Það líður senn að skólabyrjun. Vonandi eru flestir fullir tilhlökkunar og með fiðring í maganum af spenningi yfir að vera að fara að hitta skólafélaga og samstarfsfólk aftur eftir sumarfrí og eru tilbúnir að takast á við krefjandi verkefni vetrarins. Þó við vonum það þá vitum við að það á ekki við um alla. Kennarar þekkja það vel að sumir nemendur kvíða því að mæta í skólann. Kennarar reyna að sýna þeim tilfinningum nemenda skilning með ýmiskonar aðlögunarvinnu sem oft er unnin í samstarfi við foreldra og fleiri séfræðinga innan skóla og utan.
Í brandaranum sem fylgir hér með er annar vinkill sem ég hef ekki orðið vör við að sé mikið í umræðunni.
Þeir kennarar sem kvíða skólabyrjun hafa kannski ekki hátt um það nema í hálfkæringi. Fyrir þá er líklega eina úrræðið að herða sig upp, bíta á jaxlinn og mæta nemendum þegar skólabjallan hringir. Vonandi er kvíði þeirra flestra það léttvægur að hann bráir af þeim þegar rútínan hefur komist á. Ef hann gerir það ekki er mikilvægt að geta leitað sér hjálpar. Því þó enginn hafi lofað því að kennsla væri auðveld er mikilvægt að fólk geti leitað aðstoðar þegar vinnan er að verða því ofviða. Það á ekki síst við um fólk sem vinnur með annað fólk. Samstarfsfólk getur stutt hvort annað, en það dugar ekki alltaf og þá er mikilvægt að þekkja möguleika á utanaðkomandi aðstoð. Það er ekki einungis mikilvægt fyrir þann kennara sem umræðir heldur ekki síður fyrir nemendur hans og þann skólabrag sem skólinn sem hann starfar í einkennist af. Til að hægt sé að vinna bug á vandamálum þarf yfirleitt fyrst að horfast í augu við þau. Afneitun leysir engan vanda.
EK
Miðað við viðbrögð á færslu sem ég setti inn á lokaðan hóp grunnskólakennara þá er ansi stór hópur sem finnur fyrir kvíða fyrir skólabyrjun og upplifir streitu í upphafi skólaárs. Ljóst er að mörgum finnst erfitt að samræma vinnu og einkalif. Þetta er áhyggjuefni og þyrfti að huga mun betur að en gert er.