Margt bendir til að farið sé að horfa til þess í fullri alvöru hér á landi að stytta tímann til stúdentsprófs til samræmis við það sem gerist víða í útlöndum. Það þýðir væntanlega að nemendur geta hafið nám í háskóla a.m.k. ári fyrr en almennt tíðkast hér. Nú þegar lýkur hluti nemenda námi í framhaldsskóla á skemmri tíma en fjórum árum auk þess sem grunnskólanum er heimilt að útskrifa nemendur áður en tíu ára skyldunámi er lokið enda hafa ýmsir aðilar bent á að sveigjanleiki til styttingar skólagöngu grunn-og framhaldsskóla liggi nú þegar fyrir. Eftir því sem mér er kunnugt um er það samt sem áður þannig að flestir nemendur eru a.m.k. 14 ár á ferð sinni í gegnum grunn- og framhaldsskólann og hvert skólaár er dýrt fyrir samfélag sem er á hausnum og því eðlilegt að kanna hvort hægt sé að tryggja nemendum jafn góða menntun á skemmri tíma. Eins og ég hef áður bent á spyrja erlendir sérfræðingar í skólamálum, sem heimsækja íslenska skóla, stundum að því hvort við séum að gera nægar kröfur til nemenda okkar og vísa til þess að sumir nemendur virðast ekki vera að nýta tímann nægilega vel í skólanum.
Í rannsókn Gerðar G. Óskarsdóttur á skilum skólastiga þar sem hún skoðar skil skólastiga beggja vegna grunnskólans kemur fram að samfella í námi nemenda er almennt mikil en þó er nokkuð um afturhvert rof, sem merkir að nemendur eru látnir fást við verkefni sem þeir hafa áður unnið með á fyrra stigi, og telur Gerður þörf á úrbótum hvað þetta varðar. Slík endurtekning bæði óhagkvæm og leiðinleg auk þess sem það er hrein lítilsvirðing við nemendur að koma ekki til móts við þá þar sem þeir eru staddir.
Ég hef saknað þess að fyrsta skólastigið þ.e. leikskólinn skuli ekki vera tekinn meira með í umræðuna um styttingu skólagöngunnar því í mínum huga er eðlilegt að líta á nám nemenda frá a.m.k. fjögurra ára aldri til átján – nítján ára aldurs sem eina samfellu. Hver segir að börn geti ekki byrjað að lesa, skrifa og reikna fyrr en í lok ágúst árið sem þau verða sex ára og þá öll á sama tíma, burtséð frá því hvort þau eru fædd í janúar eða desember? Staðreyndin er raunar sú að flest börn kunna töluvert fyrir sér í lestri þegar þau byrja í grunnskóla þó skólinn geri oft ekki ráð fyrir því, sem er talandi dæmi um afturhverft rof.
Í sumum nágrannalanda okkar byrjar hið eiginlega skólastarf þegar börnin eru á fimmta ári og mörg þeirra eru orðin vel læs og skrifandi ári síðar. Ég get ekkert fullyrt um hvort tíma þeirra væri betur varið í önnur verkefni en það sem ég hef séð ber ekki vott um annað en að börnunum líði vel og að þau séu stolt af árangri sínum. Við þurfum auðvitað að svara því hvort það sé eftirsóknarvert að sex ára barn geti lesið og skrifað á við það sem við væntum almennt af átta ára barni í dag, en það er greinilega vel hægt og myndi væntanlega breyta skólastarfinu töluvert.
Uppbygging skólans eins og hún er hjá okkur er vitaskuld ekkert náttúrulögmál enda er hún mismunandi eftir löndum. Í Bretlandi og víðar hefja börn t.d. skólagöngu þegar þau eru á fimmta ári og eru á fyrsta stiginu (Primary School) þar til þau eru ellefu ára. Þá tekur við næsta skólastig (High School) þar sem nemendur eru almennt til sautján ára aldurs.
Þó tíminn sé peningar, sem skipta óneitanlega miklu máli, er auðvitað mikilvægast að tíminn í skólanum sé nýttur þannig að bæði einstaklingarnir og samfélagið njóti góðs af. Flest kjósum við að lifa í samfélagi þar sem lýðræði og jafnrétti er haft að leiðarljósi og þar sem fjölbreytni ríkir m.a. í menningu og atvinnulífi. Starf skólans þarf umfram allt að taka mið af því.
NKC
like etta!