Af og til verður umræðan um hvort kennsla í grunnskólum eigi að vera miðstýrð eða ekki meira áberandi en ella og áherslurnar sveiflast endanna á milli. Það má jafnvel orða það svo að síðustu áratugina hafi áherslan í grófum dráttum ýmist verið á kerfið sem heild, sjálfstæði kennarana eða á sjálfstæði skólanna.
Ég minnist þess að á áttunda áratuginum var algengt að námsefni skólanna fylgdu svo nákvæmar kennsluleiðbeiningar að kennurum voru nánast lögð orð í munn auk þess sem gjarnan voru haldin tilheyrandi kennaranámskeið til að tryggja réttan skilning og framkvæmd í skólastofunni. Þannig er þessu m.a. farið í Englandi. Sem dæmi má nefna að þar er gert ráð fyrir að allir 11 ára nemendur þjálfist í að skrifa texta sem sýnir sjónarmið sögupersóna út frá ólíku sjónarhorni og skólayfirvöld tryggja að viðeigandi gögn séu til staðar.
Svo hafa komið tímabil þar sem skólinn hefur einna helst líkst regnhlífasamtökum sjálfstætt starfandi sérfræðinga og skólastofann verið ríki kennarans. Þá er áherslan á sjálfstæði kennaranna og stundum einstakra teyma og að hver og einn fari þá leið sem honum hugnast best. Það fer ekki alltaf mikið fyrir námsskrám og kennsluáætlanir geta jafnvel þótt hamla sköpunarkrafti kennarans og dagsforminu. Skólastjórinn á að vera fremstur meðal jafningja, treysta kennurum skólans og halda sig frá kennslustofunum og faglegum ákvörðunum, nema upp komi vandi sem kennarinn treystir sér ekki til að takast á við.
Nú virðist mér sem ákvarðanir um markmið náms og kennslu séu teknar miðlægt (aðalnámskrá) en að kennsluaðferðir innan hvers skóla séu samræmdar. Hugmyndin er að skólastjórinn sé faglegur leiðtogi og beri ábyrgð á því að kennararnir samhæfi vinnubrögð sín í samræmi við yfirlýsta stefnu skólans.
Sjálfsagt er mismunandi hvað kennurum hugnast best og líklega má finna bæði kosti og galla í öllum þessum áherslum. Það getur óneitanlega verið þægilegt að starfa undir styrkri miðstýringu og fá vel hannað námsefni með kennsluáætlunum og leiðbeiningum upp í hendurnar en þeir sem gagnrýna þessa stefnu benda gjarnan á að með henni sé gert lítið úr fagmennsku og ábyrgð kennarans auk þess sem hún hamli faglegri þróun innan hvers skóla og að skólarnir verði of einsleitir.
Það segir sig sjálft að skapandi og hugmyndaríkir kennarar geta blómstrað þegar sjálfstæði þeirra er virt. Reynslan sýnir að kennarar sem byggja starf sitt á faglegri þekkingu og færni standa oft fyrir áhugaverðum þróunarverkefnum sem því miður ná oft ekki út fyrir dyrnar á kennslustofunni. Gagnrýni á sjálfstæði kennara felst einmitt í því að fagþekkingin hefur tilhneigingu til að einangrast í kennslustofunni. Einnig má búast við því að flóknara sé að samræma reglur um samskipti og aga í skólanum auk þess er erfiðara getur reynst að tryggja öllum nemendum góða kennslu, heppni þeirra fellst í því að lenda hjá góðum kennara.
Þegar áherslan er á samræmda stefnu og vinnubrögð innan hvers skóla skiptir fagleg forysta stjórnenda öllu máli ásamt færn
i þeirra til að byggja upp góða liðsheild. Mikilvæg forsenda þess að samræmingin nái fótfestu er virk fagleg umræða allra starfsmanna skólans í því skyni að tryggja hlutdeild þeirra í stefnunni og starfsháttum. Allir þurfa að geta tekið undir þegar sagt er: „svona kennum við hér“. Sennilega er þetta vandasamasta fyrirkomulagið því það reynir mikið á persónulega og faglega færni starfsmanna. Líklega felst helsta gagnrýnin í því að samvinnan er tímafrek, auk þess sem hún getur dregið úr sjálfstæði kennara og áhuga þeirra sem ekki eru fyllilega sannfærðir.
Enda þótt það sé afar mikilvægt að kennarar séu sáttir í starfi sínu og að hæfileikar þeirra nýtist sem best snýst málið samt fyrst og síðast um velferð nemendanna, það er þeirra vegna sem skólinn er til og hlutverk okkar kennara er að vinna að menntun þeirra og uppeldi í samstarfi við foreldra þeirra og yfirvöld. Spurningin snýst um það hvaða hæfni, þekkingu og viðhorf við viljum að nemendur búi yfir þegar þeir yfirgefa grunnskólann og hvaða fyrirkomulag tryggir best að allir nemendur nái þeim markmiðum.
NKC
Góð hugleiðing sem sýnir hvað sjónarhornin eru mörg. Eitt sjónarhorn í viðbót: Ef grunnskólinn er fyrst og fremst fyrir nemendur (en ekki kennarann eða skólastjórann eða foreldrana eða yfirvöld menntamála…) hvers vegna er þeim þá skylt að sækja hann? Ætti það ekki að vera ákvörðun forráðamanna, eins og annað sem varðar börn (með viðurlögum yfirvalda ef um alvarlega vanrækslu í uppeldi er að ræða)? Er afnám skólaskyldu ekki einnig forsenda fyrir því að gera skólastarf lýðræðislegt í reynd?