Da Vinci línan – fyrir nemendur sem vilja læra

davinciÍ framhaldi af pisli mínum um bráðgera nemendur hef ég hugleitt þann vanda sem kann að felast í því að skilgreina hverjir tilheyra þessum hópi og hverjir ekki. Eru það foreldrar barnanna, skólinn eða e.t.v. greindarpróf sem eiga að gera það?   Er kannski ekki nauðsynlegt að nota þessa flokkun til að koma betur til móts við umrædda nemendur?

Meðal verkefna sem hrint hefur verið úr vör í Danmörku, í því skyni að koma betur til móts við námfúsa nemendur, er Da Vinci linan í  Blåbjerggårdskolen í Esbjerg. Verkefnið hófst haustið 2009.  Um hefur verið að ræða einn – tvo bekki í hverjum árgangi unglingastigsins, en skólinn er heildstæður með eru u.þ.b. 500 nemendur. Fyrstu þrjú árin fylgdu Kirsten Baltzer og Poul Nissen við Árósárháskóla eftir framvindu og árangri verkefnisins.

Í einu myndbandanna sem ég vísaði til í pisli mínum um bráðgera nemendur segja skólastjóri, verkefnastjóri, nemandi og foreldri frá reynslu sinni af Da Vince línunni. Einnig er að finna upplýsingar í skýrslu Baltzer og Nissen

Nemendurnir í Da Vince línunni koma úr ýmsum skólum í  Esbjerg, einnig hafa nokkrir nemendur komið frá nærliggjandi sveitarfélögum. Ekki er gerð sérstök krafa um greind nemenda heldur er markmiðið að koma til móts við þá sem geta og vilja læra meira. Eða eins og segir á heimasíðu línunnar:

Da Vinci Linjen er for elever, der holder af at lære og har let ved det. På Da Vinci Linjen tilgodeses elever, som har brug for personlige og faglige udfordringer og ønsker at udnytte deres evner fuldt ud.

Nemendurnir telja sig ekki hafa verið í nægilega ögrandi námsumhverfi, að kröfur til þeirra hafi ekki verið fullnægjandi, væntingar kennaranna of litlar og ríkjandi viðhorf bekkjarfélaganna þau að ekki sé flott að vera góður námsmaður.

Til að komast inn á línuna þarf umsækjandi að mæta í viðtal ásamt foreldrum sínum. Þar gera þeir grein fyrir ástæðu umsóknarinnar og fá upplýsingar um starfið. Áhersla er lögð á ábyrgð og hlutdeild foreldra.  Skólastjórinn tekur fram að áhugi foreldra fyrir inngöngu sé aldrei nægileg ástæða, heldur þurfi nemandinn sjálfur að sýna vilja og áhuga á að leggja meira á sig í náminu og ná betri árangri.  Eftir viðtalið fá nemandinn og foreldrar hans umhugsunarfrest en í kjölfarið hringir nemandinn sjálfur í skólastjóra til að staðfesta áhuga sinn.

Nokkrir nemendur hafa hætt námi á Da Vince línunni og örfáum nemendum hefur verið vikið frá, ekki vegna ófullnægjandi námsárangurs heldur vegna þess að þeir hafa ekki sýnt sjálfum sér og samnemendum sínum næga virðingu.

Námið í Da Vince línunni gengur út frá því að eitt snið geti ekki passað öllum heldur er kennslan allaf sniðin að þörfum hvers og eins. Ekki er um hraðferð að ræða heldur frekar dýpkun á náminu. Nemendur læra að þekkja styrkleika sína og byggja nám sitt á þeim og áhugamálum sínum t.d. tónlist og íþróttum um leið og leitast er við að styrkja veikleikana. Námið virðist fjölbreytt og að sumu leiti óhefðbundið. Bæði er um að ræða einstaklingsverkefni og hópverkefni. Nemendur vinna að skilgreindum markmiðum, áhersla er lögð á sjálfstæði nemendanna og ábyrgð.  Allir fá persónulegan markþjálfa úr hópi kennara. Da Vince línan starfar í samvinnu við menntaskóla og einnig er um að ræða nemendaskipti við erlenda skóla og námsferðir til útlanda.

Ekki er annað að sjá en að þátttakendur séu afar ánægðir með Da Vince línuna, skólastjóri og kennararnir fagna þessu nýja námsumhverfi  og nefna dæmi um það hvernig vinnubrögð þess hafi haft jákvæð smitandi áhrif á viðhorf og vinnubrögð annarra  nemenda og kennara í skólanum. Nemendur og foreldrar virðast ekki síður ánægðir með  Da Vince línuna og rætt er um nýtt landslag í skólaheiminum.

Umfjöllunin um Da Vince línuna vekur óneitanlega ýmsar áleitnar spurningar, fyrst og fremst þá hvort það sér virkilega þörf fyrir að vera með sérstaka bekki fyrir nemendur sem vilja læra. Ef svo er hvað segir það okkur um skólann?

NKC

One response to “Da Vinci línan – fyrir nemendur sem vilja læra

  1. Ég tek heilshugar undir með þér Nanna, að Da Vince línan vekur ýmsar áleitnar spurningar. Þetta eru í raun umbúðir utan um námsleið fyrir nemendur sem eiga að fá úrvalskennslu í skólakerfinu, í skóla sem á að vera fyrir alla, en stendur þó ekki öllum til boða. Öll börn vilja læra og öll börn vilja fá að tilheyra og vera viðurkennd í sínum hópi. Þeir nemendur sem fá nám við hæfi, þeim þykir gaman að læra og eiga auðvelt með það, þ.e. „…holder af at lære og har let ved det.“ Og ég hef ekki enn, eftir 25 ára grunnskólakennslu frá 3.-10. bekk, hitt nemanda sem ekki hafði þörf fyrir persónulegar áskoranir í sínu námi og óskaði eftir að geta nýtt hæfileika sína til fulls (sbr. …som har brug for personlige og faglige udfordringer og ønsker at udnytte deres evner fuldt ud.). Áskoranir skóla eru fólgnar í því að skipuleggja skólastarfið og kennsluna þannig að komið verði til móts við ólíka getu, áhuga og þarfir þeirra nemenda sem fylla nemendahópinn hverju sinni, eins og raunar grunnskólalögin og aðalnámskráin hafa boðað um áratugaskeið, allt frá árinu 1974 þegar fyrstu grunnskólalögin voru sett.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s