttar lýsir honum: „Tilveran á að vera fyrirsjáanleg og þægileg…….Fólk ber ekki lengur ábyrgð á eigin viðbrögðum og tilfinningum.“
Kennarar eru vissulega mismunandi, hafa ólík viðhorf til agamála og fara mismunandi leiðir til að halda uppi aga, en ennþá hef ég engan hitt sem sækist eftir agaleysi að því marki að það valdi truflun eða vanlíðan nemenda. Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir að ábyrgð kennara sé mikil þá er réttur þeirra í skólastofunni takmörkunum háður, sem betur fer. Við þurfum ekki að horfa mörg ár til baka til að sjá að völd skólans virtust nánast ótakmörkuð og fáir komu þeim nemendum til varnar sem voru niðurlægðir og beittir ofbeldi af sumum kennurum og öðrum starfsmönnum skólans. Enginn vill að saga fólksins sem birtist í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni „Niðurlægð í tossabekkjum“ endurtaki sig.
Eins og oft vill verða í skóla-og uppeldismálum hefur pendúllinn tilhneigingu til að fara öfganna á milli því nú finnst sumum kennurum þeir varla mega anda á ákveðna nemendur öðruvísi en að foreldrar þeirra séu búnir að hafa samband við skólann til að kvarta. Vissulega ber nemendum að fylgja skólareglum og fyrirmælum kennara og annars starfsfólks, eins og meðal annars kemur fram í 14. gr. laga um grunnskóla og 4. gr. reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins, en málið er ekki alltaf eins einfalt og það gæti vist. Sem dæmi má nefna að eignarrétturinn kemur í veg fyrir að kennarar taki síma eða önnur tæki af börnunum, sem þau kom með í skólann, þó kennarinn álíti þau valda truflun. Þeir gætu átt á hættu að vera ásakaðir um ofbeldi ef þeir taka á nemendum, jafnvel þó það sé gert til að stöðva átök og þeir geta ekki vísað nemenda út úr kennslustofunni nema tryggja að hann sé undir eftirliti starfsmanns (sem oft er ekki til að dreifa). Sumir álíta að þeim foreldrum fjölgi sem skilgreina samskiptavanda barna sinna sem einelti gegn þeim og gera kröfur um að skólinn refsi hinum meintu gerendum. Til að fyrirbyggja misskilning þá er ég enganveginn að gera lítið úr eineltismálum eða vanlíðan barna, þau þarf alltaf þarf að taka mjög alvarlega. Svo haldið sé áfram á sömu nótum þá hefur heyrst að foreldrar kvarti oftar yfir því að einkunnir barna þeirra séu ekki nógu háar, slíkt þekkist jafnvel í háskólum. Það er ekki alltaf auðvelt að vera kennari og mæta ólíkum þörfum 20 nemenda og foreldra þeirra sem eiga það eitt sameiginlegt að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni eigin barns.
Umræðan um agaleysi í skólum rifjaðist upp fyrir mér við lestur greinar Óttars Guðmundssonar því það hefur auðvitað áhrif á börn og uppeldi þeirra ef hin ríkjandi samfélagsviðhorf eru þau að tilveran skuli vera fyrirsjáanleg og þægileg og að fólk eigi ekki að bera ábyrgð á eigin viðbrögðum og tilfinningum. Agamál í skólum eru nefnilega ekki einangrað fyrirbæri, þau endurspegla aðeins það samfélag sem við fullorðna fólkið höfum búið til fyrir okkur og börnin okkar. Enn á við hið fornkveðna: Það þarf þorp til að ala upp barn.
NKC