Bráðgerir nemendur

namsAf og til vaknar umræðan um afburðagreind börn, yfirleitt með því fororði að skólinn sé að bregðast þessum hópi nemenda. Því til stuðnings hefur m.a. verið bent á að niðurstöður Pisa sýni að hér á landi dreifist námsárangur nemenda tiltölulega lítið, fáir nemendur sýni mjög slakan árangur og einnig séu fáir nemendur sem sýni afburða árangur.

Ég minnist námskeiðs um kennslu nemenda með sérþarfir og bráðgerra nemenda (afburðragreindra nemenda) sem haldið var hér á landi fyrir u.þ.b. áratug síðan en meðal fyrirlesara  var Ellen Winner, eiginkona hins þekkta fræðimanns Howards Gardner.  Hún starfar sem prófessor við sálfræðideild Boston College og er sérfræðingur í málefnum bráðgerra barna. Winner útskýrði að bráðgerum börnum leiddist oft í skóla þar sem þau fái ekki nám viði hæfi og séu því oft í hópi þeirra sem verði „dropouts“. Allt of oft verði þessir einstaklingar vansælir, hæfileikar þeirra algerlega vannýttir og þeir utan garðs í samfélaginu. Ég verð að játa að þetta kom mér í opna skjöldu. Vegnar ekki klárum krökkum sérstaklega vel í skóla, eru það ekki þeir sem verða  dúxar, fljúga svo inn í virta háskóla úti í heimi áður en vinnumarkaðurinn tekur fagnandi á móti þeim til að nýta hæfileika þeirra, þeim sjálfum og þjóðinni til heilla?

Mér er ekki kunnugt um að íslenskir skólar séu að leggja sig sérstaklega fram um að koma til móts við bráðgera nemendur. Hugsanlega er litið svo á að í skóla án aðgreiningar sé þörfum allar nemenda mætt hverjar svo sem þær eru. Samkvæmt dönskum fjölmiðlum þá þessu öðru vísi varið þar í landi en árið 2010 var þriðji hver skóli með sérstaka áætlun fyrir bráðgera nemendur. Þeir sem rannsakað hafa þessar áætlanir eru þó ekki allskostar ánægðir. Gæðin eru ófullnægjandi segja þeir Baltzer, Kyed og Nissen. Í megindráttum skipuleggja kennararnir kennsluna enn þannig að hún hæfir þörfum meðal nemandans og sjaldnast með þeim hætti að bráðgerir nemendur þurfi  að takast á við verðugar áskoranir. Dæmigert er að reynt sé að koma til móts við þarfir þeirra með því að láta þá fá aðeins þyngri bók en hinir eru með. Það felst hinsvegar ekki nægileg áskorun í því að fá bara meira af því sama. Bráðgerir nemendur hafa þörf fyrir annarskonar viðfangsefni og í mörgum skólum er hvorki næg þekking né úrræði til staðar.

En hvað einkennir bráðger börn? Á danskri Facebooksíðu Fokus på Højt begavede børn eru eftirtalin einkenni tilgreind:

  • Þau hafa mikla námshæfileika
  • Þau eru afar forvitin
  • Þau hafa oft sterka réttlætiskennd
  • Þau hafa mikið minni
  • Þau hafa oft lært af sjálfu sér að lesa og reikna áður en þeir byrja í skóla
  • Það er oft ósamræmi í þroska þeirra, þau eru á undan sínum jafnöldum hvað varðar greind en á eftir hvað varðar annan þroska og tilfinningar
  • Þau hafa annarskonar kímnigáfu en önnur börn sem gerir það að verkum að þau eru oft misskilin
  • Þau hafa oft önnur áhugamál en jafnaldrarnir t.d. skák, fána, sögu
  • Þau eru sérstaklega viðkvæm
  • Þau hafa oft litla svefnþörf
  • Þau vilja helst sífellt vera að læra
  • Þau eru sí spyrjandi
  • Þeim finnst yfirleitt betra að vinna ein
  • Þau gera verið með mikla fullkomnunaráráttu
  • Þau kjósa oft eldri eða fullorðna vini
  • Það er svolítið meira af öllu í þeim

Þegar önnur börn þekkja köngulær, þekkja þau oft margar tegundir skordýra. Þegar önnur börn þekkja sólina, þekkja þau kannski allt sólkerfið. Þegar önnur börn lesa léttlestrarbækur lesa þau fagbækur. Þegar önnur börn spila Svarta Pétur tefla þau.

Nýjar danskar rannsóknir sýna að mörgum af gáfuðustu nemendum skólans líður ekki vel þar hvorki námslega né félagslega. Þetta bitnar ekki aðeins á börnunum sjálfum heldur einnig á samfélaginu sem fer á mis við dýrmæta hæfileika. Á ráðstefnu sem haldinn var í Háskólanum í Árósum var leitað svara við spurningum varðandi bráðger börn. Hér má sjá upptökur frá ráðstefnunni

Eins og ég nefndi í upphafi þá er mér ekki kunnugt um að það sé sérstaklega reynt að koma til móts við þarfir bráðgerra nemenda í skólum hér á landi. En ef grunur minn reynist réttur er áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna.  Við virðumst koma nokkuð vel til móts við nemendur með annarskonar sérþarfir og eigum vel menntaða sérkennara og aðra sérfræðinga til að tryggja velferð þeirra. Er hugsanlegt að bráðgera nemendur skorti talsmenn í skólakerfinu, einstaklinga sem hafa skilning á hlutskipti þeirra?

NKC

One response to “Bráðgerir nemendur

  1. Bakvísun: Sinna íslenskir skólar afburðagreindum börnum? | Innihald.is | Þjóðmál – Afþreying·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s